Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fuglaflensa, hvaða fugl er hættulegastur heilsu manna?

Auðvitað er ekki rétt að gera grín að þeirri hættu sem stafar af fuglaflensunni svokölluðu og auðvitað er nauðsynlegt að fylgjast vel með þessari veiru og reyna að finna upp ráð gegn henni.  En á köflum finnst mér að hættan sé ýkt og óþarfa áhyggjum valdið hjá almenningi, með fréttaflutningi í hálfgerðum æsifréttastíl.

Eins og margir hafa bent á, hafa dauðsföll af völdum flensu þessarar ekki verið mörg, og blikna í samanburði við margar aðrar andlátsorsakir.

Ég hló líka nokkuð dátt þegar ég sá kanadískan vísindamann vera spurðan þeirrar spurningar, hvaða fuglategund væri mesta heilbrigðishættan.  Hann svaraði snöggt og ákveðið:  "Djúpsteiktur kjúklingur".


mbl.is Nýtt fuglaflensutilfelli í alifuglum í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snákar í jakkafötum - "sækópatar" á vinnustaðnum

Rakst á nokkuð áhugaverða grein um nýútkomna bók sem fjallar um "sækópata" á vinnustöðum.  Tveir "sálar" að gera úttekt á málinu og hafa saman bók, "Snakes In Suits: When Psychopaths Go To Work".

Ef hlutfall "sækóa" sem þeir telja að sé í Bandaríkjunum og Kanada er fært yfir á Ísland, þá eru um það bil 3000 "sækóar" á landinu, og það sem meira er, flestir þeirra líklega á vinnumarkaðnum.  Segir í greininni að miðað við fjöldan, þá sé líklegt að flest okkar hitti einn af þeim á hverjum degi.

Spurningin hvort að "Spot The Psycho", verði ekki vinsælasti leikurinn á vinnustöðum á næstunni.

En greinina í Macleans má finna hér, kynningu á bókinni hér og hér.

Það er aldrei að vita nema maður eigi eftir að skella sér á þessa bók.


Nauðsyn erfðabreyttra matvæla

Undanfarin ár hefur oft verið rætt um erfðabreytt matvæli.  Umræðan hefur oft verið á þeim nótum að helst má skilja að um eitthvert "Frankenstein fyrirbrigði" sé að ræða, öllu mannkyni standi stór hætta af þessum tilraunum og helst þurfi að stöðva þetta eins og skot.

Ekkert er fjær sanni, að mínu mati.  Þó vissulega sé þörf á því að fylgjast vel með slíkum matvælum og ég sé fyllilega sammála því að neytendur eigi rétt á því að slík matvæli séu merkt, þannig að þeir viti hvað þeir eru að kaupa, eru erfðabreytt matvæli nauðsynleg og af hinu góðu.

Ekki aðeins að erfðabreytt matvæli auki uppskeruna, þau geta einning dregið úr þörf fyrir skordýraeitur og þurkþolin afbrigði geta gjörbreytt afkomumöguleikum margra.

Ég held að það sé því misskilningur að berjast á mótí erfðabreyttum matvælum, hitt er þó eins og ég áður sagði, sjálfsagt að fylgjast með þessari þróun og láta almenning vita hvað hann er að kaupa.

En erfðabreytingar hafa alltaf verið framkvæmdar, þo með öðrum og hægvirkari hætti, og er gulrófan líklega eitthvert besta dæmið um það, sem flestir hafa líklega séð og snætt.

 


mbl.is Nóbelsverðlaunahafi segir að tvöfalda verði matvælaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnsrennireið

Þetta eru vissulega góðar fréttir, og jákvætt framhald af umferðarpistlinum sem ég ritaði hér á undan.  Ef mengun af bílaumferð svo gott sem hverfur, þá er það vissulega stór áfangi sem ber að fagna.  Þetta eru svo ekki síður stórkostlegar fréttir fyrir íslendinga, sem gætu þá keyrt á innlendu eldsneyti.

En þetta er ekki komið á koppinn, en verður vonandi að veruleika eins og þarna er talað um á næstu 10 árum eða svo, hvað það tekur svo langan tíma fyrir vetnisbíla að verða ráðandi er svo erfiðara að spá um, ef ekki kemur til önnur og betri tækni.

 En þetta eru eins og áður sagði góðar fréttir, og vonandi að starf Íslenskar NýOrku og samstarfsaðila þeirra eigi eftir að skila íslendingum framarlega í nýtingu vetnis.

 


mbl.is General Motors ætlar að framleiða vetnisbíla eftir nokkur ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arnarhreiðrið - raunveruleikasjónvarp

Arnarhreiðrið

Ég frétti af þessari vefmyndavél (sjá tengil hér að neðan) núna í gær, taldi rétt að deila henni með sem flestum.  Þarna má sjá á stundum svo góða og skýra mynd af frá bakgarði á Hornby Island, Bresku Kolumbíu, að undrum sætir.

En vissulega er það ekki bakgarðurinn sem hefur þetta aðdráttarafl, heldur ernir sem hafa byggt sér hreiður þar.  Þetta er víst annað árið í röð sem þeir verpa þarna og nú hefur tekist að varpa þessu beint á netið.  Lítill  arnarungi átti að hafa komið  í heiminn á föstudaginn var, aldrei tókst mér að sjá hann, enda er nú er búið að bera það til baka.  Líklegast þykir því að varpið hafi misfarist.

Þetta er stórkostleg sjón, en rétt er þó að vara þá við sem hyggjast fylgjast með arnarparinu, að aðsóknin á síðuna er slík, að erfitt getur verið að ná sambandi við myndavélina.  Talið er að um og yfir 100 milljónir heimsókna hafi verið á síðuna á undanförnum mánuði eða svo, þannig að þó að aðstoð frá Microsoft og fleiri stórfyrirtækjum hafi komið til, er síðan gjarna við það að fara á hliðina.

Hér að neðan er tengill á síðuna, annar á frétt Globe and Mail um arnarhreiðrið og sá þriðji og fjórði frá CTV.

P.S. Núna hefur mér reynst ómögulegt að ná sambandi við síðuna í nokkurn tíma, en það borgar sig að reyna.

 http://www.infotecbusinesssystems.com/wildlife/

http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/RTGAM.20060429.weagle0430/BNStory/Science/home

http://www.ctv.ca/servlet/ArticleNews/story/CTVNews/20060428/eagle_eggs060428/20060428?hub=TopStories

http://www.ctv.ca/servlet/ArticleNews/story/CTVNews/20060430/overdue_eggs060430/20060501?hub=SciTech


Blessaður sandurinn sem gerir okkur ríka

Sá í sjónvarpinu, nánar tiltekið á CBC,  í gærkveldi nokkuð góða heimildamynd um olíusandinn sem liggur undir stórum hluta af Albertafylki hér í Kanada.

Þetta er ekkert smá magn af sandi, og ekkert smá magn af olíu. Stærðargráðan er líka með ólíkindum.  Það þarf u.þ.b. 2. tonn af olíusandi, til að búa til 1 tunnu af olíu, og það er verið að tala um að fljótlega nái framleiðslan 1. milljón tunna á dag, jafnvel talað um 5 milljónir tunna á dag í framtíðinni.

Það er talið að 1.75 trilljón ( 1,750,000,000,000) tunnur af olíu séu þarna í jörðu, sumir segja allt að 2.5 trilljónir,  þannig að það er ljóst að það er nokkuð mikið af sandi sem þarf að færa til.  Þetta eru meiri olíubirgðir en nokkur önnur þjóð er talin búa yfir, ef Saudi arabar eru undanskildir.

Þessi olíusandur er mun dýrari í vinnslu, en hefðbundnari olíulindir, og var það ekki fyrr en með hækkandi olíuverði, að þessi auðlind varð virkilega álitleg.  Þetta hefur nú þegar fært Kanada og Alberta fylki ótrúlegar tekjur, uppbyggingin í Alberta er gríðarleg og fyrir ekki löngu síðan sendi fylkisstjórn Alberta íbúum fylkisins, 400 dollara ávísun, svona til að létta aðeins pyngjuna.

En þetta er auðvitað ekki eintóm sæla.  Gríðarlegt jarðrask fylgir þessum framkvæmdum, þeir sem lesa þetta geta dundað sér við að reikna út magnið af sandi sem þarf að færa til miðað við tölurnar hér að ofan.  Reynt hefur verið að ganga eins vel frá og hægt er, en manngerð náttúra er aldrei alveg eins og sú sem fyrir var.  Einnig hefur verið nokkur gagnrýni á þá staðreynd að gas er notað í miklum mæli við vinnsluna, og segja sumir að "hreinni" orkugjafi, sé þannig notaður til að framleiða "óhreinni".  Einnig er gríðarlegt magn af vatni sem er notað við vinnsluna og óttast sumir að það hafi slæm áhrif á vatnsbúskapinn á svæðinu til lengri tíma.

En tæknin við þessa vinnslu er ennþá í þróun, og alltaf er leitað leiða til að gera þessa vinnslu ódýrari og hagkvæmari.  Það er hins vegar ljóst að þegar ástand mála er eins og um þessar mundir verður þessi olía æ mikilvægari, bæði fyrir Kanada og ekki síður veröldina alla.  Enda má oft lesa fréttir um hvernig bæði Bandaríkin og Kína séu að reyna að tryggja aðgang sinn að olíusöndunum.

Áform eru uppi um að byggja leiðslur frá Alberta til vesturstrandarinnar til að þjóna Kína, og stærstur partur af framleiðslunni fer nú þegar til Bandaríkjanna.  Reyndar skilst mér að Kanada sé nú þegar stærsti einstaki birgi Bandaríkjannna hvað varðar olíu, en eitthvað um 17% af þeirri olíu sem Bandaríkjamenn nota kemur frá Kanada.

Set inn hér að neðan nokkra tengla fyrir þá sem vilja lesa meira um þessa auðlind.

http://www.energy.gov.ab.ca/89.asp

http://en.wikipedia.org/wiki/Athabasca_Oil_Sands

http://www.cbc.ca/news/background/oil/alberta_oilsands.html


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband