21.10.2012 | 08:35
Léleg kjörsókn, en það eru þeir sem mæta sem telja
Þó að nú upphefjist líklega mikill spuni i þá átt að telja Íslendingum trú um að það sé öldungis frábært hve margir hafi mætt á kjörstað, finnst mér engin leið önnur en að segja að kjörsóknin hafi verið léleg.
Þegar innan við helmdingur atkvæðisbærra einstaklinga mætir á kjörskrá er það léleg þátttaka. Þegar svarhlutfall í skoðanakönnunum er í álíka hlutfalli, þykja þær kannanir ekki veita sterkar vísbendingar.
Það er því ekki hægt að segja að "þjóðin" hafi kallað eftir nýrri stjórnarskrá. Réttara væri að segja að hávær og pólítískt akvtívur minnihluti hafi framkvæmt hrópið. Miðað við kjörsókn og þá sem u.þ.b. 2/3 sem sögðu já, er það í kringum þriðjungur kosningabærra.
En hitt er svo rétt að hafa í huga, að það eru atkvæði þeirra sem mæta á kjörstað sem eru talin. Þeir sem ekki mæta eru ekki með í þeim útreikningum, þó að þeir kunni að hafa verið í upphaflega menginu.
Þannig virkar lýðræðið, það telur ekki að sitja heima.
En Íslendingar hafa sýnt það áður að sé greitt atkvæði um mál sem þeim finnst skipta þá máli og þeim finnst brýnt, þá mæta þeir á kjörstað, mun betur en þeir gerðu í þetta sinn.
Því miður virðist ný stjórnarskrá ekki vera slíkt mál og meirihluti Íslendinga hefur ákveðið að leiða það hjá sér. Það er slæm staða.
En þetta hlýtur að leiða til þess að tillaga stjórnlagaráðs verði höfð að miklu leyti til hliðsjónar við samningu nýrrar stjórnarskrá. Það þykir mér vond tilhugsun, en ég hlýt að vona að á Alþingi náist samstaða um að sníða af þeim stærstu og augljósustu vankantana. Það er þó engan vegin víst.
P.S. Ég sá það einhversstaðar á netinu að samhliða þessum kosningum hefði verið kosið um staðsetningu frístundabyggðar nálægt Dalvík. Þar hefði bæjarstjórinn gefið út þá yfirlýsingu að til að kosningin yrði "bindandi", þyrfti kjörsókn að vera í það minnsta 65%.
Staðsetning frístundabyggðar er háalvarlegt mál, og flestum augljóst að þar þarf að setja verulega harðari umgjörð en þegar fjallað er um stjórnarskrá. Eða er það ekki?
66,2% sagt já á landsvísu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er sjálfsagt eitt klúður allt saman vegna þess að margir af þeim sem sögðu já vissu til dæmis ekki að með því að segja já þá væru þeir að samþykkja það að alla óreiðureikningar í framtíðinni eins og Icesave yrðum við skyldug að borga hvort sem okkur líkar betur eða verr...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 21.10.2012 kl. 09:41
Þetta er fáránleg fullyrðing hjá þér Ingibjörg Guðrún. Það er ekki á nokkurn hátt verið að skerða neitunavald forseta og því er ekki verið að koma í veg fyrir kosningar eins og Icesave kosninguna í framtíðinni. Reyndar á enn eftir að koma í ljós hvort við þurfum að greiða srórar upphæðir í Icesave málinu því það er nú fyrir dómstólum og þar getur niðurstaðan hæglega orðið mun verri en sá samningur sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er nefnilega alger misskilningur að sú þjóðaratkvæðagreiðsla hafi snúist um það hvort við ættum að borga eða ekki. Hún sersit um það hvort við semdum í málinu eða tækjum áhættu fyrir dómstólum. Gallinn var hins vegar sá að stór hluti þjóðarinnar trúði því bulli andstæðinga samningins að Bretar og Hollendingar myndu aldrei þora með málið fyrir dómstóla.
Hvað varðar það ákvæði að almenningur geti ekki kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um skatt, fjárlög og efndir skuldbindinga okkar gagnvart milliríkjasamningum þá eru slík ákvæði hjá öllum þeim ríkjum sem notast að einhverju ráði við þjóðaratkvæðagreiðslur.
Það vilja engir gera samninga við ríki sem hefur það í sinni stjórnarskrá að kjósendur geti einfaldlega ákveðið að standa ekki við gerða samninga. Það er ekki takmörk fyrir því í tillögum stjórnlagaráðs að kjósa um það hvort ákveðnir milliríkjasamningar séu gerðir eða ekki heldur aðeins hvort við stöndum við samninga sem við höfum þegar gert eða ekki.
Þetta er eðlileg leið. Almenningur getur komið í veg fyrr að við gerum tiltekna skuldbindandi samninga en ef niðurstaðan verður sú að við gerum þá telst það einfallega líka vera ákvörðun um að standa við þá samninga þegar á þá reynir.
Myndir þú vera til í að lána einhverjum peninga sem áskilur sér rétt til þess að efna til atkvæðagreiðslu innan fjölskyldunnar hvort hann ætti að greiða þér til baka eða ekki þegar að gjalddaga kemur?
Hvað
Sigurður M Grétarsson, 21.10.2012 kl. 10:15
G Tómas. Niðurstað kosninganna var nokkurn vegin í samræmi við skoðanakannanir um þetta mál. Það er því ekkert sem bendir til þess að þeir sem sátu heima hafi haft aðrar skoðanir svo einhverju nemi en þeir sem mættu á kjörstað. Reyndar er líklegt að stór hluti þeirra hafi einfaldlega ekki haft nein skoðun á málinu.
Þessi kosning sýinir því klárlega vilja þjóðarinnar til að breyta stjórnarskránni í þá veru sem stjórnlagaráð leggur til að frátöldu þjóðkirkjuákvæðinu. Niðurtaðan í því máli eru mér persónulega mikil vonbrigði enda ég mikill stuðningsmaður aðskilanaðar ríkis og kirkju. Þessi spurning snersit reyndar ekki um það en það hefði verið ákveðið skref í þá átt hefði niðurstaðan þar orðið nei.
Það er reyndar ekki enn búið að telja varðandi spurninguna um jöfnun atkvæðisréttar og þar gæti ég aftur orðið fyrr vonbrigðum sem niðurstaða þar verður nei.
Sigurður M Grétarsson, 21.10.2012 kl. 10:20
Auðvitað sýnir þessi niðurstaða ekki vilja "þjóðarinnar". Hún sýnir vilja þess hluta "þjóðarinnar" sem mætti á kjörstað.
Þeir sem ekki mættu á kjörstað sýndu í sjálfu sér engan vilja, heldur létu sig málið ekki varða, ef svo má að orði komast.
En eins og ég sagði í færslunni, þá eru það þeir sem mæta á kjörstað sem telja.
En allar fullyrðingar um "þjóðarvilja", eða að "þjóðin" hafi kallað eftir nýrri stjórnarskrá geta ekki sótt stuðning í þessa atkvæðagreiðslu.
En úrslit eru úrslit og það eru ekki til nein önnur atkvæði en þeirra sem mættu á kjörstað.
Því hlýtur eins og ég sagði, tillaga stjórnlagaráðs að vera höfð til hliðsjónar við samningu nýrrar stjórnarskrár. Ég vona þó eins og ég sagði áður að stærstu vankantarnir verði sniðnir af henni, en er þó ekki of bjartsynn.
Það verður vissulega fróðlegt að heyra álit þeirra lögfræðinga sem voru fengnir til að fara yfir tillögurnar, en von er á því í næst mánuði ef ég hef skilið rétt.
Það er ef til vill nokkuð lýsandi fyrir þetta ferli allt, að þessi ráðgefandi atkvæðagreiðsla skyldi skyldi haldin áður. Allt ferlið finnst mér bera vott um offors og nokkuð óðagot, rétt eins og ekki þætti gott að gefa almenningi of langan tíma til umhugsunar.
Helst ef til vill í hendur við það að síaukin gagnrýni á tillögur stjórnalagráðs hefur komið fram, eftir því sem tíminn hefur liðið, enda tekur yfirlega og gagnrýni á stjórnarskrárdrög tíma ef vanda á til verksins.
Persónulega finnst mér verklagið ekki til sóma.
G. Tómas Gunnarsson, 21.10.2012 kl. 10:36
Sigurður, rangfærslur þínar um ICESAVE hætta ekki eru löngu orðnar óþolandi. EFTA-dómstóllinn getur ekki skikkað okkur, fullvalda ríkið, til að borga eyri í ICESAVE. Hann er ekki aðfararhæfur í landinu. Það væri undir Hæstarétti komið, en fyrir ísl. dómstóla vildu og þorðu Bretar og Hollendingar og nú dýrðarveldið ykkar í Samfó, ekki að fara.
Elle_, 21.10.2012 kl. 10:37
Það má svo bæta því hér við, af því að sagt er að skoðanakannanir hafi sýnt svipaða niðurstöðu, og draga megi ályktanir af því hvernig þeir sem ekki mættu á kjörstað hafi "hugsað". Slíkt er afar varasamt og engan vegin rökrétt.
Ef ég man rétt hefur t.d. mjög gjarna verið meirihluti fyrir því að skilja að á milli ríkis og kirkju, og hefur sá stuðningur farið vaxandi í skoðanakönnunum.
Sú virðist hins vegar ekki vera raunin í þessari ráðgefandi kosningu. Hefur þjóðin skipt um skoðun, eða mættu stuðningsmenn þjóðkirkjunnar betur á kjörstað en aðrir þjóðfélagshópar? Erfitt að fullyrða en vert að velta fyrir sér.
Sú niðurstaða er stórsigur fyrir kirkjuna, en engan veginn rétt að tala um það sem úrskurð "þjóðarinnar". Úrslitin eru eingöngu fengin á meðal þeirra sem mættu á kjörstað.
En enn og aftur, það eru þeir sem telja.
G. Tómas Gunnarsson, 21.10.2012 kl. 11:09
"Þegar innan við helmdingur atkvæðisbærra einstaklinga mætir á kjörskrá er það léleg þátttaka. Þegar svarhlutfall í skoðanakönnunum er í álíka hlutfalli, þykja þær kannanir ekki veita sterkar vísbendingar."
Úrtak í skoðanakönnunum er gjarna 800 - 2000 manns í heildina (gjarnan 1500). Á vefjum Gallup og Félagsvísisndastofnunar kemur fram að svarhlutfall sé á bilinu 55-70%. Þessar kannanir eru samt taldar gefa nokkuð góða mynd af stöðu mála á hvejum tíma.
Í þessari könnun er svarhlutfallið hins vegar um helmingur kosningabærra manna.
Haraldur Rafn Ingvason, 21.10.2012 kl. 11:33
Þetta með skoðanakannanirnar var ef til vill ekki nógu hnitmiðað hjá mér, það má líklega segja að þetta séu ekki mjög sambærilegir hlutir.
Í ráðgefandi kosningu, eða könnun eins Haraldur kallar þetta, mæta auðvitað fyrst og fremst þeir sem býsna mikinn áhuga hafa á málinu, og getur verið varasamt að halda að sá hópur endurpegli þann hóp sem ekki mætti. Það er þvi líklega ekki samanburðarhæft við kannanir sem velja svarendur af handahófi.
Líklega má segja að niðurstaðan úr spurningunni um ríkiskirkuna, sé vísbending í þá átt, enda sú niðurstaða ólík þeirri sem hefur komið úr mörgum skoðanakönnunum um aðskilnað ríkis og kirkju.
G. Tómas Gunnarsson, 21.10.2012 kl. 12:25
Ég held að þessi kirkjuspurning sýni fram á að þeir sem mættu og kusu hafi raunverulega verið búnir að pæla í þessum tillögum. Kirkjan hefur nefnilega aðkomu á fjári mörgum sviðum. Þegar fólk fær svona spurningu, óundirbúið í símakönnun man það bara eftir síðasta skandal.
Haraldur Rafn Ingvason, 21.10.2012 kl. 12:53
Það kann auðvitað að vera að rétt tilgáta hjá þér Haraldur. En hitt er ekkert ólíklegra að stuðningsmenn ríkiskirkjunnar hafi einfaldlega mætt betur en andstæðingar hennar.
Ríkiskirkjan rak enda nokkuð sterkan áróður fyrir sínum málstað (sem eðlilegt er) og ef til vill gekk þeim einfaldlega betur að fá fólk á kjörstað en andstæðingum sínum.
Þó að það sjáist hvergi í úrslitum, hefði ég t.d. mjög gaman af því að vita hvort að stuðningur við ríkiskirkjuna kom í meira mæli frá þeim sem sögðu nei við 1. spurningunni, eða hvort hennar stuðningur kom jafnt frá já og nei fólki. Nú, eða meira frá já fólki. Skiptir ekki meginmáli, en kitlar vissulega forvitnina.
En ég hygg að svarið við kirkjuspurningunni hafi komið mörgum á óvart.
Ég hygg að svarið við þeirr spurningu, hefði getað orðið annað hefði sambærileg skoðanakönnum verið gerð t.d. samhlliða Alþingskosningum, þar sem þátttaka hefði verið meiri.
En ég vil taka það fram að það eru einungis getgátur og vangaveltur.
G. Tómas Gunnarsson, 21.10.2012 kl. 13:06
Það kom fram í Silfri Egils áðan,að menn hefðu viljað sjá gildandi Stjórnarskrá sem grundvöll að spurningunni, menn kysu um 2 valkosti ,breyta eða bæta við hana eða kjósa nýja. Ég var allan tímann hrædd við þessa skoðanakönnun,enda einhliða áróður í marga mánuði í öllum fjölmiðlum,auk túra á landsbyggðina með Þorvaldi Gylfa.. Á meðan heyrðust nánast ekkert andóf,enda fjölmiðlar ekki að bjóða upp á slíkt,þar til í lokin þar sem Reimar lögfr.(man ekki hvers son) fékk tækifæri í Kastljósi gegn Vilmundi Gylfasyni og rúllaði honum upp,það var of seint.
Helga Kristjánsdóttir, 21.10.2012 kl. 15:01
Þegar niðurstaða í kosningum er í góðu samræmi við niðurstöður skoðanakannana og í báðum tilfellum með afgerandi stuðning við tiltekna skoðun þá er með sönnu hægt að tala um þjóðarvilja jafnvel þó mæting á kjörstað hafi verið dræm. Eins og bent var á í Siljfri Egils þá er sennileg skýring á dræmri þátttöku sú að um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er að ræða en ekki bindandi og sennielga margir sem ekki hafa trú á því að farið verði eftir niðurstöðunni.
Hvað þjóðkirkjuákvæðið varðar þá sýndi skoðanakönnun sem gerð var í apríl nauman meirihluta fyrir því að segja nei við þeirri spurningu. Það var áður en þjóðkirkjan hóf sína baráttu fyrir því að menn segðu já við þeirri spurningu. Í öðrum spurningum var niðurstaða skoðanakönnunarinnar í betra samræmi við kosningarnar. Það var þó ekki um gríðarlegan mun að ræða enda fór stuðningurinn við það að halda þjóðkirjuákvæði inni í stjórnarskánni úr því að vera naumur minnihluti í að vera naumur meirihluti.
Elle. Ég hef ekki verið með neinar rangfærslur varðandi Icesave málið. Vissulega er það rétt að niðurtaða EFTA dómstólsins er ekki aðfararhæf hér en hún hefur samt það gildi að það er endanleg niðurstaða í því hvort við höfum staðið við EES samninginn eða ekki. Íslenskir dómstólar munu því ekki taka á því atriði fari málið fyrir íslenska dómstóla. Það eina sem þeir munu taka afstöðu til fari málið til þeirra er hvort við högum bakað Bretum og Hollendinsum tjón með því að standa ekki við þá samninga verði það niðurstaða EFTA dómstólsins að svo sé. Það eru því töluverðar líkur á að Hæstiréttur Íslands muni dæma ríkissjóð til stórra skaðabótagreiðslna dæmi EFTA dómstóllinn að við höfum brotið samninana.
Það er hins vegar ekkert víst að Bretar og Hollendingar muni fara þá leið að fara með málið fyrir íslenska dósmtóal ef við neitum að greiða þeim skaðabætur þó við töpum málinu fyrir ESTA dómstólnum. Þeir geta farið með málið aftur fyrir EFTA dómstólinn til að skera úr um tjónið og krefja okkur um þá upphæð sem út úr því kemur. Ef við neitum þá enn að borga þá geta þeir farið fram á refsiaðgerðir gegn okkur af hálfu ESB sem gætu verið í því formi að laggðir verði tollar á íslenskar útflutningsafurðir. Í því efni verður þá gætt að því að ákvarða refsiaðgerðir sem kosta okkur meira en það að virða niðurstöðu ESTA dómstólsins. Við höfum þá val um að borga eða þola ella þessar refsiaðgerðir.
Það er því út í hött að segja að við höfum losað okkur undan greiðslum með því að hafna samningum. Eins og ég sagði áðan snerist þetta aðeins um ákvörðun um það hvort við kláruðum málið með samningum eða tækjum áhættu fyrir dómstólum.
Sigurður M Grétarsson, 21.10.2012 kl. 18:04
Auðvita var kjörsókn léleg enda var þetta bara leikþáttur handa Jóhönnu. Samfylkingar atkvæðin sanna það.
Hvað sögðu menn? Dýr skoðanakönnun? Var það ekki? Ekki bindandi að nokkru leiti, var það nokkuð? Tilhvers að vera að flækja talninguna með atkvæði?
Hrólfur Þ Hraundal, 22.10.2012 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.