28.11.2012 | 10:23
Forréttindi þeirra sem ferðast
Ég hef séð að nú er býsna mikið rætt um það á Íslandi að nauðsynlegt sé að þeir sem ferðist fái að koma með meiri og dýrari vörur inn í landið án þess að greiða af þeim tilskilin gjöld.
Þetta er ekki ný umræða, reyndar held ég að hún skjóti upp kollinum, af mismklum krafti þó, fyrir flest jól.
En út af hverju ættu þeir sem ferðast að njóta frekari fríðinda en þeir sem sitja heima?
Út af hverju snýst umræðan ekki frekar um hvernig standi á því að hægt sé að kaupa ferð til útlanda og spara andvirði hennar með því að kaupa fáa en dýra hluti í ferðinni?
Út af hverju ættu þeir sem heima sitja frekar að greiða háa tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt til hins opinbera, en þeir sem ferðast?
Er þá ekki rétt að krefjast þess að þeir sem panta vörur á internetinu fái sömuleiðis tollfrían "kvóta"?
Eiga ef til vill allir Íslendingar að fá "kvóta" sem heimilar þeim að flytja inn vörur fyrir ákveðna upphæð á mánuði án gjaldtöku, hvernig sem staðið er að innflutningnum?
Hvað er svona merkilegt við að ferðast?
Ég held að Íslendingar ættu frekar að berjast fyrir lægri álögum, þannig mætti líklega flytja þó nokkuð mikla verslun "heim" sem myndi bæta hag allra.
Það að auka forréttindi þeirra sem ferðast getur varla verið forgangsatriði í dag.
P.S. Allra síst á auðvitað að vera að hnýta í tollverði, sem gera ekkert nema að sinna því starfi sem þeir eru ráðnir í og framfylgja þeim lögum sem í gildi eru.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ferðalög, Fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.