Reykjavíkurvælið

Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna pólítíska umræðu á Íslandi undanfarin misseri, er það sem ég kalla "Reykjavíkurvælið".

Það er þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vælir um erfitt hlutskipti sitt og kvartar undan því að allir séu vondir við sig og það sem aflaga fari í Reykjavík sé flest annað hvort ríkinu að kenna, nú eða þá að nágrannasveitarfélögin varpi byrðinni á Reykjavík.

Stundum finnst mér eins og þetta sé helsti starfsvettvangur borgarstjóra á milli borðaklippinga og glærusýninga.

En það er litið fram hjá þeim kostum sem fylgir því að vera stærsta (eða eina) borg Íslands og jafnframt höfuðborg.

Það er næstum því óhjákvæmilegt að nálægt stórum borgum byggist upp "svefnbæir". Þeir lúta yfirleitt öðrum lögmálum en stórborgirnar (þetta hugtak á auðvitað ekki við Reykjavík, nema í Íslenskum skilningi).

Þannig leita yfirleitt fleiri tekjulágir inn í stórborgirnar, enda eru þar öllu jöfnu mun fleiri atvinnutækifæri. 

Það sama gildir um heimilislausa, hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Þeir leita inn í stórborgirnar (yfirleitt "kjarnana"), enda er þar meiri fjöldi af fólki á ferli, fleiri vínveitingastaðir og svo framvegis.

Á móti kemur að "stórborgin" og/eða höfuðborgin hefur auknar tekjur af hótelum, veitingastöðum, fyrirtækjum og síðast en ekki síst ríkisstofnunum, en aðrir þéttbýliskjarnar.

Hvað skyldi hátt hlutfall af fasteignagjöldum ríkisstofnana renna til Reykjavíkurborgar? (bæði beint frá ríkinu og svo frá þeim sem leigja ríkisstofnunum?).

Er hærra hlutfall af störfum per íbúa í Reykjavík, en í öðrum sveitarfélögum?

Svo kemur að "væli" Reykjavíkurborgar um að "Gistináttaskattur" skuli ekki renna til borgarinnar.

Þar eru nefndar til sögunnar aðrar stórborgir sem njóta skattsins, til dæmis New York, London og svo framvegis.

Enn og aftur virðast þeir sem stjórna Reykjavíkurborg ekki skilja muninn.

Þeir sem heimsækja New York eða London, eru fyrst og fremst að heimsækja þessar borgir (þó að vissulega kunni þeir að nota tækifærið og fara annað í leiðinni).

En þeir sem heimsækja Reykjavík?

Eru þeir ekki fyrst og fremst að heimsækja Ísland?  Fer ekki stærstur hluti þeirra "Gullna hringinn", o.s.frv?  Er eitthvað óeðlilegt við að t.d. hluti gistináttaskattsins fari í uppbyggingu á þeim stöðum?

Þurfa ekki nær allir ferðamenn (nema þeir sem lenda á einkaþotum á Reykjavikurflugvelli) að keyra frá öðru sveitarfélagi til hótela sinna í Reykjavík?  Er eitthvað óeðlilegt að einhver hluti gistináttagjalds renni til uppbyggingar á þeirri leið (Þeim meirihluta sem nú ríkir í Reykjavík, virðist fátt mikilvægara en að koma flugvelli sínum úr borginni).

Hefur eitthvert sveitarfélag á Íslandi hagnast meira á ferðamannastraumnum en Reykjavík, með síhækkandi fasteignagjöldum af hótelum, veitingastöðum og "lundabúðum?  Jafnframt því er uppbygging og lóðasala til hótela jafnframt hluti af tekjum borgarinnar.

Hvert skyldi vera hlutfall gistirýmis per íbúa í Reykjavík samanborið við önnur sveitarfélög?

Hvaða kostnaði hefur Reykjavíkurborg þurft að standa straum af á móti?

Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur kosið að einblína á það sem getur talist neikvætt við það að vera stórborg/höfuðborg, en nefnir aldrei allt það sem hún ber úr býtum vegna þess.

Er ekki mál að linni?

 

 

 

 

 


Er Seðlabankinn með allt niðrum sig?

Þó að mér gæti ekki verið meira sama um hvort að nektarmyndir (sama af hvaða toga þær eru) hanga uppi í Seðlabankanum eður, finnst mér umræðan sem hefur spunnist um þær nokkuð áhugaverð.

Það virðist ekki ganga upp að "frjálsar geirvörtur" prýði veggi bankans.

En eru geirvörtur á myndum Gunnlaugs eitthvað merkilegri en geirvörtur á mánaðadegi einvers höggdeyfaframleiðenda?  Hvað ef "pin-up" myndirnar eru teknar af frægum "listrænum" ljósmyndara"?

Hafa "listamenn" meiri rétt en aðrir til að vera "ögrandi", "móðgandi", eða "klámfengnir", nú eða kalla hjúkrunarfræðinga hjúkrunarkonur?

Eiga allir rétt á að lifa og starfa í umhverfi sem ekki misbýður þeim eða móðgar á nokkurn hátt?  Hver á að tryggja það og hvernig?

En hins vegar verð ég líka að segja að ég skil Seðlabankann fullkomlega.  Ef ég ræki stóran vinnustað og einhver hluti af starfsfólkinu óskaði þess við mig að einhverjar myndir yrðu teknar niður, myndi ég án efa gera það ef ég teldi að "andinn" á vinnustaðnum yrði betri.

Á hvers rétt gengur það?

Hugsanlega þeirra sem nutu myndanna, fram hjá því er ekki hægt að líta.  Þeir geta orðið af hugsanlegum ánægjustundum.

En skrifstofur eru ekki "almannarými". Hafi verið rætt við þá sem unnu á skrifstofunum og þeir verið sáttir við að fá aðrar myndir á vegginn er í raun lítið frekar að ræða.

Hafi það hins vegar verið gegn þeirra vilja, er komið annað mál.

Er svo kominn tími til að setja upp skilti við inngang á listasöfnum, þar sem varað sé við því að þar sé hugsanlega að finna hluti sem geti gengið gegn blyðgunarkennd, verið móðgandi og jafnvel valdið óþægilegum hugrenningum.

Eða ætti frekar að skylda alla til þess að setja sambærilegt skilti á innanverða útihurðina hjá sér?


Bloggfærslur 22. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband