Leyfið börnunum að koma til ykkar.....

Ég veit að ég er líklega að hætta mér inn á "jarðsprengjusvæði" með þvi að ræða trúmál, en ég get ekki skilið þær deilur sem eiga sér stað á Íslandi um aðgang trúfélaga að skólabörnum.

Sjálfur á ég 2. börn í skóla hér í Kanada.  Skólagangan byrjar við 4ja ára ára aldur.  Aldrei kemur prestur í skólann eða fulltrúi nokkurs trúfélags.  Aldrei eru börnunum kenndar bænir eða þær beðnar með þeim.  Skólaheimsóknir tíðkast þó.  Í heimsókn koma lögreglufólk, slökkviliðsmenn, vísindamenn, rithöfundar, hljómlistamenn og þar fram eftir götunum.

Samt eru kirkjur hér út um allt.  Þær njóta einskis stuðnings nema þeirra sem þær sækja, utan þess að mér skilst að borgin rukki þær ekki um fasteignagjöld.  Þetta kemur ekki í veg fyrir að kirkjusókn hér er þokkaleg að mér skilst og sé ég hér allt í kringum mig prúðbúnar fjölskyldur raða sér í bílana á sunnudögum.

Hér held ég að sú almenna skoðun ríki að trúarlegt uppeldi (sem og mestur hluti annars uppeldis) sé á ábyrgð foreldra og við það njóti þeir aðstoðar þess trúfélags sem þeir kjósa, ef þeir kjósa það á annað borð.

Það fer mér ekki vel að vitna í Jesú, en mig minnir þó að hann hafi talað um að það ætti að leyfa börnunum að koma til sín.  Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi talað um að troða ætti sér upp á börnin, en ég geri vissulega ekki kröfu til þess að teljast sérfræðingur í þessum fræðum.

Ég segi því treystum foreldrunum, treystum trúfélögunum.  Trúarlegt uppeldi á að vera á þeirra hendi.  En látum skólana vera menntastofnanir.

Hitt er svo að í skólanum er byrjað að kenna 4ja ára börnum þjóðsönginn hér í Kanada og er hann oft sunginn hástöfum hér á heimilinu, bæði á ensku og frönsku.  Það væri líklega vart leggjandi á Íslensk börn, enda söngurinn tyrfinn og líklega þættu það hættuleg þjóðleg gildi.  Líklega þætti einhverjum sem sjá mætti glitta í fasisma væri sá hátturinn hafður á.

P.S. Hér eru þó við lýði sérstakir Kaþólskir barnaskólar sem standa jafnfætis "almenningsskólum" og eru kostaðir af borginni, en lúta sérstakri stjórn.  Þeir nutu mikilla vinsælda en hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár, eftir því sem mér skilst.  Svo sækir fjöldi barna sérstaka trúarskóla um helgar, sem standa utan hinna hefðbundnu skóla.  Loks ber að geta þess að heimaskólun er viðurkennd hér og hef  ég hitt nokkrar fjölskyldur sem hafa valið þann kost.

P.S.S. Var að sjá haft eftir sóknarpresti að aðgerðir borgaryfirvalda væru eins og á dögum Sovétsins.  Hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar á því að reyna að nota slík hugrenningtengsl.  Ekki aðeins gerir hann lítið úr þeim tugum milljóna sem létu lífið í voðaverkum Sovétstjórnarinnar, heldur gerir hann sérstaklega litið úr þeim fjölmörgu kristnu mönnum sem voru myrtir eingöngu vegna trúar sinnar í Sovétríkjunum.  Að líkja þessu saman er slík vanvirðing að með eindæmum er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: BJÖRK

Takk fyrir þetta góða yfirlit. Það er íslenska pöpulnum hollt að heyra að treysta megi foreldrum fyrir trúarlegu uppeldi barna sinna :)

BJÖRK , 29.11.2011 kl. 20:18

2 Smámynd: Óli Jón

Prýðileg færsla. Hún kemur algjörlega heim og saman við mínar skoðanir í þessu máli. Trúaðir foreldrar hér heima geta þetta, en gera ekki. Líklega er það vegna þess að allt frumkvæði hefur verið úr þeim dregið með útvistun á trúarlegu uppeldi barna þeirra.

Óli Jón, 29.11.2011 kl. 22:09

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka innlitin.  Ég held reyndar að frumkvæðisskorturinn sé partur af stærra vandamáli.  Íslendingar (og fleiri þjóðir) eru á góðri leið með að stofnanavæða allt heila samfélagið.  Helst eiga að vera til stofnanir til að kljást við öll vandamál sem upp geta komið, því foreldrar eða almenningur á ekki að þurfa að standa í slíku.

Svo langt er þetta gengið hvað varðar börnin, að ég man eftir að hafa heyrt Íslenskan sálfræðing segja á RUV að barnauppeldi væri alltof mikilvægt til að eftirláta það foreldrum.  Ég verð að segja að ég hef ekki oft heyrt ógeðfeldari setningu.

Það eru líka til endalausar leiðir fyrir trúarsamtökk til að ná til barna og foreldra og ég held að það sé sömuleiðis þarft aðhald fyrir slík samtök að þau þurfi að hafa meira fyrir sínu og hafa upp á eitthvað að bjóða sem börnum og foreldrum skiptir máli.

Það er ekki síst með þeim hætti sem ég held að aðskilnaður trúfélaga og skóla geti komið öllum til góða.  Bæði þeim sem vilja njóta þess sem trúfélög hafa upp á að bjóða og þeim sem vilja vera án þess.

G. Tómas Gunnarsson, 29.11.2011 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband