Eyðingarafl atvinnuleysis

Það er erfitt að ímynda sér samfélag þar sem meira en fjórði hver vinnufær einstaklingur er án atvinnu.

En Spánverjar þurfa ekki að ímynda sér neitt í þeim efnum, þeir búa í slíku samfélagi.  Samfélagi þar sem um 60% ungs fólks er án atvinnu og þeim heimilum fjölgar dag frá degi, þar sem enginn hefur vinnu.

Atvinnuleysi eykst mánuð eftir mánuð, þrátt fyrir að stórir hópar flytji frá landinu.  Ráðamenn kunna engin ráð, en boða meira af því sama.

Svona fer fyrir þjóðum sem hafa misst samkeppnishæfi sitt.

Þar sem gjaldmiðillinn endurspeglar efnahagslegan raunveruleika - í öðrum löndum.

Þar sem innlend fyrirtæki verða ekki samkeppnishæf við erlend.

Þegar land hefur að mestu leyti Þýskan gjaldmiðil, en Spænskan efnahag.

Þá kemur atvinnuleysið eins og nótt fylgir degi, eftirspurnin dregst saman og fátt er til ráða, nema að lækka launin, draga úr réttindum, hækka skatta, skera niður ríkisútgjöldin.

Launin lækka, húsnæðiverð hrynur, bætur eru skertar, atvinnuleysi eykst,  en gjaldmiðillinn stendur nokkuð keikur vegna þess að önnur ríki leyfa honum ekki að falla.

Ekki vegna þess að önnur ríki gætu ekki unnt Spænskum gjaldmiðli að falla, en þau mega ekki við að styrkja útflutningsstöðu Þýskalands.

Fyrir þá sem eiga gnógt í handraðanum er það auðvitað gott, þeir flytja fé sitt úr landi, opna reikninga í Sviss og kaupa fasteignir í Þýskalandi.

Svissneski seðlabankinn tekur svo euroin sem koma frá "Suðurríkjunum" og kaupir fyrir þau erlend ríkisskuldabréf, að stórum hluta Bresk og Þýsk.

En atvinnuleysið eykst enn.  Þess vegna undirbýr Rauði krossinn stórfellda aðstoð í Suður-Evrópu.  Ekki veitir af, því ef spár um hækkandi matvælaverð ganga eftir er hætt við að þrýstingurinn aukist og örbirgðin magnist.


mbl.is Sex milljónir án atvinnu á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í fyrsta skipti í sögu þeirra fer atvinnuleysið yfir 26%, aðallega vegna niðurskurðar í opinbera geiranum. 60% ungs fólks er nú atvinnulaust þarna. Enn er búist við auknu atvinnuleysi.

Svo eru vísbendingar um Spánverjar þurfi á neyðarláni að halda í ár frá Troika þríeykinu en þaðan fá þjóðir ekki lán nema gegn auknum niðurskurði.

Og allt er þetta tilkomið vegna evrunnar, þess gjaldmiðils sem kratar hérlendis halda vart vatni yfir.

Flowell (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 08:53

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Að vissu marki má segja að orsakirnar séu svipaðar á Spáni og Íslandi.

Ódýrt fé flæddi til Spánar, vextir voru lægri en verðbólga o.s.frv.  Gríðarleg húsnæðis og eignabóla varð til.

Ódýr erlend lán flæddu einnig til Íslands, vextir af þeim voru lægri en verðbólgan.  Gríðarleg húsnæðis og eignabóla varð til  Allir ætluðu að græða.  Því dýrari fasteign sem var keypt og hærra lán tekið, því meiri átti gróðinn að vera.  Sama gilti í hlutabréfakaupum.

Allt fór upp, nema vextirnir á erlendu lánunm.  Svipað gerðist á Spáni.  Allir voru ríkir, allir voru í plús og allir voru hamingjusamir.

Þannig tóku þessar þjóðir gríðarlegt magn af "lífskjörum" út fyrirfram.

En það eru afleiðingarnar sem urðu mismunandi og vel þess virði að skoða og velta fyrir sér.

Á Íslandi gjaldféll allt með krónunni.  Laun, fasteignir, banka innistæður, o.s.frv.  Atvinnuleysi jókst, en tók fljótt að minnka með sterkari úrflutningsstöðu.  Þeir sem áttu eitthvað í handraðanum sáu raunvirði þess minnka og lokuðust inni í krónunni.

Á Spáni, kom atvinnuleysissprengja sem enn bólgnar út.  Húsnæðisverð hrapaði, laun lækkuðu gjarna (ekki einhlýtt), en gjaldmiðillinn hélt nokkuð velli.  Þeir sem áttu eitthvað í handraðunum héldu sína og sáu hlutfallslegt verðmæti þess aukast (t.d. gagnvart fasteignum).  Þeir nýttu sér hins vegar gjarna að flytja fé sitt úr landi.

Þetta er auðvitað stórlega einfölduð mynd sem upp er dregin.  En það er verulega vert að skoða þessar sviðsmyndir og velta því fyrir sér hvort er heillavænlegra fyrir land og þjóð, til lengri tíma litið.

G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2013 kl. 09:31

3 identicon

Jújú, það voru t.d. gríðarleg mistök að allir fengu lánað á svipuðum kjörum til að byrja með, einungis vegna þess að það átti að vera svo öruggt að vera í evrusamstarfinu. Þ.a. að allar S-Evrópuþjóðir gátu slegið á lán, oftar en ekki frá Þjóðverjum, á sömu kjörum og Þjóðverjar. Slíkt var ávísun á eignabólur og versnandi samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja i þeirri umgjörð sem ríkti, og ríkir enn, í þessu gjaldmiðlasamstarfi. Sér í lagi þegar litið er til þess að Þjóðverjar halda launakostnaði niðri og halda þannig samkeppnishæfni sinni. Enn á eftir að ráðast á grunnvanda samstarfsins og alls óvíst að það takist vegna pólitískrar sundrungar. Með öðrum orðum; þjóðirnar í norðri þurfa á endanum að samþykkja að niðurgreiða lífskjör þjóða í suðri ef evran á að lifa af.

Flowell (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband