8.2.2012 | 03:38
Skotleyfi á Ögmund?
Ég var að enda við að horfa á Kastljósið. Mér fannst Ögmundur standa sig ákaflega vel, en það var ef til vill meira því að þakka að spyrillinn virkaði illa undirbúinn og talaði og spurði aðeins í frösum og almennu hjali. Hans aðalmarkmið virtist liggja í því að fá fram játningu um misgjörð eða knýja fram afsökun.
En það er hins vegar alveg rétt hjá Ögmundi að sjóðir víða um heim hafa tapað stórkostlegum fjárhæðum og háu hlutfalli af fé sínu og það margir í betra fjárfestingarumhverfi en Íslensku lífeyrissjóðirnir.
Staðan á mörkuðum í Evrópu um þessar mundir er að fjárfestar borga ríkisstjórnum landa eins Sviss og Þýskalands fyrir að fjárfesta í bréfum þeirra. Hafi menn lært eitthvað á undanförnum árum er það líklega að öruggar fjárfestingar sem skila góðum arði, eru í raun ekki til.
Það er líka rétt hjá Ögmundi að Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var (og líklega er) hálfgert brask. Íslendingar virtust einblína nokkuð stíft á hækkun hlutabréfaverðs (þar sem selja verður til að innleysa hagnað) en minna á að fyrirtæki greiddu út góðan og árlegan arð. Sú tíska er reyndar í gildi víðar, en þó eru víða fyrirtæki sem njóta einmitt vinsælda fyrir hve öruggar arðgreiðslur þeirra hafa verið, en hér er líklega best að leggja áherslu á hafa verið, því fortíðin er ekki ávísun á framtíðina, þó hún gefi vísbendingar.
Það þýðir ekki að sjálfsagt sé að ræða það sem betur hefði mátt fara og reyna að draga lærdóm af því. En háværir "dómstólar" hafa ekki mikinn tilgang að mínu mati, og að reyna að nota þetta til að slá til pólítískra andstæðinga, finnst mér nokkuð langt seilst. En vissulega getur verið að VG og Samfylkingu þyki sem nú hafi þeim tekist að króa af einn helsta villiköttinn sem hefur gert þeim lífið svo leitt.
Þeim þætti það besta niðurstaðan að Geir Haarde yrði gert að axla pólítísku ábyrgðina á hruninu einum og sér, og Ögmundur yrði hrakinn úr pólítíkinni, með því að persónugera í honum tap lífeyrissjóðana.
Persónulega held ég að rétta leiðin fyrir lífeyrissjóðina sé að gefa eigendum fjársins meiri völd. Stjórnir lífeyrissjóða eiga að vera kjörnar af þeim sem þar geyma fé sitt (spurning hvort að óhætt sé að setja ávaxta í staðinn fyrir geyma). Ekki einn af stjórnarmönnum heldur allir. Sömuleiðis ættu lífeyrissjóðir að bjóða upp á mismunandi leiðir, eða nokkra mismunandi sjóði, sem flokkaðir væru eftir áhættu. Sjóðsfélagar gætu þá valið á milli sjóða, eða skipt sparnaði sínum á milli þeirra, í þeim hlutföllum sem þeir kysu sjálfir.
Þetta tryggir ekki að sjóðirnir skili góðri ávöxtun, enda er kominn tími til að gera sér grein fyrir því að slíkt verður ekki tryggt. En þetta kerfi færir ákvarðanatökuna og jafnframt ábyrgðina, til eigenda að hluta til, og gerir þeim kleyft að hafa eitthvað að segja um hvernig fé þeirra er fjárfest.
P.S. Núna eru "vinnuferðir" til útlanda aftur orðnar að vafasömum gæðum. Fyrir u.þ.b. viku voru þær "áþján" embættismanna og annara ríkisstarfsmanna. Merkilegt nokk þá kom Ögmundur líka þar við sögu. Þá voru það þessi orð hans sem vöktu "gífurlega reiði":
"Hvernig stendur á því, að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins þá er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök, stjórnsýslan, hlynnt en almenningur á móti? Það er vegna þess að búið er að fara með flugvélarfarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, út til Brussel þar sem fólk hefst við á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, meiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu," sagði Ögmundur
Hér talar hann um ástandið innan Evrópusambandsins, eins og sést a orðunum ".. þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins... ", en íslenskir ríkisstarfsmenn ruku upp til handa og fóta og töldu á sig ráðist (eða þá að þeir samsama sig svo starfbræðrum sínum í "Sambandinu") og réðust á Ögmund með gífuryrðum og skömmum. Þá var ekki hægt að skilja málin öðruvísi en utanlandsferðir væru hin hræðilegasta áþján.
Það er eitthvað sem segir mér að Ögmundur eigi eftir að vera meira í "sviðsljósinu" á næstunni.
Kerfið byggist á braski | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.