Færsluflokkur: Grín og glens
27.4.2020 | 06:39
Æ, þeir gömlu góðu dagar þegar Reykjavíkurborg tapaði á ferðamönnum
Ég var sem oft áður að þvælast á netinu og þá kom þessi frétt upp neðarlega í einni leitinni. Síðan í febrúar á þessu ári en það virkar eitthvað svo ótrúlega langt síðan.
Tap borgarinnar af ferðamönnum 6-9 milljarðar
Þessir gömlu góðu dagar. En nú gefst tækifæri til að byrja upp á nýtt og ef til vill halda ferðamönnum i burtu frá borginni - til langframa.
Tap gengur ekki að eilífu.
Það hefur all nokkuð fjallað um alls kyns rangfærslur um það sem geti hjálpað einstaklingum í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að vera "krýndur".
Flestar ef ekki allar eiga það sameiginlegt að koma að engu læknisfræðilegu gagni. En það þýðir ekki að við eigum að hundsa þær og svo kemur "sálfræðifaktorinn" líka inn í.
Það er t.d. nokkuð ljóst að 40% alkóhól er ekki nógu sterkt til þess að drepa veiruna.
En varla getur það skaðað að skola hálsinn með góðu koníaki eða viskí eftir vikulega búðarferð. Ef það hjálpar ekki situr í það minnsta eftir gott bragð og ánægjuleg tilfinning.
Það tryggir ekki neitt að borða hvítlauk, en margir vilja þó halda því fram að það hjálpi ónæmiskerfinu.
En ef þú ert einn í samkomubanni (eins og ég), eða þeir sem eru með þér eru sömuleiðis til í hvítlaukinn, hverju hefurðu að tapa? Er það ekki týpísk win/hugsanlegt win staða?
Að drekka sítrónusafa gerir þig ekki ónæma/n fyrir "Kórónunni", en ef þú ert hvort sem er að fá þér G&T, eða smá vodka, þá gerir það ekkert nema gott að setja sítrónubát út í.
Ekki hika við það.
Reyndar er hvorki gin né vodki nauðsynlegt. Sódavatn með sítrónu er klassadrykkur.
Það sama má segja um marga ávexti og ber. Þeir koma ekki til með að hindra Kórónuveiruna, en þeir eru stútfullir af vítamínum og alls kyns öðru gumsi sem munu ekki gera þér neitt illt.
Það hefur líka verið sagt að gulrætur séu góðar í baráttunni við "Kórónuna". Ekkert bendir til þess, en ef þú ert sísvangur í samkomubanni, þá er hægt að borða margt verra.
Eina það sem þarf að hafa í huga að ef þú borðar mikið af t.d gulrótum eða sætum kartöflum, er hugsanlegt að á menn komi örlítið gulur/appelsínugulur blær. Slíkir einstaklingar njóta ekki mikilla vinsælda þessa dagana. Þetta er því varasamt fyrir ljóshærða.
Margir hafa hafa talað um hunang og t.d. engifer. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta komi í veg fyrir að þú smitist af vírus, eða lækni þig.
En rétt hlutföll af hunangi, ferskum engifer, sítrónusafa og heitu vatni, hafa ekki eingöngu alltaf hjálpað mér til að líða betur þegar ég hef verið veikur, heldur bragðast (að mínu mati) konunglega.
En svo allrar sanngirni sé gætt, hafa Vaktaseríurnar og kvikmyndin Bjarnfreðarson rétt eins og hunang/engifer/sítróna, látið mér líða betur í veikindum. Það má enda segja að ég horfi á þær flest ár, akkúrat þegar einhver leiðinda flensa nær tökum á mér í einhverja daga.
Ég er búinn að horfa á allar Vaktirnar, plús Bjarnfreðarson á þessu ári(gerði það um miðjan mars). Hrein snilld.
En líklega hafa þær engan forvarnar- eða lækningamátt gegn Kórónavírusnum. Mér er þó ekki kunnungt um hvort að það hafi verið rannsakað.
En hláturinn er sagður lengja lífið, ég er næsta viss um að gleðin gerir það líka.
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2020 | 05:25
Næstum því eins og í "gamla daga"
Nú er runninn upp föstudagurinn langi. Ekki veit ég af hverju hann er langur á Íslandi (og Norðurlöndunum)en góður hjá Enskumælandi fólki. Það verða einhverjir aðrir að útskýra.
Hér í Eistlandi er þessi föstudagur stór (suur), en það er ekki langt frá merkingunni langur.
En í minni fjölskyldu hefur oft verið grínast með mismunandi merkingar orða í þeim tungumálum sem við notum.
Þannig hef ég oft sagt krökkunum mínum að í minni barnæsku hafi þessi dagur svo sannarlega verið súr (sami framburður og suur).
Ég var einmitt að hugleiða það yfir kaffibollanum nú í morgunsárið að líklega væri þetta þetta það næsta því sem yngri kynslóðir kæmust að upplifa föstudaginn langa eins eldri kynslóðir gerðu.
Það var fátt í boði. Allt var lokað. Engar matvöruverslanir (hvað þá aðrar verslanir), bensínsstöðvar, veitingastaðir, eða aðrir samkomustaðir máttu vera opnir.
Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu (1. rás af hvoru) bar að því virtist lagaleg skylda til þess að senda út leiðinlega dagskrá sem "enginn" nennti að horfa á.
Teiknimyndir á föstudaginn langa hefði líkega verið talið guðlast. Popptónlist í útvarpinu sömuleiðis.
En að vísu máttum við fara út og það jafnvel í hópum. Að því leyti var staðan jákvæðari en hún er í dag. Engin krakki eða unglingur hafði síma, þannig að truflun og "heimkall" var mun erfiðara.
En það var ekkert internet, Netflix var ekki einu sinni orðið að hugmynd, hvað þá YouTube, Spotify og allt þetta.
Um páskadag giltu sömu reglur, en þá var meira súkkulaði í boði, sem gerði hann bærilegri.
Á skírdag máttu skemmtistaðir vera opnir til miðnættis, en það mátti ekki dansa. Eftirlitsmaður frá ríkinu kom og sá um að ekkert slíkt ætti sér stað.
Skilaboðin frá ríkinu: Eitthvað af brennivíni er í lagi, svo lengi sem ekki er dansað. Bjór mátti auðvitað engum selja, hvorki þann dag né aðra fyrr en 1989.
Seint á 9unda áratugnum var svo stigið stórt skref í frjálsræðisátt þegar skemmtistöðum var leyft að opna á miðnætti eftir föstudaginn langa og páskadag. Þó fór það eitthvað eftir sýslumönnum, því þeir gáfu út skemmtanaleyfin.
Um miðjan 9unda áratuginn var útvarpsrekstur gefinn frjáls og Bylgjan og Stöð2 hófu útsendingar.
Svo var slakað á hvað varðaði verslanir, veitingastaði o.s.frv. Hægt og rólega færðist samfélagið áfram veginn.
En það gerðist ekki með því að enginn talað fyrir frelsinu, eða berðist gegn stjórnlyndinu.
Frumvörp um frjálst útvarp og að Íslendingar gætu drukkið bjór voru marg sinnis lögð fram á Alþingi. En stjórnlyndisöflin höfðu alltaf sigur framan af.
Sjaldan eða aldrei þótti "rétti tíminn" til að taka upp "slík mál".
Nú er svo komið að Íslendingar geta látið "guðlast" rata af vörum sínum. Þeir geta gefið út blöð og framleitt sjónvarpsþætti, þar sem gert er grín að "almættinu", jafnvel sýnt þá á páskum, án þess að eiga það á hættu að ríkiskirkjan kæri þá til lögreglu.
En það er ennþá fjölmargar breytingar sem er þess virði að tala um, berjast fyrir og leggja fram frumvörp um.
Það er ef til vill kjörið tækifæri fyrir foreldra að nota daginn í dag til þess að útskýra fyrir yngri kynslóðum að þrátt fyrir að samkomubann og samgöngulausa hvatningu, þá lifum við góða tíma og velmegun og frjálslyndi eykst jafnt og þétt, þó að stundum hlaupi snuðra á þráðinn.
Ég óska öllum nær og fjær góðs dags og hann verði ekki of "langur".
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2020 | 12:21
Landabruggarar til aðstoðar?
Þessar leiðbeiningar eru auðvitað þarfaþing, enda er "handspritt" víða uppselt. Ég man þó ekki eftir því að "ríkið" selji áfengi sem hentaði til þessarar framleiðslu.
En þetta gæti auðvitað verið góð aukabúgrein fyrir landabruggara.
"Handspritt í heimsendingu"© væri líklega "hot" vara.
En gæðavara á við þessa er að ég best veit ekki á boðstólum á Íslandi, en hún væri auðvitað tilvalinn í þessa framleiðslu.
Sjálfur á ég yfirleitt eina flösku af 80°, og nota það einmitt til hreinsunar á alls kyns hlutum.
En líklega verður fljótlega skortur á þetta sterku áfengi, samanber þessa frétt frá Japan.
Það er því ef til vill ráð að fara að hvetja landabruggarana til að fara að hita upp græjurnar.
Gerðu þitt eigið spritt með þessu þrennu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2020 | 16:58
I got a Harley for my husband
Ég var að þvælast í umferðnni í gær. Keyrði þar rólega á eftir býsna stórum jeppa, enda hámkarkshraðinn aðeins 50. Lenti síðan á rauðu ljósi og fór að lesa límmiða sem voru nokkrir á afturrúðinni.
Meðal annars þessi frá Harley Davidson mótorhjálaframleiðandanum.
"I Got A Harley For My Husband - Best Trade I have ever made.
2.2.2020 | 20:52
Varúð: Fimmeyringur
Það hefur auðvitað alltaf verið varasamt að keyra Á móti sól, sérstaklega þegar hún er lágt á lofti í janúar og febrúar.
Á móti sól í bílslysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2020 | 16:47
Ef til vill ekki neitt annað ráð í stöðunni?
Það er auðvitað engin leið að vita hvort að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn, þegar ekki er vitað hverjir sóttu um.
En mér lýst ekkert illa á Stefán í stöðuna, hef raunar ekki á því sterka skoðun.
En er ekki ljóst að RUV hefur gengið fram með slíkum lögbrotum undanfarin ár að stjórn þess sá að ekkert myndi duga nema fyrrverandi lögreglustjóri til að breyta þeirri "vinnustaðamenningu"?
P.S. Svo eigum við auðvitað eftir að sjá hvort að þurfi að borga skaðabætur vegna jafnréttisjónarmiða, en ég vona að svo verði ekki.
Enda miðað við lögbrot RUV undanfarin ár, myndi sú lögreglustjórareynsla trompa flest annað. Nema auðvitað að kvenkyns lögreglustjóri hafi sótt um.
Stefán Eiríksson ráðinn útvarpsstjóri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2020 | 00:57
Fallinn er frá snillingur
Þeir verða ekki yngri, frekar en við hin, en það er sjónarviptir að Terry Jones, og Monty Python meðlimanna allra, sumir á lífi, aðrir eins og Terry gengnir á vit feðranna.
En þeir eiga svo marga "sketsa", og svo margar góðar "línur" að það er engu líkt.
Horfið á síðustu klippuna í fréttinni sem þessi færsla er hengd við.
Slík snilld er ekki á hvers manns færi og því miður ekki algeng.
Enda hefur setningin: "He is not the Messiah, he is a very naughty boy", oft verið kosinn fyndnasta setning kvikmyndasögunnar. En vissulega er smekkurinn misjafn eins og mennirnir eru margir.
En kvikmyndin "Life Of Brian", sem Terry Jones leikstýrði, er að mínu mati ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Líklega sú mynd sem ég hef oftast horft á.
Það var ekki tilviljun að myndin var meðal annars auglýst, sem "So funny, it was banned in Norway".
Það verður hlegið af verkum Terry Jones, svo lengi sem lönd eru í byggð.
Terry Jones látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2020 | 02:55
Stóra "lúðamálið" og "sósíal realísk" kvikmyndagerð
Mér fannst nokkuð gaman að lesa um "stóra lúðamálið". Sem gömlum "landsbyggðarlúða", sem breyst hefur í "sófistíkeraðan" stórborgarmann, er mér auðvitað málið skylt og þekki það af eigin raun. Frá báðum ef ekki fleiri hliðum.
Það er vissulega freistandi að taka upp þykkjuna fyrir "landsbyggðarlúðana", þó þykist hinn "sófistíkeraði" stórborgarbúi vita betur.
Það er nefnilega þetta með raunsæið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Það vill oft fara fyrir ofan garð og neðan.
Það kann auðvitað að koma mörgum á óvart að ungt fólk í New York býr ekki eða lifir eins og sést í "Friends", allra síst ef það er atvinnulaust eða með stopula vinnu. Það eru víst sömuleiðis býsna margir New York búar sem deila ekki lífsstíl með vinkonunum í "The Sex And The City".
Homer er ekki týpískur starfsmaður í Bandarísku kjarnorkuveri og ef við skellum okkur í sumarfrí til Torquay, þurfum við ekki að eiga von á svipuðum trakteringum og gerðust í "Fawlty Towers", þó að þeir þættir (eins og margir aðrir) séu reyndar byggðir á raunveruleikanum að hluta til.
Bandarískur lögreglumaður sem ég eyddi einu sinni smá tíma andspænis á bar, sagði mér í óspurðum að kleinuhringjaát þeirra í kvikmyndum væri ofgerð og leiðinleg steríótýpa.
Líklega eru rannsóknarlögreglumenn heldur ekki jafn einmanna, þunglyndir, drykkfelldir og fráskyldir og sýnt er í þáttum og kvikmyndum. Alla vegna ekki þeir sem ég hef kynnst, en þeir eru reyndar það fáir að þeir teljast ekki marktækt úrtak.
Ég leyfi mér sömuleiðis að efast um að þeir félagar Ólafur Ragnar og Georg séu týpískir starfsmenn á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ættu stéttarfélög ef til vill að fara að huga að "ímynd" félagsmanna sinna í kvikmyndum og sjónvarpi?
Þannig er það að oft velja sögu- og kvikmyndagerðarmenn að sýna okkur frekar ýkta, en skemmtilega/áhugaverða útgáfu af raunveruleikanum.
Oft eitthvað sem þeir teljs "söluvænlegt".
Það er engin ástæða til þess að taka það of hátíðlega, persónulega hef ég engan áhuga á því að taka undir einhver áköll um "sósíal realíska" kvikmyndagerð.
Kæfum ekki kvikmyndir eða önnur skáldverk með kröfum um um að þau endurspegli raunveruleikann.
Það er ekkert að því að einhver þeirra geri það, en alls ekki nauðsyn.
Grín og glens | Breytt 12.1.2020 kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2019 | 15:00
Loksins: "Fjarlæga hliðin" kemur á vefinn
Það var mörgum mikill harmur þegar Gary Larson dró sig í hlé og "The Far Side" hætti að dafna og þroskast.
En nú er hægt að taka gleðina upp að nýju, stórglæsileg vefsíða hefur opnað, ekki flókið https://www.thefarside.com/ , og síðan er uppfærð daglega.
Ótrúleg hamingja að geta fengið sinn daglega skammt.
Ég er reyndar hamingjusamur eigandi af heildarsafninu, "The Complete Far Side", og hef verið í vel á annanáratug. Það er sígildur gleðigjafi.
En nú er heimasíðan dagleg skylduheimsókn.