28.11.2011 | 07:00
Fékk Nubo rangar upplýsingar?
Ég sá það á vef RUV að þar er haft eftir hinum Kínverska ljóðræna athafnamanni að hann hafi fengið rangar upplýsingar um Grímsstaðamálið. Þar er reyndar Íslenskum embættismönnum kennt um að svo hafi verið.
Mér þykir líklegra að þar megi frekar kenna þeim Íslenska hópi sem Nubo fékk til að aðstoða sig við málaleitanina. Í þeim hópi má finna einstaklinga sem hafa á undanförnum árum náð undraverðum árangri í því að villla á sér heimilidir og veita Íslensku þjóðinni rangar upplýsingar. Nú hafa þeir náð þeim árangri að fara með þá hæfileika í útrás og hitt fyrir Nubo.
Spurningin er svo hvort að núverandi ríkisstjórn riði til falls vegna þeirrar útrásar. Það yrði þá líklega að teljast önnur ríkisstjórnin sem félli á fáum árum, vegna "útrásarvíkinga" og rangra upplýsinga sem þeir veita.
Tveir núverandi ráðherra hafa verið í þeim báðum, en það hlýtur að vera tölfræðilega merkilegt og flokkast undir óheppni af þeirra hálfu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Grín og glens | Facebook
Athugasemdir
Ég dreg stórlega í efa, að þessum manni hafi verið veittar rangar upplýsingar.
Þessi maður tilheyrir "Áróðursdeild Kínverska kommúnistaflokksins". Og fyrir fáfróða bændur Íslandi, eins og þig, sem augljóslega ekki skilja hvað orðið þýðir. Þá tilheirir kauði, leyniþjónustu Kínverska kommúnistaflokksins. Og hefur því yfir að ráða, svo gott sem "óþrjótandi" auðæfum.
Það getur svo sem vel verið, að til séu menn á Íslandi sem til eru í það, að selja landið Kínverska kommúnistaflokknum, fyrir slikk. Vegna þess að þeir séu í peninganauð ... og það getur líka vel ferið, að svoleiðis fávitaháttur sé ekki glæpsamlegur. En slíkur fávitaháttur, á tæplega heima í pólitík, og enn síður í pólitík fólks sem vill tryggja afkomu barna sinna, og barna barna sinna.
... ef svo má að orði komast. Ætli það séu ekki frekar Íslendingar sjálfir, sem ekki hafa gætt þess að afla sér nægilegra upplýsinga í málinu, áður en "dollar" merkið kom í augunum á þeim, og tók frá þeim allt vit, og alla glóru.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 09:57
Mér þykir hins vegar nokkuð líklegt að Nubo hafi fengið rangar upplýsingar. Ekki frá Íslenskum embættismönnum, heldur þeim sem hann fékk sér til aðstoðar við málaleitan sína.
Þeir hafa sagt honum að þetta væri ekkert mál, þeirra fólk myndi redda þessu og kaup hans á Grímsstöðum væru svo gott sem klöppuð og klár. Líklega hafa þeir fullyrt við Huang að það væri jafn auðvelt fyrir þá að útvega honum leyfi til að kaupa land á Íslandi og að fá Samfylkinguna til að klappa Jóhönnu upp sem formann.
Hitt er svo ljóst að Huang Nubo hlýtur að hafa verið það sem kallast "hugmyndafræðilega áreiðanlegur" um langt skeið, enda fengu ekki nema "áreiðanlegir" einstaklingar að deila herbergjum með útlendingum í sæluríki alþýðunnar.
En það þarf ekki að þýða að maðurinn sé óalandi og óferjandi í dag. Sjálfur á ég þó nokkuð af kunningjum sem störfuðu innan Sovéska kommúnistaflokksins eða systurflokka hans í A-Evrópu. Ástæður fyrir þeirri þátttöku voru jafn mismunandi og fólkið er margt. Vonir um að komast í betri skóla, að fá betri vinnu og upp í því einfaldlega að trúa því að kommúnisminn væri besta og eina leiðin til framfara. Það var erfitt og því sem næst ómögulegt fyrir ungt fólk að standast þann áróður sem haldið var að þeim. Af öllu þessu fólki bráði þó fyrr en síðar.
Ég ætla ekki að dæma um það hvort Nubo er erindreki Kínverska kommúnistaflokksins. Til þess hef ég ekki aðstæður. Ég held ef út í það er farið, þá myndi það reynast erfitt fyrir hvern Kínverskan einstakling að afsanna slíkan áburð ef hann er fram lagður. Þannig er málum einfaldlega háttað þar eystra. Eigum við þá að banna alfarið að hafa viðskipti þangað austur?
Persónulega kýs ég að halda mér við grunnregluna að menn séu saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.
En það sem er þörf á er að setja almennar reglur um landakaup og erlendar fjárfestingar á Íslandi. Eðlilegast væri að það sama gilti um alla, óháð uppruna eða ríkisfangi. En Íslendingar hljóta að ræða þessi mál á næstu misserum og vonandi næst skynsamlega niðurstaða.
En hér í Kanada, þar sem ég bý (að eiga bújörð á Íslandi er fjarlægur draumur :-) eru í gildi reglur þar sem öll viðskipti yfir ákveðnu marki þurfi að fara fyrir nefnd sem skipuð er af þingi eða ríkisstjórn. Markið er að mig minnir ríflega 300 milljónir dollara. Það mætti auðvitað hugsa sér að á Íslandi væri notast við mun lægri upphæðir, enda íbúafjöldi og umsvif önnur.
Þessi nefnd stöðvaði til dæmis nýlega yfirtöku Bandarísks fyrirtækis á Kanadíska fyrirtækinu Potash Corp. Það þótti ekki samrýmast Kanadískum hagsmunum. Sú ákvörðun var vissulega umdeild hér, en hún stendur.
G. Tómas Gunnarsson, 28.11.2011 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.