13.11.2011 | 03:37
Himbriminn (Kanadadollar) á Íslandi?
Ég kalla Kanadadollarann stundum Himbrimann í gríni. Gælunafn dollarans er Loonie, sem dregið er af 1. dollar myntinni en á henni er mynd af loon eða eins og við Íslendingar köllum hann himbrima. Að því leyti má segja að það færi einkar vel á því að taka upp Kanadadollar á Íslandi, því Ísland er jú eina landið þar sem himbrimi lifir í Evrópu.
Kanadadollar er sterk mynt, stendur um þessar mundir nokkuð jafnfætis hinum Bandaríska starfsbróður sínum og er að mig minnir 7. hæsta myntin í heimsviðskiptum.
Það gæti því hljómað ágætlega að taka upp Kanadískan dollar með samstarfi við Seðlabanka Kanada, Kanada tæki jafnframt yfir fjármálaeftirlit á Íslandi og að einhverju marki hlyti Ísland að gangast undir ákveðna skilmála um lágmarks stefnufestu í efnahagsmálum.
En það kemur alltaf að sömu spurningunni, myndi myntin henta Íslenska hagkerfinu, eru efnahagssveiflur í Kanada með líkum hætti og á Íslandi?
Það liggur nokkuð ljóst fyrir að vaxtaákvarðanir yrðu ekki teknar með tilliti til efnahagsástands á Íslandi. Stærðarmunurinn u.þ.b. 1/100 segir allt sem segja þarf.
Það er líka vert að hafa í huga að efnahagur héraðanna innan Kanada er það mismundi að alríkisstjórnin flytur fé á milli þeirra með skipulegum hætti. Fjármagn flutt frá "have provinces" til "have not provinces" eins og það er kallað.
Þannig fær Quebec í ár u.þ.b. níu hundruð milljarða Íslenskra króna með þessum hætti. Ontario sem var ætíð "have" svæði, fluttist yfir í "have not" fyrir 2. árum eða svo og fær í ár ca. 250 milljarða Íslenskra króna. Iðnframleiðslan í Ontario hefur átt undir högg að sækja vegna styrkingar Kanadíska dollarans, og það skýrir þessa breytingu
Héruðin sem eru "have not" eru í ár: Quebec ($7.815 billion), Ontario ($2.200 billion), Manitoba ($1.666 billion), New Brunswick ($1.483 billion), Nova Scotia ($1.167 billion), Prince Edward Island ($329 million). Þau sem ekkert fá úr jöfnunarsjóði alríkisins eru: Alberta, Saskatchewan, Newfoundland og Labrador og British Columbia.
Tekjurnar sem standa undir þessum jöfnunargreiðslum eru hluti af tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, en ekki hvað síst tekjur af náttúrulegum auðlindum. Það er vegna ekki síst út af hinum miklu olíuauðlindum sem eru í Alberta, Saskatchewan og Nýfundnalandi/Labrador sem þessi svæði fá engar jöfnunargreiðslur. En það eru auðvitað fyrst og fremst hátt verð á olíu og hrávöru sem þessi svæði eru rík af, sem hefur drifið upp styrk dollarans og gert iðnaðarframleiðslu erfitt fyrir.
Í stuttu máli er þetta hið margfræga "transfer union" sem mikið hefur verið rifist um innan "Sambandsins". Auðvitað eru ekki allir á eitt sáttir um þessa skipan mála hér í Kanada, en svona eru hlutirnir gerðir og ekki útlit fyrir að það breytist á næstunni.
Staðreyndin er sú að Quebec ætti líklega álíka erfitt með að deila gjaldmiðli með Alberta og Grikkland með Þýskalandi, ef þessar greiðslur kæmu ekki til.
Þessar greiðslur eiga sér stað í landi sem ekki telur nema rétt ríflega 30 milljónir manna. Þess utan eru svo margvíslegar opinberar framkvæmdir sem stundum hafa yfir sér pólítískt og kjördæmlegt yfirbragð rétt eins og annars staðar í heiminum.
Slíkar greiðslur yrðu að sjálfsögðu ekki inntar af hendi til Íslands, þannig að á Íslandi yrði líklega það eitt til ráða ef illa áraði, að bíta á jaxlinn, lækka laun og/eða horfa upp á aukið atvinnuleysi.
Ég get því ekki séð að upptaka Kanadadollars sé góð framtíðarlausn fyrir Íslendinga.
Það er líka gott að hafa í huga að það skiptir ekki öllu máli hvað gjaldmiðillinn heitir, gjaldmiðlar eiga góð og slæm skeið, allt eftir því hvernig haldið er á efnahagsmálum í viðkomandi landi.
Það er vert að hugsa til þess að fyrir rétt um20. árum var ástandið öðruvísi í Kanada en það er í dag. Talin var alvöru hætta á því að Kanada yrði gjaldþrota og dollarinn þótti ekki ýkja merkileg mynt. Skuldir landsins fóru nálægt 100% af þjóðarframleiðslu. Kanadíski dollarinn sveiflaðist þá oftast frá því að kaupa 65 til 72 Bandarísk cent. Stýrivextir voru voru í lágri 2ja stafa tölu árið 1990.
En Kanada tók sig á. Skorið var niður í opinbera geiranum, velferðarkerfið var skorið niður, skattar voru hækkaðir og fjárlögin voru afgreidd með afgangi og skipti ekki meginmáli hvor stóru flokkana Íhaldsflokkurinn (Conservative Party) eða Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party) hefur verið við völd, aðhaldssemi hefur verið meginreglan. Enn þann dag í dag eru ekki allir sáttir um hvað leiðir voru farnar, en mestu skipti þó að komið var böndum á eyðsluna.
Staðreyndin er sú að Kanada er ekki statt þar sem það er í dag af því bara eða út af því að það hefur sterka mynt.
Það hefur sterka mynt vegna þess að það tók til í sínum málum og náði tökum á vandamálum sínum. Vissulega hafa ytri aðstæður hjálpað til, enda Kanada hráefnaríkt land og verð á þeim verið hátt.
Að lokum er gott að velta því fyrir sér hvað Kanada gæti talið sér til hagsbóta að Ísland tæki upp Kanadadollar. Ef til vill meira um það seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.11.2011 kl. 15:33 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir upplýsandi grein.
pollus (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 10:07
Nokuð góð grein. Niðurstaðan kemur alltaf að því sama, ef þjóð ætlar að deila gjaldmiðli með annari, þarf einnig að deila sjálfstæðinu. Annað gengur einfaldlega ekki upp.
Því er spurnngin ekki hvort við viljum vernda eða fórna krónunni, heldur hvort við viljum halda eða sleppa sjálfstæðinu.
Krónan er eðli málsins samkvæmt veikur gjaldmiðill, rétt eins og sjálfstæði okkar. En ef við viljum halda sjálfstæðinu verðum við að verja krónuna. Um leið og henni er fórnað er sjálfstæðið hrunið.
Gunnar Heiðarsson, 13.11.2011 kl. 10:50
Það eru vissulega til dæmi um að einhliða notkun annars gjaldmiðils hafi gengið ágætlega, en það eru margir pyttir sem hægt er að falla í sé svo gert.
Ég held að umræðan um gjaldmiðilsskipti snúist að miklu leyti um trú á að til sé töfralausn. Rétt eins og ein pilla lækni alla kvilla.
Auðvitað hljómar það betur en að segja að það þurfi að strita lengi og sýna sjálfsaga og aðhald.
G. Tómas Gunnarsson, 13.11.2011 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.