Hernám, ekki frelsun

Það er líklega óumdeilanlegt að Sovéski herinn átti stærsta hlutann í því að nazistar höfðu sig á brott frá Eistlandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu.

En málið er flóknara en það.  Sovéski herinn fór ekki úr landinu aftur.  Rétt eins og Sovéski herinn hernam landið 1940. Allt að 60.000 Eistlendingar voru drepnir eða fluttir til Síberíu af hernámsliðinu.  Þetta olli því að þó nokkuð margir Eistlendingar litu á Þjóðverja sem frelsara þegar þeir hernámu landið, litu jafnvel á þá sem skárri kostinn af tveimur illum.

Eistlendingar tóku því þátt í heimstyrjöldinni með þremur herjum, ýmist sem sjálfboðaliðar, eða með nauðung og hótunum.  Þeir börðust með Sovéska hernum, með þeim Þýska og mikið af sjálfboðaliðum barðist með Finnska hernum.  Þetta leiddi af sér hefndir og hreinsanir frá bæði Sovétmönnum og Þjóðverjum, sitt á hvað eftir hvor hersat landið.

Í stríðslok voru Baltnesku löndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen einu ríkin sem ekki endurheimtu sjálfstæði sitt.  Vissulega voru flest lönd Austur-Evrópu undir járnhæl Sovétmanna, en þessi þrjú voru þau einu sem voru innlimuð í Sovétríkin.

Eistlendingar reyndu að lýsa yfir sjálfstæði sínu, en Sovétríkin hlustuðu ekki á yfirlýsinguna og stuðning var hvergi að finna.

Eistland missti yfir 280.000 menn í stríðinu með einum eða öðrum hætti, u.þ.b. 25% af íbúum sínum, ríflega 200.000 af þeim létust, en flóttamenn voru taldir ríflega 70.000.  U.þ.b. 10. hver Eistlendingur bjó utan heimalandsins í stríðslok, en þá voru Eistlendingar taldir á milli 7 og 800.000, 97 til 98% Eistlendingar.

Fljótlega hófu Sovétmenn að "flytja inn" fólk frá Sovétríkjunum og á milli 1945 og 1950 komu tæplega 200.000 innflytjendur frá Sovétríkjunum til Eistlands.

Þegar litið er til sögunnar, er því ekki skrýtið þó að Eistlendingar vilji taka niður styttu þá sem ræðir um í fréttinni.  Þeir líta flestir svo á að ekki hafi verið um frelsun að ræða, þó að þeir hafi fagnað flótta Þjóðverja, þeir líta svo á að þeir hafi skipt á einu hernámi fyrir annað.

 
mbl.is Eistnesk stytta veldur úlfaþyt í Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband