23.10.2012 | 12:09
Tillögur en ekki frumvarp
Það er býsna fróðlegt að fylgjast með umræðum um nýafstaðna ráðgefandi atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs.
Sumir tala nú um frumvarp stjórnlagaráðs og að því megi Alþingi ekki gera neinar breytingar á, alla vegna ekki sem heitið geti. Breyta megi orðalagi en varla meir.
Það er þó rétt að hafa í huga hvernig fyrsta spurningin á kjörseðlinum var. Þar var talað um tillögur stjórnlagaráðs og að þær yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.
Ekkert var minnst á frumvarp, eða að það yrði gert að stjórnarskrá.
Það var ekki spurt, vilt þú að frumvarp stjórnlagaráðs verði að stjórnarskrá Íslands. Það var ekki einu sinni spurt: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði að stjórnarskrá Íslands.
Það var rætt um tillögur og að leggja þær til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Einhver algengasta notkunin á orðinu grundvöllur er líklega orðið umræðugrundvöllur. Þannig ætti líka að mínu mati á líta á tillögur stjórnlagaráðs.
Í mínum huga er reginmunur á milli frumvarps og tillagna. Í mínum huga er sömuleiðis himin og haf á milli þess hvort eitthvað er lagt til grundvallar, eða það eigi að verða að einhverju óbreytt.
Spurningin er orðuð eins óljóst og vítt og mögulegt er, en síðan vilja ýmsir stjórnmála og stjórnlagaráðsmenn túlka svarið eins þröngt og mögulegt er.
Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma sérlega á óvart. Þetta er nokkuð í stíl við vinnubrögðin hingað til, þar sem málið hefur verið keyrt áfram af nokkru offorsi og óðagoti.
En nú er malið komið til kasta Alþingis, það þarf ekki að taka við fyrirmælum frá einum eða neinum, hvort sem þeir hafa setið í stjórnlagaráði eður ei.
Það er óskandi að Alþingi vandi umfjöllum sína um stjórnarskrá Íslendinga og vinni að henni með þeim sóma sem hún á skilið.
P.S. Skýr vilji þjóðarinnar kom ekki fram í kosningunum á laugardaginn. Ekki nema að þeir sem ekki greiddu atkvæði teljist ekki til þjóðarinnar.
Á laugardaginn kom hins vegar nokkuð skýr vilji meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði.
Á þessu tvennu er mikill munur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.