Færsluflokkur: Menntun og skóli

Að skilja eða skilja ekki afleiðingar orða sinna, það er spurningin?

Ekki ætla ég að fullyrða hvort að Skúli Helgason hafi sagt það berum orðum að dagforeldrar yrðu óþarfir árið 2023.

En það er ekki erfitt að draga þá ályktun að svo yrði, þegar stjórnmálamenn gefa loforð um að öll börn 12. mánaða og eldri fái dagheimilispláss.

Það er að flestu leyti erfitt að sjá hvaða hlutverk dagforeldrum væri ætlað ef slíkt loforð hefði verið efnt.

Sé haft í huga að niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra eru lægri en hjá dagheimilum, er auðvelt að sjá að dagforeldrar hafi ákveðið að hætta starfsemi.

Líklega er einfaldasta lausnin að niðurgreiðslur fylgi barni, og foreldrar geti áveðið hvernig þeirri fjárhæð sé ráðstafað, geti notað hana hjá dagheimilum, dagforeldrum, verið heima með barnið eða fundið önnur úrræði.

Er það ekki dulítið skrýtið að sveitarfélög geti sparað sér stórar fjárhæðir með því að bjóða upp á færri dagheimilispláss?

En orðum fylgir ábyrgð, ekki síst ef búið er að tvinna þau saman í kosningaloforð.

 

 


mbl.is „Hef ekki sagt neitt í þessa veru“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "húsfólksorlof" tímaskekkja?

Varla geta Íslendingar verið þekktir fyrir að halda úti "húsmæðraorlofi", ef ekki á að leggja það niður hlýtur í það minnsta "húsfólksorlof" að taka yfir.

Þess utan er "orlof" grunsamlega Rússneskt hljómandi. 

Er ekki öruggara að skipta því út?

"Húsfólksfrí" hljómar auðvitað Íslenskara.

Eftir það slíkar breytingar hafa náðst í gegn, er hægt að rökræða um hvort að "húsfólk" eigi rétt á því að ríkið (gott hvorugkynsorð) eigi að greiða hluta af kostnaði við frí þess.

En fyrr varla.


mbl.is Vilja ekki afnema húsmæðraorlof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímur eða ekki grímur?

Það er mikið rifist um alla heimsbggðina hvort það borgi sig að vera með grímu fyrir vitunum eður ei.

Stutta svarið hlýtur að vera að það marg borgar sig.

Ella væri heilbrigðisfólk ekki að hafa fyrir því að nota þær.

En svarið, eins og svo oft áður er mikið flóknara en það.

Líklega er betra en ekkert að hafa eitthvað fyrir vitunum, það er erfitt að sjá að það geti beinlínis skaðað nokkurn.

En það er margt sem er vert að gefa gaum.

Fyrst ber að nefna að grímur eru misjafnar að gæðum N95 eða ekki N95 er stór spurning og svo eru til fleiri flokkar.

En flestar grímur vernda þann sem notar þær ekki mikið lengur en klukkutíma, ef eitthvað af veirum eða bakteríum eru í umhverfinu.

Önnur hætta er ef einstaklingar kunna ekki að setja andlitsgrímur á sig, eða taka þær af sér.

Ef veirur eða bakteríur hafa safnast í grímuna þarf að sýna fyllstu varúð við að taka hana af sér og setja á sig nýja.

Þannig að ef gríman hefur "virkað" þarf að passa sig í umgengni við hana.

Þegar ég fer í búðina er staðan sú nú að líklega eru u.þ.b. 70% af viðskiptavinum með grímu og jafnvel hærra hlutfall af starfsfólki.

Það er augljóst að grímurnar eru misjafnar að gæðum, en margar þeirra eru þó af góðum "medical standard".

Hér hafa grímur enda verið seldar í apótekum og mátti sjá langar biðraðir þegar sendingin var auglýst.

Það var samt augljóst að margir höfðu lítt hirt um að vanda sig við að setja grímuna á sig og aðrir gefist upp, vegna þess að til lengdar getur verið þungt að anda í gegnum grímu, og höfðu grímuna undir nefinu en yfir munninn. Slíkt gerir næsta lítið gagn.

Það getur því vissulega verið falskt öryggi að vera með grímu.

Sjálfur set ég orðið á mig grímu núna, ef ég sé að flestir eru með grímu.  Ég lít eiginlega á það sem nokkurs konar kurteisi og það eru færri hornaugu gefin.  Klagar ekkert upp á mig að nota grímu fyrst ég á þær.

Það getur líka verið varasamt að bæta við fjölda notenda, ef svo má að orði komast, á meðan framboðið er takmarkað.

En ef að tekst að tryggja framboð hef ég trú á því rétt sé til að hvetja til aukinnar grímunotkunar. 

Það getur hjálpað til að auka öryggi þegar einstaklingar byrja að hittast aftur, t.d. til að ná sér í persónulega þjónustu.

En það þyrfti að gera gera stuttar leiðbeiningar hvernig á að nota þær og gefa besta vörn.

 

 

 

 


mbl.is Grímur skylda hjá Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á menntun að tryggja hærri laun, eða glittir í "sovétið"?

Hér og þar hef ég séð umræður um að meta þurfi menntun til launa, að launabil sé of lítið, eða of mikið og svo auðvitað að menntun, eða prófskírteini eigi alls ekki að tryggja eitt né neitt.

Ég sá að Kári Stefánsson lagði í púkkið að réttast væri að borga námsmönnum á meðan þeir væru í námi, þannig útskrifuðust þeir án námslánaskulda og gætu sem best verið á "sömu launum" og aðrir.

Þetta fyrirkomulag var við lýði í Sovétríkjunum sálugu.  Þar fengu námsmenn greidd laun, en oft á tíðum voru þeir með lægri laun eftir útskrift heldur en til dæmis kolanámuverkamenn.

Þetta gerði það að verkum að oft á tíðum var þjónustulund með allra minnsta móti. Því sátu væntanlegir viðakiptavinir eða sjúklingar á biðstofunni með hænu í fanginu, grænmeti, sælgæti, vodkapela eða hvað annað sem þeir gátu séð af til að færa t.d. lækninum um von um betri og skjótari þjónustu.

Enn má víða sjá enduróm af þessari tíð í A-Evrópu, þó sem betur fer hafi hænunum fækkað, en það eru ótrúlega margir sem t.d. fara aldrei tómhentir til tannlæknis.

En svona kerfi getur gengið nokkra hríð í "lokuðu" landi.

En vel menntað fólk sem er eftirspurn eftir víða um lönd, t.d. heilbrigðisstarfsfólk og tölvmenntaðir einstaklingar, var auðvitað á meðal fyrsta fólksins sem yfirgaf landið.

En á menntun á að tryggja hærri laun?  Það er mikilvæg spurning og ekki síður mikilvægt að velta því fyrir sér hvort að hún geri það?

Og hvað með starfsreynslu?

Eins og oft er svarið ekki einhlýtt.

Ákveði einhver að setja á stofn eigin fyrirtæki, tryggir menntun ekki árangur eða laun. Oft getur menntun þó vissulega nýst vel í slíkum kringumstæðum, en ekkert er gefið.

Í einkageiranum er líklegt að góð menntun geti tryggt starfsviðtal og í mörgum tilfellum starf og hærri laun.

En í öðrum tilfellum, sérstaklega til lengri tíma, held ég að menntunin tryggi ekki starfið eða launin, ef árangurinn í starfinu er ekki í samræmi við væntingar vinnuveitandans.

En hjá hinu opinbera er það menntunin sem gildir, þar vilja flestir að "hr. excel" ráði ferðinni, settar eru inn gráðurnar, starfið o.s.frv og neðst á skjalinu birtist svo launaflokkurinn og kaupið.

"Georg Bjarnfreðarson" er því líklega fyrsti kostur í flest störf, enda með "5. háskólagráður" og líklega launaður eftir því.

En nú er mikið rætt um hver launamunurinn eigi að vera hjá "ófaglærðum" og hve mikið á menntun að lyfta á laununum.  Mest hefur verið rætt um leikskóla og hvers virði háskólamenntunin eigi að vera þar.

Persónulega get ég vel skilið að eðlilegt þyki að launamunur sé þar þó nokkur við upphaf starfs, háskólamenntuðu fólki í vil.

En hvers virði er starfsreynslan?

Nú hefur marg komið fram að vegna starfseklu á leikskólum sé það nokkuð þekkt að ófaglært starfsfólk með mikla starfsreynslu sé t.d. deildarstjórar.

Eiga þeir einstakingar ekki skilið sömu laun og aðrir deildarstjórar, burt séð frá menntun? 

Gildir ekki þar sem annarsstaðar að greiða eigi sömu laun fyrir sömu störf?

Eiga leiksskólarekendur að ná sparnaði í launum, vegna þess að þeir geta ekki mannað stöðuna með faglærðu fólki?

Ég ætla að kasta fram einni(þær urðu nú óvart tvær) spurningu til þeirra sem kunna að lesa þessa bloggfærslu.

Aðstæðurnar eru þannig að þu hefur r fjögur ung börn á þínu framfæri, og aðstæður spiluðust þannig að þú þyrftir á einkagæslu að halda.  Þú auglýsir eftir starfskrafti býður þokkaleg laun o.s.frv.

Tveir umsækjendur eru um stöðuna. Annars vegar einstaklingur sem er nýútskrifaður úr háskóla sem leikskólakennari og hins vegar einstaklingur sem hefur rétt rúmlega 15. ára starfsreynslu á leikskóla og kemur með mjög góð meðmæli frá yfirmanni sínum.

Hvorn mundir þú ráða?

Ef þú segir einstaklinginn með 15. ára starfsreynsluna, myndir þú þá bjóða honum lægri laun?

 


PISA blús

Það má eiginlega ganga að því vísu að þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar upphefjist gríðarleg umræða á Íslandi um hvers vegna niðurstöðurnar séu svo slæmar fyrir Ísland og hvers vegna þær færist sífellt neðar á skalanum.

En sú hefur svo gott sem raunin frá því að Ísland byrjaði þátttöku í þessum rannsóknum, leiðin hefur heldur þokast niður á við.

Ég er reyndar sammála því að PISA könnunin sé hvorki upphaf né endir skólastarfs, en það er engin ástæða heldur til að líta fram hjá þeim vísbendingum og samanburði sem könnunin gefur.

Það er ef til vill rétt að taka það fram að ég hef enga reynslu af því að eiga barn í Íslensku skólakerfi, mín eigin reynsla af þvi er áratugagömul og það sem ég veit um Íslenskt skólakerfi er það sem kunningjar mínir hafa sagt mér eða ég lesið.

En ég hef reynslu af því að eiga börn í skólum, bæði í Kanada og Eistlandi. Það eru einmitt löndin sem eru í 5 og 6 sæti í könnuninni, fyrstu lönd utan Asíu.

En hvers vegna standa krakkarnir í þessum löndum sig svona vel?

Við þeirri spurningu er ekki neitt eitt svar.  Ekki eru það kennaralaunin sem skipta öllu máli. Kennarar í Kanada eru reglulega á top 10 yfir best launuðu kennara í heimi, en Eistneskir kennarar eru gjarnan á eða við botninn hvað varðar laun. Laun kennara í Eistlandi ná almennt ekki 200.000 Íslenskum krónum, og eru heldur undir meðal launum í landinu. Luxembourg sem oft hefur verið talið borga kennurum hvað best, er fyrir neðan Ísland hvað varðar PISA árangur.

Það er skrýtin samsetning að í því landi sem nær bestum árangri í Evrópu, eru laun kennara á meðal þeirra lægstu.

En það er rétt að taka eftir því að Íslenskir kennarar eru einnig í hópi þeirra kennara sem hafa hvað lægstu launin.

Í Eistlandi voru börnin mín í bekkjum sem voru yfirleitt með ríflega 30 börn, gjarna 32 eða 33.

Í Kanada hafa bekkirnir yfirleitt verið fámennari, gjarna á bilinu 24 til 27. Einn vetur var drengurinn minn í "samsettum" bekk, sem var þá 2 og 3ji bekkur saman.  Skólinn var ekki stærri en svo að ríflega tvær bekkjardeildir voru í hverjum árgangi og því "afgangnum" skellt saman.  Slíkt fyirkomulag er ekki vinsælt á meðal foreldra, en allt gekk þetta vel.

Í Eistlandi er dagheimilisvist barna mjög útbreidd, en sjaldgæf í Kanada (Ontario).  Í Kanada byrjar hins vegar skólinn við 4ja ára aldur (Kindergarten), sem er þó ekki skylda en er án kostnaðar fyrir foreldra. En það er aðeins 2 og hálfur tími á dag.

Tungumálakennsla (Franska, Kanada er tvityngt land) getur svo hafist við 5 ára aldur, ef foreldrar kjósa svo, en þá fer barnið í "frönsku aðlögun" (French immersion).

Skólaskylda er svo frá 6 ára í Kanada, en ekki fyrr en við 7. ára aldur í Eistlandi.

Heimalærdómur byrjaði strax í 1. bekk í Eistlandi og jókst svo með ári hverju.  Í Kanada byrjar heimalærdómur mun síðar, líklega ekki fyrr en 6. bekk, en strax frá upphafi eru alls kyns "project" í vísindum, landafræði og allra handa sem eru unnin heima (getur lagst þungt á "metnaðargjarn foreldra).

Mikil áhersla er lögð lestur í Eistlandi, jafnt í skóla sem heimavið. Krakkarnir eru látnir lesa sígildar Eistneskar barna og unglingssögur sem og heimsklassík s.s. Astrid Lindgren.

Alltaf fylgir í kjölfarið endursögn (mislangar) á bókinni. Kennarar í Eistlandi eru óhræddir við að gefa út "leslista" fyrir sumarfríið.

Í Kanada er líka mikill lestur, en að mestu leyti bundin við skólann.

Í Eistlandi fá öll börn í grunnskóla frían hádegisverð (ekki endilega "stórkostlegir" réttir, jafnvel bara súpu og brauð, en yfirleitt saðsamir og næringarríkir).  Í Kanada er ekki boðið upp á hádegisverð, heldur koma börnin með nesti að heiman.

Bæði Eistland og Kanada hafa margþætt menntakerfi. Í Eistlandi má t.d. finna bæði skóla sem kenna á Eistnesku og Rússnesku.  Í Kanada (Ontario) eru bæði "hefðbundnir" og kaþólskir grunnskólar reknir af hinu opinbera.  Bæði löndin hafa úrval af einkareknum skólum, margir þeirra, sérstaklega í Kanada eru eingöngu reknir fyrir skólagjöld. En í Eistlandi er einnig margþætt form, og margir skólar velja stóran hluta nemenda sinna, þó þeir fái rekstrarkostnað sinn frá hinu opinbera.

Þannig að fjölbreytileikinn í skólakerfum þessara landa er verulegur. Skólastjórar hafa mikið að segja um hvernig skólarnir eru reknir.

En ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem mér virðist vera öðruvísi í skólum í Kanada og Eistlandi samanborið við hvað ég hef heyrt um Islenska skóla dugir eitt orð:

Agi.

Mér virðist mun meiri agi ríkja í skólum bæði í Eistlandi og Kanada en á Íslandi.

En það fer líka fram mun meiri flokkun á nemendum í þessum löndum en Íslandi, líklega sérstakaklega Eistlandi.

Ekki endilega eftir getu eða einkunnum, heldur einnig eftir hegðun.

Ég man ekki eftir því að hafa heyrt svipað hugtak og skóli án aðgreiningar í Eistlandi eða Kanada.

Það er líklega einn af þáttunum sem gerir stærri bekkjardeildar mögulegar.

En ég vil biðja alla sem lesa þetta að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða neina vísindalega úttekt.

Hér er eingöngu um að ræða mína upplifun af tveimur mismunandi menntakerfum og af afspurn hið þriðja.

En ég held að það sé ljóst að þessi lönd, Kanada og Eistland sem skipa sér svo ofarlega í PISA könnuninni, eru með mjög mismunandi menntakerfi.

Ég held líka að það sé óraunhæft að Ísland geti tekið upp menntakerfi annara landa, hvort sem það er Finnland, Svíþjóð, Kanada eða Eistland.

En líklega þurfa Íslendingar að hyggja að því að bæta sitt menntakerfi og bæta árangur, ekki síst hvað varðar lesskilning.

En ég held að þjóðin þurfi líka að gera upp við sig hvernig menntakerfi hún vill.  Á hvað á að leggja áherslu.

Eiga skólar fyrst og fremst að vera góðir "geymslustaðir" þar sem öllum líður vel, eða á að gera frekari kröfur.

Því það er ekki alltaf átakalaust að "menntast" og getur tekið á. Þar getur verið að það falli ekki öllum að fara áfram á sama hraða, eða á sömu braut.

Líklega er fjölbreytni að mörgu leyti lykilorðið, og það er oft því erfiðara að tryggja það í littlu samfélagi.


Hver er lausnin fyrir Íslendinga í menntamálum?

Það má auðvitað ekki líta á PISA sem hinn endanlega stóra dóm yfir íslensku menntakerfi.

En það má heldur ekki líta fram hjá þeirri einkunn sem það fær. Það er varla til neinn betri samanburður á milli landa.

En burtséð frá því hvernig Ísland kemur út í samanburði við önnur lönd, er niðurstaðan ill ásættanleg og allra síst að þróunin liggur niður á við.

En hvað veldur?

Því er ábyggilega erfitt að svara, og á því sjálfsagt margar mismunandi skoðanir. En ég held að vandamálið verði ekki leyst með því einu að segja að það þurfi meiri fjárveitingar.

Niðurstaðan bendir til þess að eitthvað meira sé að en að lausnin geti verið fjármunir einir saman.

Ég held að Íslendingar hljóti að þurfa að huga að endurskipulagningu kerfisins í heild. Það er í raun undarlegt þegar litið er til þessarar niðurstöðu að gripið hafi verið til þess ráðs að stytta framhaldsskólann, eins og það væri líklegt til að skila betra menntakerfi í heild.

En eitt af því sem mér þykir eftirtektarvert við PISA niðurstöðuna er hvaða Evrópuland kemur í raun best út.  Það er ekki eitt af Norðurlöndunum, það er ekki eitt af "ríku" löndunum í N-Evrópu.

Það er Eistland sem kemur í raun best út þegar dæmið er skoðað í heildina, stærðfræði, náttúruvísindi og lesskilningur.

Til þess að gera fátækt land í A-Evrópu, þar sem þjóðartekjur eru verulega lægri en á Íslandi og landið eyðir líklega lægra hlufalli af þeim í menntun en Íslendingar.

Land sem neyddist til að skera heiftarlega niður í framlögum til menntunar vegna afleiðinga fjármálakreppunnar, vegna þess að Eistland safnar ekki skuldum.

Kennaranám er 5 ár, meðallaun þeirra um 1100 euro (sem er rétt yfir landsmeðaltali), byrjunarlaunin rúmlega 900 euro (sem er undir landsmeðaltali).

Landsmeðaltal fyrir bekkjarstærð er ekki ýkja há, en í borgunun (og sérstaklega í þeim skólum sem oft eru taldir "betri") er ekki óalgengt að yfir 30 nemendur séu í bekk.

Allir nemendur fá ókeypis hádegismat, yfirleitt einfalda rétti.

Einkarekstur þekkist á eistneskum skólum, en þó er líklega um 90% af grunnskólum reknir fyrir framlög hins opinbera.   En skólarnir eru sjálfstæðir, taka mikið af sínum ákvörðunum "innanhúss" og hafa mikið að segja um kennsluaðferðir.

Grunnskólar geta verið bæði "opnir" og "lokaðir", og vísar það til "umdæmis" og hvort þeir taka inn nemendur utan skólasvæðis.  Sumir skólar eru bæði, það er eru til dæmis með 2. "stofur" fyrir sitt umdæmi og svo eina eða tvær "stofur" fyrir nemendur "utan svæðis".  Í flestum tilfellum þurfa þeir nemendur að þreyta inntökupróf.

Þetta fyrirkomulag og sú samkeppni sem byggst hefur upp á milli skóla og á milli nemenda virðist henta Eistlendingum vel og hefur skilað þeim vel áfram í skólamálum.

Það er alls ekki þar með sagt að slíkt kerfi myndi henta á Íslandi.  En mér þykir þó það blasa við að Íslendingar þurfa að fara í uppskurð á sínu kerfi og leita fanga víða.

En skólakerfi er eitt af þeim kerfum sem alls ekki á að umbylta á stuttum tíma.

Það þaf að huga vel að málunum og vanda til verksins.

Til lengri tíma litið ætti það ekki að vefjast fyrir íslenskum nemendum að fara á sama hraða og nemendur annarr ríkja gera.  Útskrifast úr framhaldsskóla 18 ára.

En slíkar breytingar þarf að undirbúa vel.

Í Eistlandi má líklega skipta þeim ferli í þrennt (svo þeir séu einfaldaðir örlítið) 6. ár grunnskóli sem hefst við 7 ára aldur, 3ja ára miðskóli og svo 3ja ára framhaldsskóli.

Skólatími er ekki lengri en á Íslandi. Skóli hefst 1. september og lýkur í kringum 10. júni.

 

 


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frambjóðendur, titlar og menntun

Enn á ný er hafin mikil umræða á Íslandi um menntun og titla einhvers frambjóðanda. Sitt sýnist hverjum eins og vonlegt er.

Auðvitað skiptir meginmáli hvað frambjóðendur segja og gera, frekar en hver menntun þeirra er.  En það verður þó ekki framhjá því litið að auðvitað skiptir máli að frambjóðendur segi sannleikann á þessu sviði, jafnt sem öðrum.

Sé sannleikurinn ekki í hávegum hafður, vekur það efasemdir um trúverðugleika frambjóðendans.

Ég ætla ekki að dæma neitt um sannleiksgildið í þessu öllu saman, í hvoruga áttina, þau orð frambjóðandans að honum þætti skrýtið að verið væri að vekja athygli á þessu stuttu fyrir kosningar fengu mig til að hlægja.

Ég man ekki betur en að menntunarmál og titlar frambjóðanda hafi verið sérstakt áhugamál margra vinstrimanna fyrir síðustu og þar síðustu kosningar.

Slíkt ætti því ekki að þurfa að koma neinum á óvart nú.

 

 


33. sæti, má Finna að því?

Það er fróðlegt að sjá þennan samanburð sem OECD hefur gert á hæfni 15 ára unglinga í stærðfræði og raungreinum (science).

Eins og alltaf með samanburð sem þennan á að taka honum með fyrirvara og aldrei líta á hann sem hinn stóra endanlega sannleik.

En það þýðir heldur ekki að rétt sé að gefa því gaum sem hann gefur til kynna og velta því fyrir sér hvað megi betur fara.

33. sæti í samanburði sem þessum er ekki afleitur dómur, en vissulega gefur það til kynna að margt megi betur fara.

Árangur Íslands í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar, að Finnum undanskildum, er líka ásættanlegur og á margan hátt eðlilegra að Íslendingar velti fyrir sér samanburði við þær, frekar en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin.

Danmörk er í 22. sæti, Noregur í því 25, en Svíar reka lestina í 35 sæti, en Rússland er á milli Íslendinga og Svía.

Það hefur oft verið sagt í mín eyru að Íslendingar hafi sótt mesta fyrirmynd fyrir grunnskóla til Svíþjóðar, en ég get ekki fullyrt hvort að það sé rétt. En sé svo er það vert að taka eftir að Svíar eru eina Norðurlandaþjóðin sem er aftar Íslendingum.

En það sem vekur fyrst og fremst athygli mína, fremur en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin, er árangur Finna.  Og ekki síður ótrúlegur árangur Eistlendinga.

Að Finnland sé í 6. sæti og Eistlendingar í því 7. er ótrúlega góður árangur, hjá þessum nágrönnum og tengdu þjóðum. Vert er að hafa í huga að Eistlendingar hafa sótt mikið til Finna í menntamálum eftir að þeir endurheimtu sjálfstæði sitt, enda þjóðirnar nánar og tungumálin skyld.

Árangur Eistlendinga er líka athyglisverður vegna þess að þeir hafa ekki haft mikla fjármuni til að setja í skólakerfið, og hafa kennnarar þarlendir verið með verst launuðu kennurum í Evrópu, þó að reynt hafi verið að bæta kjör þeirra á undanförnum árum. Enn eru grunnskólakennarar þar þó nokkuð frá því að ná meðallaunum í landinu, eftir því sem ég veit best.

En líklega gætu Íslendingar gert margt vitlausara en að leita að einhverju marki í smiðju Finna í menntamálum, árangur þeirra er virkilega eftirtektarverður.

P.S. BBC birtir 4. af spurningum sem notaðar hafa verið til að mæla kunnáttu 15 ára unglinga. Þeir sem áhuga hafa á því að spreyta sig, finna þær hér.

 


mbl.is Asía skarar fram úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auður innflytjenda

Það hefur mikið verið rætt um málefni innflytjenda undanfarin misseri, reyndar eins og oft áður.

Umræðan er mikil á Íslandi, en líklega enn sterkari víða um heim.

Í mörgum löndum er talað um að draga þurfi úr fjölda þeirra sem flytja til landsins, innviðirnir ráði ekki við innflæðið.

Aðrir tala um að nóg pláss sé til staðar og innflytjendur auðgi mannlífið og styrki efnahaginn.

Engan hef ég þó heyrt tala um að opna land algerlega fyrir innflytjendum, flestir virðast þeirrar skoðunar að einhver takmörk verði að vera. 

Í þeirri umræðu er þó rétt að hafa í huga að á EEA/EES svæðinu eru frjálsir flutningar fólks ein af grunnstoðunum, þó að vissulega séu takmörk fyrir því hvað dvelja má lengi, ef viðkomandi fær ekki atvinnu.

En um þessa óheftur flutninga er einnig deilt.

En í mínum huga er eitt sem er mun mikilvægara en hvað marga innflytjendur land vill hleypa inn, eða taka á móti.

Og það er hvernig tekið er á móti þeim, hvernig við metum þá og hvernig tekst til með aðlögun þeirra að samfélagi og vinnumarkaði landsins.  Og vinnumarkaðurinn er líklega mikilvægasti þáttur samfélagsins og sá sem ræður úrslitum um hvernig aðlögun tekst til hjá innflytjendum.

Og að mínu mati er það hvernig aðlögunin tekst til sem dæmir um hvort að innflytjendastefna viðkomandi ríkis er góð eða slæm, ekki fjöldinn af innflytjendum.

Þess vegna langar mig að vekja athygli á þremur fréttum af Vísi.is, sem á þakkir skyldar fyrir að fjalla um málið frá þessum sjónarhóli.

Kvensjúkdómalæknir í vinnu á leikskóla í átta ár

Eiga oft erfitt með að fá vinnu við hæfi: Dýralæknir í kjötvinnslu

Vongóð um að fá að starfa sem læknir

Setjum svo þessar fréttir í samhengi við t.d. þessa:

Af­lífa dýr vegna dýra­lækna­skorts

 


Ég vil hvorki áróður frá kirkju eða borgaralegum presti á kennslutíma í skólum barnanna minna

Ég sá þessa frétt á vef DV.

Ég hef ekki skoðun á meginefni hennar, en staldraði við þar sem vitnað var í prest þjóðkirkunnar.

 

„Ég er auðvitað hlutdrægur því ég er í hinu liðinu en mér finnst þetta mikilvægt umræðuefni. Ég vil hvorki áróður frá kirkjupresti eða borgaralegum „presti” í kennslutíma í skólum barnanna minna.”

Ég tek heilshugar undir það sem hann segir, en myndi líklega umorða það á þennan veg:

Ég vil ekki áróður frá "prestum", kirkjulegum, borgaralegum eða frá öðrum trúarbrögðum á skólatíma hjá börnunum mínum.

Þar undir myndi að mínu mati falla kirkjuheimsóknir, þar sem prestur heldur tölu, á aðventunni, jafnt sem öðrum tímum ársins.

Það gerir "prestana" ekki óhæfa til kennslu, en þeir verða að gæta sín og virða hlutleysi eins og þeim er frekast unnt.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband