Færsluflokkur: Lífstíll
2.11.2007 | 04:39
Blessað áfengið og heilbrigðisráðherra
Nokkuð mikið hefur verið rætt um frumvarp þess efnis að leyft verði að selja áfengi í fleiri verslunum en hins opinbera, þ.e.a.s. að verslun með létt vin og bjór verði gefin frjáls og geti farið fram í matvöruverslunum.
Reyndar hefur komið í ljós að þess munu vera dæmi um að áfengi fáist í matvöruverslunum á landsbyggðinni, og það án þess að hið háa Alþingi hafi verið spurt álíts, en það er í auðvitað önnur saga, því ef "neyðin" er fyrir hendi, þá er þetta sambland áfengis og matvæla auðvitað fyrirgefanlegt og enginn hefur heyrt um "róna" í dreifbýlinu, hvað þá á þar þekkist að bjór sé seldur kældur í stykkjavís.
(Þetta minnir mig reyndar á það hvað margt vill verða líkt með tilhögun hér í Ontario og á Íslandi, en hér er að segja má sama fyrirkomulag á áfengissölu (fylkið rekur hana) með þeim undantekningum að vínframleiðendur mega selja eigin vöru, björframleiðendur reka saman bjórverslanir og svo er það rétt eins og á Íslandi að í dreifbýlinu eru áfengisverslanir í "slagtogi" við aðrar verslanir, þar með taldar matvöruverslanir).
En rökin sem fram eru færð á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum virðast helst vera þessi:
Að aðgengi að áfengi aukist og þar með "lýðheilsutjón" sem það veldur.
Að úrval minnki og verð komi til með að hækka þegar einkaaðilar taki við.
Margir nefna það einnig að það sé enginn fyrirhöfn að fara í aðra verslun (gjarna hvort eð er í sömu verslunarmiðstöð) og þeir hafi aldrei orðið að neita sér um vín þess vegna. Þessu er ég reyndar nokkuð sammála, þ.e.a.s. að ég man ekki eftir því í fljótu bragði að hafa ekki getað drukið vín þegar ég vildi við hafa, en það skiptir einfaldlega ekki miklu máli í umræðunni.
Það hlýtur þó flestum að vera ljóst að þetta gengur ekki alveg upp, enda varla hægt að tala um að aðgangur aukist, ef verð hækkar og aðgangur er slíkur að enginn hefur nokkru sinni misst af því að kaupa vín, eða fundið nokkuð óhagræði af núverandi fyrirkomulagi.
Það má líklega einnig minna á þær "heimsendaspár" sem fram komu þegar rætt var um að leyfa sölu á áfengum bjór á Íslandi. Ég held að það geti ekki talist að þær hafi gengið eftir.
Loks hafa margir hneykslast á því að sjálfur heildbrigðisráðherra skuli hafa lýst því yfir að hann styðji frumvarpið og gangi þannig gegn ráðleggingum jafnvel sjálfs Landlæknis. Slíkt virðist þeim þykja hneysa.
Slíku fólki þykir líklegast heilbrigðisráðherra nokkuð óþarfur í stjórnsýslunni, enda geta líklega Landlæknir og aðrir embætitismenn í heilbrigðiskerfinu hæglega stjórnað með tilskipunum, ef það er reginhneyksli að ráðherra skuli leyfa sér að hafa aðra skoðun en þeir.
Í umræðunni hafa einnig verið rannsóknir frá Svíþjóð, Kanada og einhverjum öðrum löndum sem eiga sýna það að einkavæðing á léttvíns og bjórsölu sé feigðarflan og komi til með að kosta tugi Íslendinga lífíð árlega.
Ekki hef ég kynnt mér þær rannsóknir og efast reyndar um að ég eigi nokkurn tíma eftir að gera það, svo sterkur er áhugi minn á þessu máli ekki. Það er reyndar svo oft með rannsóknir að þær virðast stundum sýna það sem menn hafa áhuga fyrir að þær sýni (hér er ekki verið að alhæfa, eða taka sérstaklega til þeirra rannsókna sem hér um ræðir), enda þveröfugt við það sem margir halda, þá hafa margir vísindamenn skoðanir.
En svo háttar þó til að ég bý í Kanada, þar sem einkasala ríkír hér í Ontario, þar sem ég bý, en í næsta "hreppi" Quebec, er leyft að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. Eftir því sem ég hef heyrt, ríkir þó síst verra ástand í áfengismálum í Quebec en hér í Ontario. Reyndar hafa margir fullyrt í mín eyru að þar hafi alkóhólismi dregist saman frekar en hér í Ontario.
Þegar ég núna rétt í þessu googlaði þetta fann ég tvær rannsóknir, sem má finna hér og hér.
Á fyrri hlekknum má lesa eftirfarandi:
"This paper examines the effect of introducing wine into grocery stores in Quebec. Beer has been available in Quebec grocery stores for many years but limited wine sales were introduced in 1978. Data on wine sales and total sales of alcoholic beverages were examined for Quebec and Ontario for the years 19671983. Neither beer nor wine are sold in the grocery stores of Ontario and it represented a control province. The analyses show that there was no impact on wine sales or total alcohol sales from the introduction of wine into grocery stores. In fact, alcohol consumption fell a little more in Quebec than in Ontario. The reasons for the lack of impact could include depressed economic circumstances, the relative unpopularity of wine compared to other beverages and the long-term trend toward lower alcohol consumption throughout Canada. "
Á þeim seinni segir að alkóhólistar sem hlutfall af 100.000 íbúum hafi verið 4300 bæði í Quebec og Ontario árið 1975. Árið 1990 var hlutfallið 2700 í Ontario en komið niður í 2500 í Quebec.
Ekki ætla ég að segja að þessar rannsóknir séu einhver stóri dómur, enda hef ég hvorki kynnt mér þær né aðrar rannsóknir til hlýtar. En þessar niðurstöður benda vissulega til þess að það séu einhverjir aðrir "kraftar" að verki en hvort að létt vín og bjór er selt í matvöruverslunum eður ei, þegar umræðan er um "lýðheilsutjón" og áfengisfíkn.
Ég vil því taka ofan fyrir heilbrigðisráðherra fyrir að taka afstöðu með frjálsræðinu og ganga ekki í forræðisbjörgin í þessu máli.
Að lokum vil ég rétt minnast á það, að þegar forræðishyggjumennirnar byrja að tala að hætta sé að stórauknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu vegna aukins aðgengis að áfengi, að það eru verstu meðmæli með opinberu heilbrigðiskerfi sem hugsast getur, ef forræðishyggjumenn nota það sem vopn til þess að banna allt það sem hugsanlega getur aukið útgjöld í því sama kerfi.
Má ég þá frekar biðja um að standa utan þess kerfis (sem ég annars held að sé nokkuð mikil sátt um bæði hér í Kanada sem og á Íslandi), heldur en að fela ákvarðanir sem varða lífstíl minn og frelsi forræðishyggjufólkinu í hendur.
Slík forræðishyggja grefur undan samkomulaginu um sameiginlegt heilbrigðiskerfi og almannatryggingar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2007 | 04:25
Græna grasið
Mér hefur alltaf þótt það nokkuð merkilegt hvað stór hópur Íslendinga virðist sannfærður um hve slæmt sé að lifa á Íslandi og að meginþorri landsmanna hafi það skítt.
Það má líka skilja á mörgum að víðast hvar annars staðar hafi menn það betra en á Íslandi.
Þrátt fyrir þetta "skorar" Ísland gríðarlega hátt í öllum samanburðarrannsóknum á lifsgæðum sem ég hef séð.
Núna rétt áðan rakst ég svo á blog hjá Pálma Gunnarssyni, sem ég hlustaði einu sinni á um hverja helgi í Sjallunum, en það er önnur saga. Þar kveður einmitt við þennan tón og er tíundað hve gott sé að búa í Kanada og að jafnvel sé þörf á "léttvopnaðri" byltingu á Íslandi.
Það er þó rétt að hafa í huga að Kanada er öllu jöfnu á svipuðum slóðum og Ísland í lífskjarasamanburðinum, gjarna þó nokkrum sætum neðar.
Ekki ætla ég að neita því að að ágætt er að lifa í Kanada, enda líður mér ágætlega hér. Hér má fá, líkt og Pálmi nefnir dáyndis steikur á góðu verði (ég keypti í dag, beint frá kjötvinnslu, nautalund á ca. 1020 kr Íslenskar kílóið. Svínalundir kosta hér gjarna um 600 kr kg.), hér kostar bensínlítrinn tæpar 60 krónur Íslenskar, hér er miklu hlýrra á sumrin (en að sama skapi miklu kaldara en á Íslandi á veturna), hér á hægt að kaupa sér föt fyrir lítinn pening, bílar kosta ekki nema brot af því sem þeir kosta á Íslandi, tölvur, sjónvörp og önnur rafmagnstæki kosta sama og ekki neitt og svo mætti lengi telja.
Heilbrigðiskerfið er ágætt og rétt eins og á Íslandi að mestu leyti frítt, en biðraðirnar plaga Kanadamenn, rétt eins og Íslendinga.
Húsnæðisverð (bæði kaup og leiga) er mun ódýrara hér í Toronto en í Reykjavík, en gæði húsnæðis eru hins vegar miklu meiri á Íslandi.
Þetta hljómar ljómandi ekki satt? En hlutirnir eru ekki svona einfaldir.
Fyrst ber að nefna að almennt eru laun lægri í Kanada en á Íslandi (best er auðvitað að hafa Íslensk laun og kaupa í matinn í Kanada). Skattar eru svipaðir hér og á Íslandi (þó er kerfið flóknara og ekki eins auðvelt að átta sig á því). Líklega eru skattar á meðallaun heldur hærri hér í Kanada en á Íslandi. Sjá hér á Wikipedia.
Fasteignaskattar eru víðast mun hærri en á Íslandi (enda ein af fáum tekjulindum sem sveitarfélögin hafa, þau fá ekki að leggja skatta á tekjur íbúanna), en eru verulega mismunandi eftir sveitarfélögum.
En viljirðu læra t.d. verkfræði við háskólann í Toronto, kostar það þig um það bil 440.000 á ári. Langi þig til að læra lögfræði er gjaldið ríflega milljón á ári og þeir sem fara í tannlækningar borga ríflega 1200.000 á ári. Kostnaðinn er hægt að sjá hér. Þetta eru tölur fyrir heimamenn.
Gjald fyrir dagvist hér í Toronto er ekki óalgengt á bilinu 70 til 95.000 fyrir hvert barn. Þó myndi ég telja að gæði dagvistarinnar stæði langt að baki því sem gerist á Íslandi.
Bílatryggingar eru líklega þó nokkuð hærri en á Íslandi, ekki er óalgengt að borgað sé fast að 200.000 fyrir kaskó og ábyrgðartryggingu á meðalstórum bíl (verðmæti bíls um 1.5 milljón). Ef unglingur er í fjölskyldunni og keyrir bílinn er tryggingin yfirleitt mun hærri.
Yfirdráttur á bankareikningum er ekki svo algengur hér, en þess í stað eru tekin neyslulán á kreditkortin, sem segja má að svo sami eða svipaður hlutur. Vextir á þeim eru algengir á bilinu 18 til 23%. Verðbólga í Kanada er ca. 2%.
Það er hægt að halda lengi áfram með samanburðinn, sumt er Íslandi í hag, annað Kanada.
Bæði löndin hafa stórkostlega náttúru, en það má heldur ekki gleyma lífsgæðum eins og að geta drukkið vatnið úr krananum (ekki það að það gera margir hér í Toronto, en ég get ekki fellt mig við klórbragðið) og nota bene, það er selt inn í eftir mæli.
Ekki má heldur gleyma heitavatninu. Það gerir það að verkum að mun ódýrara er að hita hús á Íslandi en hér í Kanada, að ógleymdum þeim lúxus að geta verið eins lengi í sturtu og manni þóknast, en hafa ekki bara hitavatnsdúnk. Hitinn á sumrin er heldur ekki bara blessun, því að þó að tómatarnir og baunirnar spretti vel í garðinum, þá kostar stórar fjárhæðir að halda lífvænlegu innandyra þegar hitinn er um og yfir 30 stig.
Þannig er að það er misjafnt hvernig litið er á hlutina og hvort að "glasið er hálfullt eða hálftómt", lífið skítt eða hreinlega bærilegt.
Hitt er svo auðvitað rétt að það er engin ástæða til að gefast upp á því að berjast fyrir lægra matvöruverði á Íslandi og gera Ísland þannig að enn betra landi.
Það væri auðvitað lang best að hafa Íslensk laun, matarverð eins og í Kanada eða bara Brasílíu, vexti eins og í Japan, atvinnuleysi eins og á Íslandi, vínverð eins og í Frakklandi og Spáni, vatn eins og á Íslandi og þar fram eftir götunum, en því miður er það líklega ekki raunhæft.
Að lokum má ég til með að minnast á símamálin sem Pálmi minnist á í blogginu sínu. Það er alveg rétt að hér eru gjöld fyrir síma og internetnotkun mun lægri en á Íslandi, en að nota tölvuforrit til og borga mun minna fyrir símanotkun, t.d. um 10 evrur fyrir nokkra mánuði, er hægt að gera víðast hvar um heiminn og bæði á Íslandi og í Kanada.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 04:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.4.2007 | 03:25
Vorkoman að Bjórá
Það er engu líkara en að veðurfarið hér í Kanada hafi ákveðið að fylgja hinni Íslensku hefð og láta sumarið byrja á morgun (fimmtudag). Hér brast á með sólskini og hlýindum í dag eftir frekar kalda og hægfara vorkomu hingað til.
Vorkoma hér er nokkurt upplifelsi fyrir nábleikan Íslending eins og mig, sem nú fagnar henni í fyrsta sinni í eigin garði. Það sem einna helst vekur athygli er allt lífið sem flögrar og hleypur hér um. Fjórar tegundir íkorna, svartir, gráir, brúnir og jarðíkornar, klifra upp um tré og rafmagnsstaura og éta blómlaukana í garðinum (nokkuð sem er partur og "prógramminu" og verður að sætta sig við), í ljósaskiptunum má sjá þvottabirni ef heppnin er með, en á minna lukkulegum dögum velta þeir um ruslatunnunni í leit að æti.
Mýgrútur flýgur og vappar hér um í leit að æti. Það sem helst veku athygli Íslendingsins er að þeir eru ekki allir móbrúnir eða gráir, heldur sjást hér rauðir fuglar, þ.e. kardínálar, bláir fuglar, Blue Jays, og gular finkur sjást stöku sinnum.
Sé útivistarsvæðin heimsótt, eru nokkrar líkur á því að sjá skjaldbökur og froska, auk hefðbundnari tegunda eins og svani og gæsir. Einsaka sinnum hef ég verið svo heppinn að rekast á snáka.
En blessaðri vorkomunni fylgja líka vorannirnar, það þarf að hlúa að blessuðum gróðrinum. Undanfarna daga höfum við grafið og fært til plöntur, hlúð að kirsuberjatrénu (sem fuglarnir átu öll berin af í fyrra), fært til myntuna, snyrt í kringum hindberjarunnana, og hreinsað í kringum ótal plöntur sem ég kann ekki nöfnin á.
Síðan á á planta um helgin, gulrótum, tómötum hugsanlega kartöflum og eitthvað var verið að ræða um vínvið og bláberjarunna sömuleiðis.
Um allt þetta veit ég næsta lítið, telst líklega frekar hafa gráar hendur en grænar (svo nýtísku flokkanir séu notaðar) en hlýði yfirgripsmikilli og öruggri leiðsögn konunnar í þessum efnum. Hún þekkir þetta út og inn, enda alin upp í sósíalísku skipulagi, þar sem öruggara var að rækta sitt eigið grænmeti en að treysta á framboðið í verslunum "alþýðunnar".
Þetta garðadútl leysir líka úr brýnni þörf Foringjans til að þess að komast í snertingu við mold og drullu, og fer hann þreyttur og ánægður að sofa á eftir.
Þannig að ef börnin verða drullug og ánægð og eitthvað ætilegt hefst af erfiðinu, er tímanum líklega nokkuð vel varið.
Hér er líklega við hæfi að óska þeim sem lesa gleðilegs sumars, og þakka þeim sem við höfum haft samskipti við fyrir veturinn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 03:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2007 | 03:38
Athyglivert framtak - Kolviðarhól
Aukin skógrækt er vissulega af hinu góða, og ég væri alveg reiðubúinn til að leggja þessu máli lið, þó að ég hafi mínar efasemdir um ástæður hlýinda á jörðinni, en það er önnur saga.
Það er líka hvorutveggja prýði að trjám sem og eins og kemur fram þá binda þau kolefni og gefa frá sér súrefni og bæta því andrúmsloftið.
En eitt skil ég þó ekki alveg í PDF skjalinu sem fylgir með fréttinni. Það er að það þurfi að planta 7 milljónum trjáa árlega og að hver bílstjóri þyrfti að gefa (sem þumalputtaregla) sem samsvaraði andvirði einnar tankfyllingar.
Nú myndi ég þyggja frekari útskýringar, því ég hélt einfeldni minni að trén "ynnu" fyrir okkur ár eftir ár, og raunar ykist "vinnuframlag" þeirra eftir því sem þau yrðu stærri.
Það sem ég hefði áhuga á að vita er hvað þarf mörg "meðaltré" til að "dekka" einn "meðalbíl" sem er ekið t.d. 20.000km á ári?
Þess utan velti ég svo auðvitað fyrir mér hvað ég "kemst langt" á risastóra silfurhlyninum sem prýðir bakgarðinn hjá mér, og skilar ekki aðeins sínu í kolfefnisbindingu, heldur býr til þægilegan skugga í garðinum og skýlir húsinu að hluta til fyrir sólinni og sparar þannig drjúgar fjárhæðir í loftkælingu. En það er líklega ekki svo einfalt að reikna það út.
Umhverfisverkefninu Kolviði hleypt af stokkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 04:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2007 | 04:01
Að framleiða þiggjendur
Ég vil nú byrja á því að taka undir með þeim sem sagt hafa þessa frétt ruglingslega. Við fyrsta lestur fær lesandinn það á tilfinninguna að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér að afnema skólaskyldu og gera foreldrum kleyft að kenna börnum sínum heima.
Þegar fréttin er lesin aftur og reynt að geta í eyðurnar fæst þá skilningur að hér sé verið að fjalla um leikskóla, eða dagheimili, en hvorugt þeirra orða er þó að finna í fréttinni.
En ég verð að segja að ég hef blendnar tilfinningar til þessarar tillögu.
Ég er reyndar ákaflega fylgjandi að því að foreldrar séu heima hjá börnum sínum fyrstu árin, ef það er mögulegt, það eru enda skiptar skoðanir um hversu hollt það er börnum að eyða of miklum tíma á dagvistarstofnunum og mismunandi niðurstöður rannsókna þess að lútandi. Ég bloggaði einmitt um eina slíka fyrir stuttu.
En það er að sjálfsögðu ljóst að það þarf að bjóða upp á gott og fjölbreytt úrval dagvistunarkosta, slíkt er nauðsyn í nútíma þjóðfélagi.
Hitt er svo spurning í mínum huga hvort að einstaklingar sem af einhverjum ástæðum kjósa að nýta sér ekki þjónustu hins opinbera eigi rétt á því að fá að einhvern hluta, eða allan, þann kostnað sem hið opinbera hefði lagt út, hefði hann nýtt sér þjónustuna.
Persónulega finnst mér verið að leggja út á nokkuð hála braut, þar sem allir (sem eiga börn) eigi rétt á því að hið opinbera greiði ákveðna upphæð fyrir barnapössun, hvernig svo sem henni er háttað.
Þetta er er ein byrtingarmynd af þeirri hyggju að gera alla að þiggjendum frá hinu opinbera.
En það eru vissulega rök með slíku fyrirkomulagi. Þetta getur sparað hinu opinbera fjárhæðir í rekstri og uppbyggingu dagheimila og gert fleirum mögulegt að vera heima hjá börnum sínum.
Ég held að ég hugsi málið enn um sinn.
Miklar umræður um skólamál á landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2007 | 03:32
Föstudagurinn góði
Hér í Kanada (og hinum Enskumælandi heimi) er ekki haldið upp á föstudaginn langa, heldur föstudaginn góða (Good Friday). Dagurinn hefur enda verið ákaflega góður og þægilegur, þó að ekki sé hægt að segja að fasta hafi tengst honum, alla vegna ekki hér að Bjórá.
Eins og alla aðra daga var farið snemma á fætur, síðan komu gestir í síðbúinn hádegismat, snæddar fylltar grísalundir, og heimagerður ís, Foringinn og dóttir gestanna, Eneli leituðu síðan að páskaeggjum í garðinum. Þar höfðu Kinderhænur verpt einum 6 eggjum þannig að þau voru nokkuð sátt við eftirtekjuna.
Þessi heiðni siður, að leita að eggjum, eða snæða súkkulaðiegg truflaði hina sannkristnu íbúa Torontoborgar ekki neitt, alla vegna komu engar kvartanir.
Reyndar eru Torontobúar flestir ákaflega umburðarlyndir, enda hér að finna einstaklinga af öllum hugsanlegum (og líklega óhugsanlegum) trúarbrögðum og trúleysingar eru hér víst fjölmennir líka. Þannig hyggur hver að sínu og allir eru þokkalega sáttir.
Sá fjöldi sem fer í kirkju unir hag sínum vel, en lætur sér í réttu rúmi liggja þó að aðir sitji á pöbbnum, eða skemmti sér í heimahúsum. Þannig á það að vera.
Nú sit ég svo fyrir framan tölvuna og bíð eftir því að tímatökurnar fari að hefjast, aðrir fjölskyldumeðlimir eru komnir í rúmið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 19:49
Byltingin byrjar heima fyrir
Þessi niðurstaða óformlegar könnunar á landsfundi Vinstri grænna þarf ekki að koma neinum á óvart. Þó að fordæmingar á "einkabílismanum" séu hvergi háværari en í þeim flokki, þó er þeir sem sækja landsfund flokksins líklega eins og flestir aðrir Íslendingar. Gjarna að flýta sér, þurfa að komast hratt og örugglega á milli staða og þeim verður líklega kalt og blotna jafn auðveldlega og aðrir Íslendingar. Það er nefnilega ekkert sérlega auðvelt eða þægilegt að ferðast á hjóli íklæddur dragt eða jakkafötum, svo dæmi séu tekin, hvort sem verið er með bindi eður ei.
En vissuleg er blessaður strætisvagninn eftir. En enginn af þíngfulltrúunum virðist hafa ferðast með þeim kosti heldur.
En það er auðvitað auðveldara að mæla fram "grænkuna" en lifa eftir henni.
Hvernig hljómar annars texti Spilverksins.... "Setjið nú upp húfurnar, því hún er farin út um þúfurnar. Græna........
En það er auðvitað affarasælast að byltingin byrji heima fyrir, en "einkabílisminn" er sterkur, svo sterkur að hann leggur Vinstri græn að velli sem aðra.
Er ekki bara að bíða eftir ályktun frá þinginu um nauðsyn þess að stórauka gatnaframkvæmdir til að greiða höfuðborgarbúum leið, eða skyldi ennþá verða lögð áhersla á hjólreiðastíga og almenningssamgöngur?
Ég bíð spenntur.
Einn á hjóli hjá VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.2.2007 | 06:49
Einn af síðustu útvörðum sósíalismans
Þegar ég var að þvælast um netið, fór á vefsíðu The Times sem oftar, rakst ég á þessa grein um Ísraelsku samyrkjubúin. Samyrkjubúin sem eru mikið eldri en Ísraelsríki sjálft, hafa verið útverðir bæði sósialismans og Ísraelsríkis. En svo bregðast "krosstré" sem önnur og nú er víst farið að slaka á sósíalismanum, kapítalisminn er kominn á kibbutzin, til að vera.
Þó að sjálfur hafi ég aldrei á kibbutz komið, þá hafa kunningar mínir sumir haft þar viðdvöl, flestir borið þeim góða sögu. En þetta er merkilegur hluti af sögunni, en þarna sem annars staðar lætur sósialisminn undan síga, það virðist óumflýjanlegt. En samyrkjubúin hafa vissulega markað djúp spor í sögu Ísraels, eru samofin sögu ríkisins og munu verða, í það minnsta eitthvað áfram.
Smá bútar úr greininni:
"When Eliezer Gal arrived at Israels first kibbutz he had already served in the Red Army as a platoon tank commander at the siege of Leningrad, escaped to West Berlin after being marked down by Stalin for the labour camps and been turned away by the British when he arrived in Palestine aboard the Jewish refugee ship Exodus.
Mr Gal took a lowly job in the cow shed for 18 years and married Michal, a daughter of the kibbutzs founders, raising his family in the pastoral version of Zionist communism.
Now, aged 82, he is living one final adventure, which he and the other members of Degania call Shinui (The Change). The kibbutz has just voted to privatise itself and assume the trappings of capitalism.
His verdict? Its a lot more comfortable. We get a lot more independence, both economically and generally.
I have seen the other world, I was born in a different world. When I came here it was the real, pure communism. But I knew then that it couldnt survive forever because people abused it.
Im only surprised that it survived for so long. I came from the Great Mother of Communism and she only lasted 70 years. We made it to nearly a hundred. "
"When the poor, new immigrants began arriving, the kibbutzniks became objects of hatred, and when the movement began to collapse there was not much sympathy. But Degania is like a first child: when it became vulnerable like the rest of us we could finally afford to have some sympathy. It is a symbol of a simpler time, of what Israel once was.
Deganias members insist that they are still proud socialists. As silly as it may sound we remain one big family, said Zeev Bar-Gal, Mr Gals 43-year-old son-in-law, whose monthly income has doubled as the kibbutzs computer services manager.
What used to bother many of us was that some members were putting a lot of money into the pot and there were others giving nothing and still receiving more than the big contributors, he said.
Degania was founded in 1910 when ten men and two women rode on horseback across the River Jordan and established a camp at Umm Juni on land purchased by the Jewish National Fund.
The pioneers built a defensive quadrangle of work buildings from locally quarried basalt. At the time they wrote: We came to establish an independent settlement of Hebrew labourers, on national land, a collective settlement with neither exploiters nor exploited a commune.
Its 320 members paid their salaries into a communal account and received an allowance based on need.
A year ago the kibbutz quietly transferred to a trial system where members were paid according to ability and allowed to keep their earnings. In return, they paid for services and a progressive income tax destined to support the elderly and less well-off.
Now The Change has been confirmed as permanent by the votes of 85 per cent of the kibbutz, an improvement on the 66 per cent who gave their consent for the one-year trial.
We have only privatised the service side, not the businesses, explained Mr Bar-Gal. Its more a change of mentality than anything else and it has put social responsibility into peoples heads. "
Greinina má finna í heild sinni hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 06:18
Laukrétt, það er um að gera að æfa
Ég held að það sé einmitt lykilatriði, að æfa gráa flykkið eins mikið og mögulegt er.
Allra handa æfingar koma sér vel, þrautir, krossgátur, ný tungumál. Því meiri sem vangavelturnar eru, því fleiri hugsanir sem þjóta um kollinn, því betra.
Eitt af því sem gera má til að halda sér í þjálfun er svo að blogga, alls ekki það sísta til verksins. Ein meginástæða þess að ég ákvað að reyna að skrifa eitthvað hér á hverjum degi, er einmitt sú, að ég taldi mig þurfa vettvang, þar sem ég notaði Íslensku á hverjum degi. Að ég hefði gott af því að hugsa og skrifa á Íslensku, að halda huganum við, þjálfa hugann, fylgjast með helstu málum "heima" og þar fram eftir götunum.
Það borgar sig ekki að láta heilann safna "spiki", af tvennu illu er betra að vera með smá "kúlu" framan á sér.
Mikilvægir hlutar heilabúsins halda áfram að bæta við sig fram eftir aldri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2007 | 21:56
Íslandskynning
Í gær var hin árlega Íslandskynning Íslendingaklúbbsins hér í Toronto. Þá reynum við eftir fremsta megni að kynna Ísland og ferðamöguleika til Íslands bæði fyrir klúbbmeðlimum og öðrum áhugasömum.
Þar sem konsúlinn sem venjulega ber hitann og þungan af kynningunni er fjarverandi, þá hafði ég tekið að mér að stjórna kynningunni og undirbúa það sem henni hafði ekki tekist á klára.
Þó að við hefðum alveg mátt við meiri aðsókn, það voru ekki nema á milli 40 og 50 manns á kynningunni, þá gekk þetta allt saman bærilega.
Comfortable Hiking Holydays, kynntu sína ferð, fulltrúi frá Sambandi sykursjúkra hér í Canada flutti einnig stuttan fyrirlestur, en sambandið hefur staðið fyrir ferð til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í nokkur undanfarin ár og gerir það sömuleiðis í ár. Loks voru tveir klúbbmeðlimir með stuttar kynningar, annars vegar um Íslenskunám á vegum Stofnunar Sigurðar Nordal og hinsvegar um sjálfskipulagða ferð sem farin hafði verið síðasta sumar.
Þetta var býsna líflegt og spurningar og umræður fjörugar. Það sem virðist stand uppúr þegar upplifanir ferðalanganna eru metnar, eru fyrir utan náttúruna, maturinn og verðlagið.
Verðlagið er endalaus uppspretta vangavelta og undrunar.
Ég spurði flesta sem ég spjallaði við hvort að þeir hefðu eitthvað heyrt um hvalveiðar Íslendinga eða Kárahnjúkavirkjun. Það kom mér ofurlítið á óvart, en þetta hafði ekki verið í umræðunni, og fæstir heyrt nokkuð um þetta talað.
Einn ferðalangurinn hafði reyndar orð á því að hvalkjötið væri ekki gott.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)