Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Er gott fyrir vín að eldast í geimnum?

Vín batnar með aldrinum, því eldri sem ég verð því betra finnst mér það. En að öllu gamni slepptu þá hefur lengi verið leitað að leið til að "elda" vín við ýmsar aðstæður.

Það er áríðandi að vínið eldist við bestu aðstæður og auðvitað æskilegt að það sé drukkið sem næst toppi gæða þess (þar geta verið skiptar skoðanir).

En nú á víst að fara að bjóða upp eina af vínflöskunum frá Petrus, sem voru sendar út í geiminn, til Alþjóðlega Geimstöðvarinnar og geymdar þar í þyngdarleysi í kringum ár.

Margir sérfræðingar segja að það sé enginn vafi á því að gæðin hafi aukist umtalsvert við geimdvölina og búist er við að flaskan seljist fyrir metfé, jafnvel allt að milljón dollurum.

Með í kaupunum fylgir samskonar flaska (Petrus 2000 árgangur)sem aldrei hefur ferið í geimferð, alveg ókeypis, þannig að væntanlegur kaupandi mun geta borið gæði vínsins fyrir og eftir geimferð, fari svo að flöskurnar verði opnaðar.  Reyndar mun "jarðbundna" flaskan kosta allt að 10.000, dollara, þannig að ef "lífsreynda" flaskan selst á milljón, má líta á það sem 1% afslátt.

Hér er svo grein frá Decanter, sem segir frá smökkun á annarri "geimferðarflösku" og þar er talað um að hún sé 2 til þremur árum á undan "á þróunarbrautinni".

Það er reyndar ekkert minnst á kolefnissporið, sem kom mér nokkuð á óvart.

En svo fór ég að velta því fyrir mér hvernig þetta hljómar á Íslenskunni.  Myndi ég segja að verið sé að bjóða upp "geimelt" vín?

 

 

 


Vatnsdeigsbollur í fyrsta sinn

Hjá mér hefur það fylgt því að búa erlendis, að þegar löngun í "Íslenskan" mat vaknar þá hef ég þurft að lára að gera eitt og annað sjálfur.

Þannig lærði ég að búa til graflax, ég sýslaði við skyrgerð fyrir mörgum árum, sem betur fer þarf ég þess ekki lengur, enda margar tegundir af skyri í flestum verslunum núorðið.

Ég hef sömuleiðis soðið bæði rauðrófur og -kál fyrir flest jól, soðið baunasúpu og svo að sjálfsögðu bakað bollur.

VatnsdeigsbollurÞað er eiginlega með eindæmum að bakarar víða um heim hafi ekki uppgötvað hvað mikill fengur væri að bolludeginum fyrir þá.

Venjuleg hef ég bakað venjulegar gerbollur og fyllt þær rjóma og húða með súkkulaði.

En nú rakst ég á góða uppskrift á Vísi og tók bollubaksturinn á næsta stig og bjó til vatnsdeigsbollur.

Það tókst svona ljómandi vel, uppskriftin virðist algerlega "ídíótaheld" þó að ef til vill megi deila um hvað vel tókst til með lögunina.

Það gleymist þó þegar rjómi, sulta og súkkulaði er bætt við.

P.S. Svo ég nöldri nú yfir einhverju, þá verð ég eiginlega að benda á að það jaðrar við "upplýsingafölsun" að kalla þetta vatnsdeigsbollur, eiginlega ættu þær að heita smjörbollur.

En það hljómar vissulega heilsumsamlegar að segjast hafa fengið sér 3. vatnsdeigsbollur en að hafa sporðrennt þremur smjörbollum.

 

 

 


Næstum því eins og í "gamla daga"

Nú er runninn upp föstudagurinn langi.  Ekki veit ég af hverju hann er langur á Íslandi (og Norðurlöndunum)en góður hjá Enskumælandi fólki. Það verða einhverjir aðrir að útskýra.

Hér í Eistlandi er þessi föstudagur stór (suur), en það er ekki langt frá merkingunni langur.

En í minni fjölskyldu hefur oft verið grínast með mismunandi merkingar orða í þeim tungumálum sem við notum.

Þannig hef ég oft sagt krökkunum mínum að í minni barnæsku hafi þessi dagur svo sannarlega verið súr (sami framburður og suur).

Ég var einmitt að hugleiða það yfir kaffibollanum nú í morgunsárið að líklega væri þetta þetta það næsta því sem yngri kynslóðir kæmust að upplifa föstudaginn langa eins eldri kynslóðir gerðu.

Það var fátt í boði.  Allt var lokað. Engar matvöruverslanir (hvað þá aðrar verslanir), bensínsstöðvar, veitingastaðir, eða aðrir samkomustaðir máttu vera opnir.

Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu (1. rás af hvoru) bar að því virtist lagaleg skylda til þess að senda út leiðinlega dagskrá sem "enginn" nennti að horfa á.

Teiknimyndir á föstudaginn langa hefði líkega verið talið guðlast. Popptónlist í útvarpinu sömuleiðis.

En að vísu máttum við fara út og það jafnvel í hópum.  Að því leyti var staðan jákvæðari en hún er í dag. Engin krakki eða unglingur hafði síma, þannig að truflun og "heimkall" var mun erfiðara.

En það var ekkert internet, Netflix var ekki einu sinni orðið að hugmynd, hvað þá YouTube, Spotify og allt þetta.

Um páskadag giltu sömu reglur, en þá var meira súkkulaði í boði, sem gerði hann bærilegri.

Á skírdag máttu skemmtistaðir vera opnir til miðnættis, en það mátti ekki dansa. Eftirlitsmaður frá ríkinu kom og sá um að ekkert slíkt ætti sér stað. 

Skilaboðin frá ríkinu:  Eitthvað af brennivíni er í lagi, svo lengi sem ekki er dansað. Bjór mátti auðvitað engum selja, hvorki þann dag né aðra fyrr en 1989.

Seint á 9unda áratugnum var svo stigið stórt skref í frjálsræðisátt þegar skemmtistöðum var leyft að opna á miðnætti eftir föstudaginn langa og páskadag.  Þó fór það eitthvað eftir sýslumönnum, því þeir gáfu út skemmtanaleyfin.

Um miðjan 9unda áratuginn var útvarpsrekstur gefinn frjáls og Bylgjan og Stöð2 hófu útsendingar.

Svo var slakað á hvað varðaði verslanir, veitingastaði o.s.frv. Hægt og rólega færðist samfélagið áfram veginn.

En það gerðist ekki með því að enginn talað fyrir frelsinu, eða berðist gegn stjórnlyndinu.

Frumvörp um frjálst útvarp og að Íslendingar gætu drukkið bjór voru marg sinnis lögð fram á Alþingi.  En stjórnlyndisöflin höfðu alltaf sigur framan af.

Sjaldan eða aldrei þótti "rétti tíminn" til að taka upp "slík mál".

Nú er svo komið að Íslendingar geta látið "guðlast" rata af vörum sínum. Þeir geta gefið út blöð og framleitt sjónvarpsþætti, þar sem gert er grín að "almættinu", jafnvel sýnt þá á páskum, án þess að eiga það á hættu að ríkiskirkjan kæri þá til lögreglu.

En það er ennþá fjölmargar breytingar sem er þess virði að tala um, berjast fyrir og leggja fram frumvörp um.

Það er ef til vill kjörið tækifæri fyrir foreldra að nota daginn í dag til þess að útskýra fyrir yngri kynslóðum að þrátt fyrir að samkomubann og samgöngulausa hvatningu, þá lifum við góða tíma og velmegun og frjálslyndi eykst jafnt og þétt, þó að stundum hlaupi snuðra á þráðinn.

Ég óska öllum nær og fjær góðs dags og hann verði ekki of "langur".


I got a Harley for my husband

Ég var að þvælast í umferðnni í gær.  Keyrði þar rólega á eftir býsna stórum jeppa, enda hámkarkshraðinn aðeins 50.  Lenti síðan á rauðu ljósi og fór að lesa límmiða sem voru nokkrir á afturrúðinni.

Meðal annars þessi frá Harley Davidson mótorhjálaframleiðandanum.

"I Got A Harley For My Husband - Best Trade I have ever made.


Gleðileg jól

Ég hef skrifað hér áður um hvað mér finnst jól vera skemmtileg hátíð og ekki síður gott orð.

Jólin geta verið allra, allra þeirra sem vilja það er að segja. Þetta forna heiðna indoevrópska orð, sem enginn veit fyrir víst hvað þýðir en er samt sem áður svo hátíðlegt.

Sumir vilja meina að það sé skylt orðinu hjól og lýsi einfaldlega árinu sem nokkurs konar "hjóli", aðrir segja að jól þýði einfaldlega hátíð.

Það er enda gamall og gegn siður að fagna sólstöðum og því að daginn fari að lengja.

Ég reikna með að flestum þyki það fagnaðarefni.

En að sjálfsögðu hafa jólin mismunandi merkingu hjá mismunandi hópum, en flestir tengja þau líklega við góðar minningar, oft frá bernskunni og samveru fjölskyldunnar.

Góðar matur, góðar gjafir, góður félagsskapur.

Það eru jólin.

Kalkúninn, býður eftir því að fara í ofninn, trönuberin eru að sjóða, sætar kartöflur í potti og skvaldur heyrist frá fjölskyldunni.

Það eru jólin.

Ég óska öllum, bæði nær og fjær gleðilegra jóla.

 

 


Þvingaðar nafngiftir?

Ég vil byrja á því að segja að ég er mikill aðdáandi íslenskrar nafnahefðar og því að börn séu kennd við föður sinn eða móður.

Þess vegna eru bæði börnin mín Tómasarbörn og hafa að auki góð og gild klassísk nöfn.

Mér þykir föðurnafnahefðin það góð, að þó að okkur (mér og konunni minni) hefði verið nokkuð í sjálfvald sett hvernig við ákváðum að haga málum.

Þó hefur drengurinn minn eitt,eða tvö nöfn sem má draga í efa að hlotið hefðu samþykki mannanafnanefndar og dóttir mín hefur fjögur eiginnöfn, þar af eitt sem líklega hefði ekki hlotið samþykki.

Þar sem bæði börnin eru fædd utan Íslands, voru nafngiftir ekkert vandamál, einfaldlega var hakað í þar til gerða kassa að börnin bæru ekki sama "eftirnafn" og foreldrarnir.

Sömuleiðis hvarflaði aldrei að okkur hjónum að konan mín yrði "Gunnarsson", í eyrum okkar beggja hljómaði það hjákátlega.

Allt þetta var sjálfsagt vegna þess að við bjuggum ekki á Íslandi, heldur í landi þar sem litið er á nafngiftir og "fjölskyldunöfn" sem ákvarðanir viðkomandi fjölskyldu.

Og þannig tel ég að það eigi að vera.

Jafn mikill aðdáandi hins "íslenska kerfis" og ég er, hef ég engan áhuga á því að neyða aðra til þess að fylgja því.

Þó að ég sé áfram um varðveislu þess hef ég engan áhuga á því að neyða því upp á aðra, ekki einu sinni börnin mín. Vilji þau í fyllingu tímans taka upp "eftirnöfn", eða nefna börn sín einhverri endaleysu, þá mun ég líklega reyna að telja þeim hughvarf, ef einhver lífskraftur verður í mér, en ég geri mér grein fyrir því að þeirra er valið og þannig á það að vera, hvort sem þau munu búa á Íslandi eða annars staðar.

Það væri mikil eftirsjá af íslensku nafnahefðinni, ef hún myndi leggjast af.  Sömuleiðis er það leiðinlegt að heyra um afkáraleg nöfn.

En ef íslendingar vilja almennt ekki fylgja hefðinni, þá verður sú niðurstaðan. En það er lang eðilegast að að sú ákvörðun verði tekin af einstaklingum og foreldrum.

Það er engin ástæða til að neyða nafngiftum upp á einn né neinn.

Það er að mínu mati einn af þeim "stöðum" sem ríkisvaldið á ekkert erindi.

Þess vegna er hið nýja frumvarp mikil framför.

 

 


mbl.is Efins um nýtt mannanafnafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýsa var það heillin

Í gærkveldi borðaði ég Íslenskan fisk eftir nærri tveggja ára hlé.  Það var ótrúlega ljúfengt.

Stinn og góð ýsa og bragðgæðin engu lík.

Börnin skríktu af kátínu, enda ólíkt hvað þau eru hrifnari af fiski en faðir þeirra var á sama aldri.  Það hefur líklega eitthvað að gera með tilbreytni og tíðni.

Það spillti ekki kátínunni, að Íslenska orðið ýsa, er framborið nákvæmlega eins og Eistneska orðið isa, sem þýðir pabbi.

Það gaf færi á mörgum orðaleikjum og bröndurum. 


Fyrirhafnarlítil jól

Jólin eru einstaklega þægilegur atburður.  Það má líklega segja um jólin eins og ýmislegt annað, að ef þau væru ekki til, væri nauðsynlegt að finna þau upp.

Það er einfaldlega stórkostlegt að nota þessa daga í miðju skammdeginu, til að slappa af og njóta samveru með fjölskyldunni.  Njóta ylsins innivið, þegar kalt er úti og leyfa sér að borða af mikið, bæði af mat og sætindum.

Best af öllu er að hafa ekki of mikið fyrir jólunum, leyfa þeim að streyma áfram og njóta augnablikanna.

Bækur og bíómyndir eru einnig órjúfanlegur hluti af jólunum.

Um leið og ég óska þess að allir, bæði nær og fjær hafi átt góð jól, ítreka ég þá skoðun mína um hve lukkulegir Íslendingar (og Norðulöndin) eru að halda jól, en hafa ekki breytt nafninu í Kristsmessu (Christmas) eing og tíðkast víða um lönd.

Jólin eru nefnilega allra.

Læt hér fylgja með nokkrar myndir sem ég tók stuttu fyrir jól.  Ef áhugi er fyrir er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær stærri (með því að smella á myndirnar, er farið yfir á flickr síðu mína).

 

Swans in the Baltic Sea

 

 

A Lonely Swan in the Sea

 

 

Swans in the Fog, in Black and White

 

 

Skerry, in Black and White

 

 

Tuule Pier in Black and white

 

 

Cold to the Thorns

 

 


Merkilegur og góður dagur

Ég hef lengi álitið 21. desember merkisdag.  Ekki vegna þess að ég hafi spáð fyrir heimsendi, eða að ég telji að meiri hætta sé slíkum ósköpum á þessum degi en öðrum.

En vetrarsólhvörf er merkisatburður, á hverju ári.

Þessi stutti dagur, og að vita af því að dagsbirtan verði örlítið lengri á hverjum degi, alveg þangað til í júní, er þægileg tilhugsun.

Þennan dag gerum ég og fjölskyldan okkur alltaf dagamun í mat, í ár var góð og safarík rifjasteik á borðinu, með dísætu heimalöguðu rauðkáli, rauðrófum og kartöflum.

Sveinbjörn Beinteinsson kvað fyrir okkur Eddu af einum af mínum uppáhalds geisladisk, sem er annar fastur liður á þessum merkisdegi.  Eldurinn logar í arninum og örlítið rautt glitrar í glasinu.

Spurning hvort að ekki þurfi að blóta "Hákoni" þegar líður á kvöldið.

Vonandi sjáum við sólina á morgun.

 


Annir og þvælingur

Ég hef haft mikið að gera undanfarnar vikur, með þeim afleiðingum að ekkert hefur verið skrifað hér.  Lenti auk þess á þvælingi, átti nokkra frábæra daga á Íslandi og nú er ég kominn til Eistlands.  Þar mun ég að öllum líkindum dvelja langdvölum.

Eitthvað verður bloggið því stoppult á næstunni, en best er að sjá til hvað tjáningarþörfin verður sterk.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband