Skuldasöfnunin heldur áfram

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að lánshæfismat Bandaríkjanna sé sett á gátlista, í raun vonum seinna. Skuldasöfnunin þar er gríðarleg og ekki séð fyrir endan á henni. Væru Bandaríkin í ESB og með euro væru þau líklega gjaldþrota.

En fullgildur seðlabanki og eigin mynt halda þeim á floti. Það spillir heldur ekki fyrir að myntin er talin sú öruggasta í heimi, þó að nú um stundir myndu líklega margir nefna aðrar myntir, væru þeir beðnir um að nefna þá sem væri líklegust til að halda verðgildi sínu.

Ástæðurnar eru þær sömu og víðast hvar, stjórnmálamenn sem lofa upp í ermar kjósenda. Gríðarmikið og flókið skattakerfi sem er hriplekt, en gríðarleg hernaðarútgjöld skera Bandaríkin nokkuð frá öðrum þeim sem svipað er ástatt um.

Það er því ekki ólíklegt (og þess sjást þegar nokkur merki) að Bandaríkin eigi eftir að draga sig nokkuð til hlés á alþjóðavettvangi á næstu árum. Það gæti því skapast rými fyrir aðra að sperra aðeins vöðvana. Bæði Rússar og Kínverjar sýna vilja til að notfæra sér "hlédrægni" Bandaríkjamanna.

Angi af því er auðvitað að Bandaríkjamenn hafa ákveðið enn sem komið er að standa utan við aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til eurosvæðisins, en Rússar hins vegar ákveðið að leggja fram fé.

En það má að sjálfsögðu rökstyðja það með einföldum hætti, enda eðlilegt að euroríkin leysi sín vandamál sjálf, enda ættu þau að hafa nægan efnahagslegan kraft til þess.  Bandaríkin eiga enda í flestu tilliti nóg með sín vandamál.  Það eiga Rússar reyndar líka, en þeir eru samt reiðubúnir til að taka upp veskið.

Það er næsta víst að þegar hugsað er til gamla Kínverska máltækisins, þá lifum við á áhugaverðum tímum.


mbl.is Hóta að lækka lánshæfismatið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er eitt sem gaman er að minnast á í þessu sambandi. Það er einhverskonar stríð skollið á á milli matsfyrirtækjanna líka. Fitch er baserað í Frakklandi og hótanir þeirra koma í kjölfar hótanna S&P og Moody's um lækkun í Frakkalndi og öðrum Evrópulöndum.

Að sjálfsögðu eru bankar í öllum þessum löndum tæknilega gjaldvana ef ekki gjaldþrota og halda sér gangandi á hringekju lána sín á milli og með því að fela eiturbréfin við uppgjör eða millifæra tímabundið yfir á efnahagsreikninga sína frá öðrum án þess að það komi fram eins og Lehman gerði svo skemmtilega. Fjárfestingabankar í USA eru meira að segja farnir að hjálpa sér að innistæðum viðskiptavina sinna til að gambla með.

Málið er einfaldlega það að ekkert af þessu drasli hefur lánshæfi með fimmaur yfir götu, en matsfyrirtækin segja núna: "Ef þú kjaftar, þá kjafta ég líka." 

Allavega er gott að hafa í huga hverrar þjóðar matsfyrirtækið er. Ef Fitch lætur verða af hótununum, þá setur kaninn alla evrópu í ruslflokk. Það er nefnilega löngu komin innistæða fyrir því beggja megin hafs.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.12.2011 kl. 01:57

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er nú ekki alslæmt að vera banki þegar Seðlabanki Evrópu lánar þeim á 1% vöxtum til 3ja ára, í þeirri von að þeir kaupi ríkisskuldabréf með ávöxtun upp á 2 til 5%.  En þeir verða að vísu að trúa því að þeir fái þau öll greidd.

Það er rétt að Fitch er með Franskt eignarhald, þó að höfuðstöðvar þess séu í New York og London.  En staðreyndin er sú að matsfyrirtækin eru agressíf núna, enda verða þau að vera það til að lifa af.  Þau lifa ekki af ef hvert AAA fyrirtækið fer á höfuðið eða fellur í faðm ríkisins.  Þau reyna hvað þau geta til að endurheimta eitthvað af trúverðugleika sínum.

G. Tómas Gunnarsson, 22.12.2011 kl. 03:31

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ratings war!

Guðmundur Ásgeirsson, 22.12.2011 kl. 04:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband