Störfin hafa ekki orðið til: Minnsta atvinnuþátttaka frá upphafi mælinga

Þessi frétt á vefsíðu Vísis vakti athygli mína.  Þar kemur fram að atvinnuþátttaka hefur aldrei verið lægri á Íslandi síðan mælingar hófust.  Þetta er ekki síður mælikvarði á ástandið í efnahagslífinu og á vinnumarkaði, en atvinnuleysistölur.  En í fréttinni segir:

Á fjórða ársfjórðungi í fyrra voru 175.700 á vinnumarkaði sem jafngildir 78,4% atvinnuþátttöku sem er lægsta hlutfall sem Hagstofan hefur mælt frá upphafi vinnumarkaðsrannsókna árið 1991.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að frá fjórða ársfjórðungi 2008 hefur vinnuaflið minnkað um 6.700 manns, en það taldi þá 182.400 manns. Frá fjórða ársfjórðungi 2010 hefur fólki á vinnumarkaði fækkað um 3.100. Atvinnuþátttaka karla á 4. ársfjórðungi 2011 var 82,7% en kvenna 74%.

Fyrir þessu geta legið ýmsar ástæður og þær eru ekki nefndar í fréttinni.  En eitt er ljóst, störfin hafa ekki orðið til á Íslandi, þeim hefur fækkað.  Þótt að atvinnulausum hafi fækkað er ljóst að störfum hefur fækkað sömuleiðis.  Um það segir í fréttinni:

Hvoru tveggja, atvinnulausum og starfandi, fækkaði frá fjórða ársfjórðungi 2010 til fjórða ársfjórðungs 2011. Atvinnulausum fækkaði um 2.600 og starfandi um 500. Starfandi körlum fjölgaði um 1.400 en á sama tíma fækkaði starfandi konum um 1.900.

Íslendingar flytja af landi brott en störfum fækkar.  Minnkun atvinnuleysis virðist því fyrst og fremst vera brottflutningi og brottfalli af vinnumarkaði að þakka.  Heildarfjöldi starfa hefur ekki aukist, hann hefur dregist saman.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband