28.9.2012 | 12:49
Tími til komin að gefa þreyttum hvíld
Nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til frekari setu á Alþingi eru það vissulega nokkur tíðindi. Hún hefur setið það lengi á Alþingi að mikill hluti Íslendinga hefur aldrei lifað þann dag, að Jóhanna Sigurðardóttir ætti ekki sæti á Alþingi Íslendinga.
Það verður ekki fram hjá því litið að Jóhanna Sigurðardóttir hefur skráð nafn sitt á spjöld Íslandssögunar. Hún er fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra. En hún er líka fyrsti kvenforsætisráðherran sem er dæmd fyrir brot á jafnréttislögum, líklega fyrsti forsætisráðherran sem þannig er dæmdur, en þó man ég það ekki svo gjörla.
En það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með oflofi samflokksmanna hennar nú eftir að tilkynning Jóhönnu birtist. Það er ekki margt sem ég get tekið undir í þeim hástemmdu lýsingum.
Fyrir mér hefur Jóhanna fyrst og fremst verið týpískur "stjórnarandstöðuþingmaður". Hún hefur hátt í stjórnarandstöðu og talar fjálglega um ábyrgð og öxlun hennar. Gagnrýnir hart og er óvægin. Þegar hún sjálf vermir valdastólana er annað upp á teningnum og sjónarhóllinn annar.
Ég held að flestir geti ímyndað sér hver viðbrögð hennar hefðu verið, hefði hún setið stjórnaranstöðu og forsætisráðherra hefði verið dæmdur fyrrir brot á jafnréttislögum.
En þegar það er hlutskipti hennar sjálfrar, er að hennar mati kominn tími til að athuga með breytingar á jafnréttislögum.
Henni hefur verið tíðrætt í gegnum tíðina um ofurlaun og sjálftöku, en á hennar vakt kemst hún að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hægt að aðhafast.
Staðreyndin er sú að hefði Jóhanna Sigurðardóttir látíð kjörtímabilið sem hófst árið 2007 vera sitt síðasta, eins og hún hafði í hyggju, hefði pólítískur bautasteinn hennar verið næsta rýr og hún horfið hægt og hljótt í hið pólítíska algleymi.
Ég hygg að margir séu mér sammála um að ferill hennar sem forsætisráðherra hafi litlu bætt við pólítíska arfleifð hennar. Ófriður og átök eru það sem helst hafa sett mark sitt á þann feril. Fáir eða engir stjórnmálamenn hafa hrapað í vinsældum og trausti eins og Jóhanna í forsætiráðherratíð sinni.
Eftir stendur að hún náði þeim áfanga að verða fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands. Það er áfangi sem ég hygg að muni seint ef nokkurn tíma gleymast.
Ég hygg að flestir hafi andað léttar nú þegar ljóst er að Jóhanna hefur ákveðið að draga sig í hlé, enda tími til komin að þreyttur stjórnmálamaður fái frí.
Að lokum vil ég óska Jóhönnu til hamingju með þessa ákvörðun og vona að henni gangi allt í haginn að stjórnmálastörfum loknum.
Jóhanna ætlar að hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jóhanna er Churchill Íslands - kom landinu útúr græðgisklúðri Sjálfstæðisfokksins.
Kristján G. Arngrímsson, 28.9.2012 kl. 17:10
Því miður held ég að það sé lítið sem ekkert sem Churchill og Jóhanna Sigurðardóttir eiga sameiginlegt, nema að bæði störfuðu í stjórnmálum.
Helsta afrek Churchills var í raun að fylkja þjóðinni að baki sér, stappa í hana stálinu og leiða hana.
Ekkert af þessu hefur Jóhanna megnað. Þvert á móti hefur hún fá tækifæri látið ónotuð til að efna til ófriðar og sundra þjóðinni. Þannig hefur hún náð að þjappa sínum eigin flokki í kringum sig.
Churchill er minnst fyrir magnaðar og innblásandi ræður og hnyttinn tilsvör. Jóhönnu er minnst fyrir "minn tími mun koma" og Dýrafjarðarræðuna.
Hér ætti ég auðvitað að segja, ég þekkti Churchill, en Jóhanna er engin Churchill.... en þá væri ég auðvitað ekki að segja satt, að því marki að ég þekkti auðvitað ekki Churchill, en hitt stendur óhaggað.
G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2012 kl. 17:55
Gunnar Helgi, stjórnmálafræðingur og nágranni minn, nefndi það í gær að Jóhanna hafi haft það sem fáir ef nokkrir aðrir stjórnmálamenn höfðu eftir hrunið, trúverðugleika. Þannig var hún það akkeri á pólitíska sviðinu sem svo margir leituðu að meðal annarra pólitískra rekalda sem höfðu gengið græðgisöflunum á vald. Þótt Jóhanna verði seint sögð mikill ræðuskörungur hafði hún og hefur til að bera heilindi sem svo marga pólitíkusa skortir núna. Nema helst Jón Gnarr. En því miður vill hann ekki verða forsætisráðherra.
Kristján G. Arngrímsson, 28.9.2012 kl. 18:19
Það er ekki skrítið að pólitískir andstæðingar Jóhönnu reyni hvað þeir geta að níða af henni skóinn. Mér finnst nú samt að þeir ættu í tilefni af því að hún er að hætta að láta hana njóta sannmælis. Það verður ekki af henni tekið að hún er hugsjónapólitíkus af gamla skólanum og hefur ekki hvikað frá sinni hugsjón. Hvorki í gróðærinu né kreppunni breytti hún kúrsinum.
Verstur andskoti að það er engin(n) í Samfó sem getur raunverulega fyllt í skarðið sem hún mun skilja eftir sig.
Kristján G. Arngrímsson, 28.9.2012 kl. 18:25
Það er að ég tel nokkuð rétt að Jóhanna hafði þegar hún tók við traust og trúverðugleika. En eins og ég sagði áður, hafa fáir ef nokkrir stjórnmálamenn glatað trúverðugleikanum og traustinu hraðar en Jóhanna Sigurðardóttir.
Hún er nefnilega eins og ég nefndi í bloggfærslunni, "stjórnarandstöðuþingmaður". Hún var hörð í gagnrýninni, kallaði á eftir siðbót og afsögnum kollega sinna. Taldi hitt og þetta óvífni, sjálftöku, o.s.frv.
En síðan þegar hún sjálf sat við stjórnvölinn, breyttist allt. Þá var engin ástæða til að segja af sér þó að ráðherra væri dæmdur fyrir að brjóta jafnréttislögin. Þá var ástæða til að endurskoða jafnréttislögin. Þá var ekkert hægt að gera varðandi sjálftöku.
Þess vegna stendur Jóhanna í dag, þreytt og hnípin, rúin trausti og trúverðugleika.
Það hefur aldrei verið erfitt að gagnrýna... en að sitja við stjórnvölin hefur reynst mörgum erfiðara.
G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2012 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.