Af dauðarefsingum

Ég bloggaði stuttlega um aftöku Saddams um daginn og sagði að þó ég væri almennt á móti dauðarefsingum þá treysti ég mér ekki til að segja að þær gætu aldrei átt rétt á sér.  Nú hafa fleiri aftökur verið framkvæmdar í Írak, og koma fordæmingar víða að, eina af þeim má lesa hér.

En það eru fjölmargar aftökur sem fara fram víða um heim, sem gjarna vekja litla athygli.  Um eina af þeim má lesa í fréttinni sem tengd er við þessa færslu.  Ekki hef ég séð neina fordæmingu á henni.  Ekki hafa verið neinir fjöldafundir, engir hafa svo ég veit komið saman til að mótmæla henni, engum blöðrum hefur verið sleppt til að minnast fórnarlamba klerkastjórnarinnar í Íran.

En tugir manna eru teknir af lífi í Íran á ári hverju, þó að tölum beri ekki saman.  Þeir sem eru teknir af lífi geta sumir hverjir ekki einu sinni talist sekir, alla vegna ekki eftir þeim stöðlum sem við oftast kjósum að nota.  Þeir hafa afneitað trúarbrögðum, eru "fundnir sekir" um hórdóm eða samkynhneigð svo dæmi séu tekin.

Svipaða sögu má segja frá Kína, þar eru tugir eða hundruðir manna teknir af lífi á hverju ári, aftökurnar virðast jafnvel vera skipulagðar í samræmi við eftirspurn eftir líffærum þeirra sem hafa verið dæmdir til dauða.  Ég man ekki í svipinn eftir mörgum þjóðarleiðtogum sem hafa fordæmt þetta athæfi, alla vegna ekki opinberlega.

Flestir ættu að kannast við þann fjölda aftakna sem framkvæmdur er í Bandaríkjunum á hverju ári, það má nefna til sögunnar mörg fleiri ríki.

Mér þykir það skrýtin staðreynd, ef Saddam Hussein og böðlar hans eru þau dæmi sem menn helst velja sér þegar þeir fordæma og berjast gegn dauðarefsingum.

Kaldhæðnin er líklega að aftaka böðlanna mætti meiri andstöðu og var fordæmd víðar, en flestar ef ekki allar þær aftökur sem þeir stóðu fyrir.
mbl.is Mannræningi hengdur á torgi í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér góðan pistil, Tómas. Árlegu aftökurnar í Kína eru reyndar um 1700 skv. tölum yfirvalda þar, og eru þeir þar efstir á blaði hjá Amnesty International. Þó er talið (var sagt nýlega í Speglinum í Rúv.), að þær kunni að vera um 8.000 á ári. Já, það er kaldhæðnislegur sannleikur fólginn í lokasetningu þinni. Það hryggilegasta er vitaskuld, að allstór hluti þeirra, sem teknir eru af lífi, er saklaust fólk. Þögn okkar um það heyrist mér æpa öllu hærra en það sem sagt er um þekktustu aftökur síðustu vikna.

Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband