16.12.2011 | 01:19
Að vilja ganga í Evrópusambandið sem var
Það hafa birst í blöðum nú undanfarna daga greinar eftir starfsmenn Alþýðusambands Íslands þar sem þeir fara stórum orðum um vaxtastig á Íslandi og bera það saman við meðaltal eurolandanna og reikna síðan út stórar tölur um hvað Ísland hefði sparað sér í vaxtagreiðslur ef það hefði notið fyrrnefnds meðaltals.
Þeir vilja reikna út frá fortíðinni, það er engu líkara en þeir vilji ganga í Evrópusambandið sem var. Hvers vegna reikna þeir ekki út frá þeim veruleika sem blasir við í dag?
Það er liðin sú tíð að vaxtamunur á milli skuldabréfa eurolanda sé lítill. Meira að segja vaxtamunur á milli Þýskalands og Frakklands hefur aukist hröðum skrefum.
Það er liðin sú tíð að ríkisskuldabréf séu álitin áhættulaus fjárfesting og skuldabréf Grikklands, Portugals, Spánar eða Írlands séu álitin fyrst og fremst "eurobonds".
Staðreyndin er sú að gallar eurosins sem margir höfðu bent á, en flestir neitað að horfast í augu við, blasa nú við öllum. Þess vegna eru euroþjóðirnar í vandræðum, þess vegna blasir lækkun lánshæfismats við flestum euroþjóðum, þess vegna þurfa æ fleiri euroþjóðir að horfast í augu við síhækkandi lántökukostnað.
Það er meðal annars út af þessum vandræðum sem margir eru að krefjast þess að gefin verði út sameiginleg skuldabréf allra euroríkjanna. Og út af þessum sömu vandræðum sem betur stöddu euroríkin vilja alls ekki fallast á þá lausn. Því þó að hún kunni að hífa verr stöddu euroríkin upp, þá togar hún betur stöddu euroríkin niður. Heilbrigð skynsemi segir öllum að slík verði niðurstaðan, en því miður hefur hún ekki verið höfð að leiðarljósi við innleiðingu og uppbyggingu eurosins. Þar réði pólítíkin ferðinni.
Það sama gildir auðvitað um húsnæðismarkaði. Í framtíðinnni verður ekki talið nóg að lán og veð séu í euroum. Það verður horft á áhættu hvers húsnæðismarkaðar fyrir sig. Því þó að að gjaldmiðillinn sé sá sami, er ekki þar með sagt að veðhæfi fasteignar sé það sama hvar sem hún er staðsett. Húsnæðismarkaðurinn í Cork og í Frankfurt fylgja ekki sömu lögmálum, rétt eins og ýmsir lánveitendur hafa upptötvað undanfarin misseri. Það er ekki nóg að lánin séu í sömu mynt. Þegar ganga á að veðunum eru aðrir hlutir sem skipta máli.
Það er svo hægt að velta því fyrir sér hvort að Íslenski húsnæðismarkaðurinn yrði frekar settur í flokk með Cork eða Frankfurt, eða jafnvel í flokk neðar en svo.
Íslendingar koma aldrei til með að ganga í það Evrópusamband sem var, hugsanlega í það Evrópusamband sem er að verða til, um það stendur deilan og baráttan. Það er til lítils að setja saman reikningsdæmi úr fortíðinni, það verður ekki snúið aftur til hennar.
Eitt er þó rétt í greininni sem ég setti hlekk á hér að ofan, öguð hagstjórn er afar mikilvæg og í raun lykilatriði. Þýskaland er oft tekið sem dæmi um agaða hagstjórn og um leið fyrirmynd annara og ankeri Evrópusambandsins. Skyldi einhver hjá ASÍ hafa reiknað út raunlaunahækkanir í Þýskalandi síðastliðin 20 ár og borið það saman við Ísland. Ég er næsta viss um að það væri ekki síður áhugaverður samanburður en vaxtaprósentur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 04:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.