30.8.2011 | 17:41
Sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 20 árum síðar og stolnar fjaðrir
Sá það á Eyjunni að eitthvað hefur sumum fundist Jón Baldvin Hannibalsson ekki hafa fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið, nú 20 árum eftir að Eystrasaltslöndin endurheimtu sjálfstæði sitt og Íslendingar viðkenndu hið sama sjálfstæði og tóku upp stjórnmálasamband við þau. Sjá má skoðanaskipti hér, hér og hér.
Í ferðum mínum um Eistland hef ég oft fundið fyrir gríðarlegu þakklæti í garð Íslendinga, sérstaklega hjá aðeins eldra fólki sem man vel þessa spennuþrungnu daga. Sumir muna eftir Jóni Baldvin og minnast á hann, en flestir tel ég að líti svo á að þetta hafi verið gjörð Íslenskra stjórnvalda, en ekki Jóns persónulega
Þetta segi ég ekki til að gera lítið úr þætti Jóns, hans framganga í þessu máli var til fyrirmyndar og af fullum skörungsskap.
En því var eðlilegt að Eistlendingar byðu þjóðhöfðingja Íslendinga til að setja Íslandsdaginn. En þeir gleymdu ekki Jóni, hann var í pallborði á fundi á vegum Eistneska utanríkisráðuneytisins, en þann fund hef ég séð minnst á bæði í Íslenskum og Eistneskum fjölmiðlum, þó að þar hafi ef til vill ekki komið fram nein stór tíðindi. Myndir af fundinum má sjá hér. Myndir frá Íslandsdeginum má einnig sjá hér.
En viðurkenning Íslendinga á sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna gerðist ekki í tómarúmi á örfáum dögum, heldur átti sér býsna drjúgan aðdraganda og komu þar ýmsir við sögu. það þarf ekki að fletta blöðum þessa tíma lengi til að finna fréttir um baráttu þessarra þjóða sem var með stigvaxandi þunga frá 1988, þó ef til vill megi segja að hún hafi staðið sleitulaust frá upphafi hernáms, árið 1940.
En margir minnast ferðar Jóns Baldvins til Litháens snemma árs 1991, eftir árás Sovéska hersins á sjónvarpsturninn í Vilnius. Það þurfti dirfsku og hugrekki í þá ferð og ekki að undra að Litháar minnist Jóns með mikilli hlýju og virðingu.
En Íslendingar fylgdust vel með baráttu Eystrasaltsþjóðanna og ég held að hugur flestra Íslendinga hafi verið með þeim í þessari baráttu. Málið var rætt í fjölmiðlum og á Alþingi og ekki var því sem næstu einhugur á þingi um að Íslendingar styddu þessar þjóðir til að endurheimta sjálfstæði sitt. Um það má til dæmis lesa í þessarri frétt, sem segir frá skýrslu utanríkisráðherra (Jóns) á Alþingi í Janúar 1991. Þarna kemur fram því sem næst einróma stuðningur Alþingis.
Og Íslenskir þingmenn höfðu ferðast til Eystrasaltsríkjanna, Árni Gunnarsson fór ásamt öðrum Íslenskum þingmönnum (eins og kemur fram í grein hans) og Þorsteinn Pálsson fór ásamt Kjartani Gunnarssyni til Eistlands og Litháen, í júlí áríð 1990, eins og lesa má um í þessarri frétt.
Í þessarri frétt má svo lesa um það þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra tilkynnir Sovéska sendiherranum að Íslendingar hyggist viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og koma á stjórnmálasambandi við þau.
Ekkert af þessu sem kemur hér fram dregur úr þætti Jóns Baldvins, hans þáttur var stór og mikilvægur, en það er engin ástæða til að firtast við þó að Eistlendingar hafi fyrst og fremst ákveðið að heiðra Íslensku þjóðina, en ekki einstaklinga og fréttir hafi meira snúist um Íslandsdaginn en persónur.
Ótal aðilar á Íslandi börðust fyrir sjálsftæði Eystrasaltsþjóðanna og er á engan hallað þó að sagt sé að þar hafi Jón Baldvin farið fremstur meðal jafninga, en ekki voru alltaf allir sammála um hvaða skref ætti að stíga og hve hratt ætti að fara, þannig mátti til dæmis lesa þennan texta í leiðara Alþýðublaðsins í apríl árið 1990:
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, hefur sýnt fullan stuðning þingsályktunartillögu
Þorsteins Pálssonar formanns flokksins og nokkurra annarra þingmanna um að ísland
viðurkenni formlega fullveldi Litháens. Alþýðublaðið birti leiðara fyrir viku þar sem
umrædd þingsályktunartillaga var gagnrýnd, þar eð full viðurkenning
á fullveldi Litháens getur að mati blaðsins orsakað erfiðari
tíma fyrir Litháa. Alþýðublaðið er ekki eitt um þessa
skoðun. Þetta er opinberleg stefna allra Vesturlanda með
Bandaríkin í broddi fylkingar. Það verður því að teljast einstæður
atburður að forysta Sjálfstæðisflokksins og málgagn
flokksins, Morgunblaðið, skuli fara beint gegn aðildarríkjum
okkar í NATO og þvert gegn stefnu Bush Bandaríkjaforseta.
Þessa afstaða Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins verður
að túlka sem sinnaskipti flokks og málgagns í utanríkismálum.
Þetta var í apríl, en síðan gerðust hlutirnir hratt og líklega var valdaránstilraunin í Moskvu svo dropinn sem fyllti mælinn og Eistland, Lettland og Litháen endurheimstu sjálfstæði sitt eftir ríflega 50 ára hersetu.
Það er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera stolta af framgöngu Íslenskra stjórnvalda þá daga.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Saga | Breytt 12.2.2021 kl. 00:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.