5.2.2007 | 18:49
Ég játa, ég er einn af "þeim"
Mikil umræða hefur verið um þá sem greiða einungis fjármagnstekjuskatt, en engan skatt af launatekjum, undanfarnar vikur og mánuði á Íslandi. Skoðanir hafa verið nokkuð skiptar um þessa aðila, en margir hafa hneykslast á því að þeir komi ekki til með að greiða til RUV og greiði ekki til Framkvæmdasjóðs aldraðra.
Það er best að viðurkenna á sig sökina.
Ég hef einungis fjármagnstekjur á Íslandi. Ég hef engar launatekjur á Íslandi. Ég greiði ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra. Að óbreyttu ástandi kem ég ekki til með að borga til RUV.
Það eina sem ég hef mér til málsbóta er að ég bý í Kanada.
Það er ólíklegt (en ekki ómögulegt) að ég eyði ævikvöldinu á Íslandi, en ég verð að viðurkenna að ég fer stundum á vef RUV og horfi þar á fréttir og Kastljósið. Ég horfði líka á Áramótaskaupið og þótti það ágætt.
Það kom reyndar fram í fréttum að stór hluti þeirra sem hefðu einungis fjármagnstekjur væru tekjulágt fólk (eins og ég), margir hefðu einungis nokkra tugi þúsunda í tekjur og stærsti hópurinn undir milljón. Þó voru dæmi um að tekjurnar næmu mörgum milljónum.
En á hverju skyldu þeir lifa sem hafa einungis nokkra tugi þúsunda eða ekki það í fjármagnstekjur og telja ekki fram neinar launatekjur?
Skyldi hið opinbera ekki hafa áhyggjur af því? Þyrfti ekki að finna þennan hóp og koma þeim til aðstoðar?
Ég þekki ekki skýringuna á öllu þessu, en ég veit að það eru um 30.000 Íslendingar búsettir erlendis eftir því sem ég hef heyrt í fréttum. Hvað margir þeirra telja fram á Íslandi veit ég ekki, en hitt þykir mér líklegt að all nokkir þeirra (eins og ég) hafi ýmist tekjur af því að leigja íbúðir sem þeir eiga, eða þá að þeir eigi einhverja smá peninga inn á bankabókum og tékkareikningum. Það þýðir að ef þeir telja samviskusamlega fram á Íslandi (rétt eins og ég geri), þá telja þeir eingöngu fram fjármagnstekjur.
Það væri vissulega athyglivert ef fjölmiðlar gengu eftir því við skattayfirvöld, hvort að frekari upplýsingar um þennan hóp manna sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt ligggur á lausu og uppfræddu almenning frekar um þessa skelfilegu menn.
Mér segir svo hugur, þó að ég vilji ekki fullyrða neitt, að í ljós kæmi að stór hluti þeirra býr erlendis og hafi það eitt unnið sér til sakar að ávaxta hluta af eigum sínum eða fé á Íslandi.
Er það eitthvað til að vera reiður yfir?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti | Breytt s.d. kl. 19:30 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Tómas,
nú veit ég ekki hvort þú hefur rekið augun í þusið í mér vegna þess nefskattsmáls (http://karlol.blog.is/blog/karlol/entry/107352/), það er þó ólíklegt þar sem ég hef svo sem engar heimsóknir fengið á síðuna mína.
En ég er sem sagt einn af þessum 'reiðu', aðallega vegna þess að ég sé fram á það að mitt heimili kemur til með að greiða nokkrum sinnum þau afnotagjöld sem við höfum greitt fram að þessu, á meðan maður horfir upp á að ákveðinn hópur 'sleppur'.
Reiði mín snýr ekki að þér, eins og ég vona að megi skilja á blogginu mínu, þar sem útfærslan sem ég sting upp á gengur út á að þú myndir líklega alveg sleppa við skatt á Íslandi. Því skyldir þú nefnilega borga 10% flatan fjármagnstekjuskatt ef þú hefur engar aðrar tekjur og nærð ekki eðlilegum skattleysismörkum í heildartekjum?
Ef mín hugmynd væri notuð, þ.a. þú gæfir upp þínar fjármagnstekjur sem venjulegar tekjur, fengir síðan skattkort á Íslandi og þ.a.l. persónufrádrátt fengi ég ekki séð að þú greiddir neinn skatt ef þessar fjármagnstekjur eru lágar.
En prinsippið gengur einmitt út á það að ef þú hefur ekki framfærslu af öðru en fjármagni þínu (eignum), þá er einmitt 'starf' þitt fólgið í eignaumsýslu þinni og eðlilegt að þú sért í vinnu hjá sjálfum þér við það og teljir fram á þig tekjur eins og öllum sjálfstætt starfandi einstaklingum er skylt að gera. Hverjar þær tekjur ættu að vera ætla ég ekki að dæma um, enda er það hlutverk Ríkisskattstjóra væntanlega að skera úr um það.
Ég er náttúrulega fjarri því að vita nógu mikið um skattkerfið. Ég veit t.d. ekki hvort núverandi reglur myndu leyfa þér að fá skattkort á Íslandi ef þú býrð erlendis, en hví skyldirðu ekki mega það ef þessar reglur væru útfærðar nánar?
Svo er það nú þannig með reiðina að hún snýr ekki að þeim einstaklingum sem detta í lukkupottinn (eða fæðast í honum) og vinna í því happdrætti að hagnast umfram aðra á vitlausu skattkerfi og löggjöf. Það er ekki við þá að sakast heldur þá sem skapa þetta lagalega umhverfi sem býður upp á óréttlætið.
Nóg um það, kveðja til Kanada.
Karl Ólafsson, 6.2.2007 kl. 13:57
Málið er að það sem ég er að reyna að koma til skila er að þó að ég hafi engar rannsóknir þar að baki, þá þykir mér trúlegt að flestir þeir sem telja eingöngu fram fjármagnstekjur búi ekki á Íslandi. Ég gæti best trúað því að þeir búi erlendis en hafi tekjur af leigu íbúða á Íslandi eða ef einhverjum bankainneignum eða hlutabréfasölu.
Það er ekkert óeðlilegt að slíkir menn borgi ekki útsvar, í Framkvæmdasjóð aldraðra eða til RUV.
Ég hef engar rannsóknir til að styðjast við þegar ég segi þetta, en þar sem það kom fram í fréttum að stærstur hópur þeirra sem telur eingöngu fram fjármagnstekjur, er það tekjulágur og sárafáir þeirra hafa yfir milljón í tekjur, að það getur einfaldlega ekki passað að þessir menn búi á Íslandi. Nema auðvitað að þeir stundi "svarta atvinnustarfsemi", en það þarf önnur úrræði við því heldur en að ráðast á þá sem hafa fjármagnstekjur. En það segir sig sjálft að þeir sem hafa örfáa tugi eða nokkur hundruð þúsund í fjármagnstekjur er ekki öfundsverður hópur á Íslandi. Því leyfði ég mér að draga þá ályktun að þeir hefðu lífsviðurværi sitt utan landsins.
Persónulega er ég alfarið á andsnúinn því að skattur sé hækkaður á fjármagnstekjur, enda er í flestum tilfellum búið að borga skatt af þeim tekjum sem verið er að ávaxta. Það þarf að hvetja til sparnaðar á Íslandi en ekki letja.
Hitt er svo vissulega möguleiki að menn hafi fé sitt í fjárvörslu, geri ekki neitt og lifi á vöxtunum. Hvað er best að gera í því er ég ekki með handbærar tillögur.
En hvað varðar nefskatt til RUV, þá sýnir það einfaldlega á hvaða villigötum stjórnvöld eru með þá stofnun. Auðvitað á að selja hana eða leggja niður. Það er engin þörf fyrir Ríkisútvarp í dag. En ef menn telja svo brýna þörf á því að hafa það, og að fjármagna það með skatttekjum, er einfaldast að hafa það inni í venjulegri skattlagningu. Sérstakur nefskattur er óþarfa umstang.
G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2007 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.