Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Er eitthvað óeðlilegt við eignaskiptinguna? Er réttu máli hallað?

Það hefur mikið verið rætt um skiptingu auðs á milli jarðarbúa og ranglæti því tengdu og sýnist sitt hverjum eins og í mörgum öðrum málum.

Þessi umræða hefur að sjálfsögðu einnig farið fram á Íslandi og þar er bent á að misskipting þar sé sú minnsta sem finna má innan OECD, en jafnframt er þar langt til nógu vel að verki staðið að mati annara.

Heyra hefur mátt stór orð um misskiptingu eigna hér og þar í fjölmiðlum í þeirri kosningabaráttu sem nú stendur yfir.

En hver er eðlileg eignaskipting?  Um það verður sjálfsagt seint samkomulag og verður án efa rökrætt (ef ekki rifist) um það um ókomna tíð.

En í þeirri frétt sem hér er tengt við kemur fram að 10% Íslendinga eigi 62% eigna umfram skuldir.

Er það óeðlilegt?

Þar eru án efa skiptar skoðanir, en það þarf að hafa í huga hvernig samsetning þjóðfélagsins er og hvernig hefðir og straumar eru.

Hvað er til dæmis eðlilegt að 65 ára einstaklingur (nú eða hjón) eigi meiri eignir en þeir sem eru 30 ára?

Þegar þeirri spurning er velt fyrir sér verður að taka með í reikninginn þá sterku tilhneygingju á Íslandi að taka 40 ára jafngreiðslulán. Þó að slík lán séu með eindæmum óhagstæð, eru þau afar vinsæl. Það fyrirkomulag gerir það að verkum að eignamyndun verður afar hæg framan af greiðslutímanum, en eykst svo all verulega.

Burtséð frá þessu er ekki óeðlilegt að eignir einstaklinga og hjóna aukist með aldrinum, það segir sig eiginlega sjálft.

Þar kemur t.d. til uppsafnaður sparnaður og svo arfur, sem oftast kemur á seinni hluta ævinnar. Ennfremur er það svo að þó að tvær fjölskyldur hafi sömu tekjur, verður eignasöfnun mismunundi.

Enn það kemur fram í greininni og reyndar mun sú vera raunin víðast um heiminn, að eignamisskiptingin er að aukast, og finnst mörgum það verulega afleit þróun.

Við því er hins vegar lítið að gera. Þegar háttar eins og nú gerist víða um lönd, og Ísland ekki undanskilið, og miklar "eignabólur geysa, geta hlutirnir í raun ekki farið á annan veg. Eignir rjúka upp í verði, og að það segir sig sjálft að það eru þeir sem eiga þær (skuldlausar eða skuldlitlar) sem hagnast.  Þó kemur það vissulega þeim eignaminni til góða, en ekki í sama mæli.

En hins vegar er að svo að stóraukið verðmæti fasteigna kemur eigendum þeirra að takmörkuðum notum, nema ef þeir selja þær.

Þannnig aukast lífsgæði þeirra sem búa í eigin eign í Reykjavík, sem hefur hefur hækkað um t.d. 90% á síðustu 6 - 7 árum, ekki neitt ef þeir búa í eigninni.  Það má raunar jafnvel halda því fram að þeim hafi hrakað, því hafi laun þeirra ekki hækkað í samræmi við fasteignagjöldin, bera þeir skarðan hlut frá borði, og athugið að þau leggjast á óháð eignarhlutfalli.

Það er ekki síst álögur eins og þessar sem bitna hart á millistéttinni, sem leggur hart að sér við að eignast eitthvað og sérstaklega hart á t.d ellilífeyrisþegum sem hafa takmarkaðar tekjur.

Þetta er reyndar nokkuð sem er að gerast í flestum stærri borgum hins Vestræna heims. Ísland er langt í frá sér á parti í þessum efnum.

En eignafólk víðs vegast um heiminn hefur átt góð ár upp á síðkasti. Enda hafa eignabólur verið blásnar upp víða.

En það er ekki síst aðgerðir opinberra og hálf opinberra aðila sem hafa blásið í eignabólurnar og þannig fært eignafólki síaukin auð, í það minnsta á pappírunum. Ríkisstjórnir og seðlabankar hafa talið það sína helstu skyldu að vernda hlutabréfamarkaði frá falli, bönkum frá hruni o.sv.frv. Seðlabanki Eurosvæðisins kaupir t.d. skuldabréf stórfyrirtækja, keyrir niður vexti á þeim, sem aftur tryggir góðan hagnað og góðar arðgreiðslur.

Vextir hafa verið keyrðir niður úr öllu valdi, jafnvel niður í hreina neikvæðni.  Það hefur hins vegar orðið til þess að fasteigna- og hlutabréfamarkaðir hafa hækkað, oft meira en raunhæft gæti talist.

Þess hefur ekki gætt á Íslandi, en þó má nefna fjárfestingarleið Seðlabankans sem vissulega hyglaði þeim sem áttu eignir erlendis og vildu flytja þær heim.  Það er ólíklegt að það hafi verið eignasnautt fólk sem var í þeim hópi.

Svo má rökræða um hvort að það hafi komið þjóðarbúinu í heild til góða, en það vissulega fjölgaði "aurum" þar sem þeir voru fyrir.

Það þarf að ræða þessi mál í hreinskilni og það er ekkert óeðlilegt við að ólíkar skoðanir séu um hvernig æskileg eignaskipting sé.

En þeir sem tala hátt um að ástandið sé óásættanlegt, verða að útskýra hvað hlutföll í eignaskiptingu þeir telji æskileg og hvaða aðgerðir þeir vilja nota til þess að ná því.

Að öðrum kosti er varla hægt að líta á málflutning þeirra sem nokkuð annað en lýðskrum.

P.S. Ef ég hef reiknað rétt, er hrein eign hverrar fjölskyldu sem er í efstu 10%, u.þ.b. 105 milljónir.  Er það mikið meira en þokkalegt einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu?

 


mbl.is 10% eiga 2.100 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur "allsherjar" hleypir engum öðrum að

Persónulega finnst mér kosningabaráttan vera orðin full PC, eða "politically correct". Stjórnmálamenn hanga á orðfæri og óvarkárni í orðavali andstæðinganna og gera eins mikið og mögulegt er úr því.

Afsökunarbeiðnir í kosningabaráttunni eru þegar orðnar fleiri en tölu verður á kastað og einn formaður hefur þegar lotið í mold.

Líklega má segja að að þetta sé leiðinleg en rökrétt þróun, því þeir sem einu sinni hafa fundið svipuhögg hins "pólítíska rétttrúnaðar" á baki sínu, láta slíkt varla fram hjá sér fara, ef tækifæri gefst til að beina slíku til andstæðinga.

En nú er Steingrímur búinn að biðjast afsökunar, nokkuð sem ekki hefur að ég man áður sést í Íslenskri pólítík, og hefur Steingrímur þó líklega áður haft ríkari ástæðu til þess að biðjast afsökunar, bæði á orðbragði og ekki síður þegar hann hefur gerst "full líkamlegur" í þingsal.

En einn kunningi minn sem býr í NorðAusturkjördæmi, létt sér fátt um finnast þó að Steingrímur hefði tekið vitleysislega til orða, við slíku þyrfti almenningur að búast við hjá stjórnmálamönnum.

En hann vildi meina að annað vekti athygli almennings í kjördæminu.  Það væri sú staðreynd að Steingrímur hleypti engum öðrum að í baráttunni að heitið gæti.

Þannig hefði það verið á fundum sem væru ætlaðir ungu fólki, s.s. í Mennta- og Háskólanum á Akureyri.  Þar hefðu margir aðrir flokkar teflt fram yngra fólki, en ekki Vinstri grænir.

Þar eins og á aðra fundi mætti Steingrímur, hleypti engum öðrum að og væri frekar önugur í bragði.

Vildi þessi kunningi minn meina að það sýndi að Steingrímur ætlaði alls ekki að losa um tök sín á flokknum, hann vildi sýna að hann væri enn "flokkseigandinn".

"Líklega endar hann sem fjármálaráðherra, ef fylgi Vinstri grænna heldur þeim hæðum það sem það er í nú", endaði kunningi minn á að segja.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn „fatlaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær eru margar tilviljanirnar, eða hvað?

Oft hafa menn að orði að þeir trúi ekki á tilviljanir, ég er einn þeim.

En það þurfti engar innherjaupplýsingar eða misnotkun á trúnaði til þess að ákveða að innleysa eignir sínar í verðbréfasjóðum á Íslandi í byrjun október 2008.  Í raun má segja að það væri skrýtið ef einstaklingar hafi ekki gert það, eða í það minnsta hugleitt slíkt.

Ríkið tók yfir Glitni þann 29. september, þannig að það þurfti ekkert sérstakt innsæi eða spádómsgáfu, hvað þá innherjaupplýsingar, til að sjá að það hrikti verulega í Íslenska bankakerfinu, fyrsti bankinn var fallinn, og N.B. ekki annar af þeim sem var einkavæddur 2003.

Það er því að sjálfsögðu ekki tilviljun að menn voru að innleysa eignir í hlutabréfasjóðum á þessum dögum.

Það var heilbrigð skynsemi.

En svo er líka heilbrigt að velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að þessar "merku" upplýsingar skjóti allt í einu upp kollinum nú að segja má nákvæmlega 9 árum síðar?

Ég veit ekki hvaða "skjalfestingar" búa að baki en það er ótrúlegt að það sé tilviljun að þær séu á "boðstólum" nú.

Eða hafa "fjölmiðlar" ef til vill legið á þeim þangað til rétta stundin rann upp?

Það er vissulega stundum rétt að velta því fyrir sér hvort að fjölmiðlar bregði sér í hlutverk "geranda" frekar en sögumanns.

Það hefur gerst þörf æ oftar upp á síðkastið.

 

 


mbl.is Ekkert sem bendir til lögbrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð niðurstaða - en hvað með Lúxembourg?

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindunni í þessu máli.  Það er staðreynd að mörg fyrirtæki hafa nýtt sér "skattaskjól" sem finnast innan Evrópusambandsins til að draga verulega úr skattgreiðslum sínum í öðrum löndum "Sambandsins" og raunar víðar.

En það er næsta víst að þessum úrskurði verður áfrýjað.

Þetta er að sjálfsögðu í rökréttu framhaldi af því að um er að ræða "einn markað".

En það er ekkert rökrétt við að einstaka ríki geri sérstaka samninga við einstök ríki, í raun með þeim eina tilgangi að fá fyrirtækin til að greiða skatta í ákveðnu lögsagnarumdæmi, frekar en öðru.

Ef hins vegar um almenna skattlagningu er að ræða er ekkert út á það að setja.

Þau ríki sem hafa gengið harðast fram í slíkum samningum eru Luxembourg og Írland. En það má víða finna "holur" í skattkerfum "Sambandsríkja" sem nýtast fyrirtækjum í einstökum greinum eða aðstæðum vel.

En það vekur athygli í þessu máli rétt eins og mörgum öðrum af svipuðum toga, að það er engu líkara en litið sé á fyrirtæki sem eina sökudólginn í málinu.

En hvað með Lúxembourg, er engin ástæða til þess að gera landinu refsingu fyrir að brjóta svona freklega (og í raun ítrekað) af sér hvað varðar ríkisstuðning/skattaafslætti?

Eða myndi sú refsing falla "too close to home" svo slett sé Enskunni?  En altalað er að Jean Claude Juncker, fyrrum forsætisráðherra Lúxembourg og núverandi forseti (framvæmdastjórnar) Evrópusambandsins sé einn aðalhöfundur skattastefnu "Lúx" hvað varðar samninga við einstök fyrirtæki.

En auðvitað er auðveldara að skella háum sektum á "Amríska auðhringi", en "heimamenn".  Þó er það vitað að mörg Evrópsk fyrirtæki notið svipað fyrirkomulag.

Þannig gerist þetta oft í pólítíkinni.

 


mbl.is Endurgreiði 31 milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundrar Evrópusambandið aðildarríkjum sínum? Sambandsríki sambandsríkja?

Það er dapurlegt að lesa fréttir frá Spáni. Eins og oft er hafa báðir aðilar eitthvað til síns máls, en mín samúð og stuðningur liggur þó hjá "sjálfstæðissinnum" í þessu máli.

Ímyndum okkur að Danska þingið hefði á einhverjum tíma samþykkt stjórnarskrá sem kvæði á um að Ísland, Grænland og Færeyjar væru órjúfanlegur hluti Danska ríkisins, ekkert gæti breytt því.

Hefðu þjóðir þessara landa tekið því með þögninni?  Myndi sú þögn ríkja enn?

Það á einfaldlega að vera eðlileg réttindi þjóða og héraða (eða annarra vel skilgreindra og afmarkaðra landsvæða) að íbúar greiði atkvæði um hugsanlegt sjálfstæði.

Hvort að mikil fjölgun smáríkja sé æskileg þróun er svo allt annað mál, og sjálfsagt um það skiptar skoðanir. 

Það sama má líklega segja um Íslensk stjórnmál, en það þýðir ekki að við bönnum nýja flokka.

En það má velta því fyrir sér hvers vegna svo margar óskir og vangaveltur eru um sjálfstæði ríkja, landsvæða eða landshluta í Evrópu nú um stundir.

Ég held að það sé ekki hvað síst vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á Evrópusambandinu á undanförnum árum og þeim breytingum sem margir tala og sjá fyrir á komandi árum.

Evrópusambandið sýnir nú þegar sum einkenni sambandsríkis og margir sjá fyrir sér að það muni aðeins aukast á komandi árum.

Það verður til þess að mörgum finnst stjórnkerfið vera orðið í mörgum lögum.

Þannig má segja um Katalóníu að hún sé hluti af sambandsríki (Spánn er í raun sambandsríki).  Það sambandsríki er svo aðili að öðru sambandsríki (eða þangað liggur stefnan).

Það þarf því engum að undra að mörgum finnist það rökrétt að Katalónía eigi beina og milliliðalausa aðild að Evrópusambandinu. 

Sama gildir um Skota og svo aftur ríkin í Belgíska ríkjasambandinu.

Stjórnkerfið er einfaldlega orðið með of mörg lög og of umsvifamikið.

Líklega mun þessi þróun halda áfram samfara því að æ meiri völd færast til "Brussel".

Það er hins vegar vonandi að sátt náist í þessu máli

Eins og staðan er nú er nauðsynlegt að atkvæðagreiðsla fari fram í Katalóníu, á friðsaman og lýðræðislegan máta.

Því miður hygg ég að Spænska ríkisstjórnin hafi stórskaðað málstað sinn í þeirri kosningu með framgöngu sinni nú.

Evrópusambandið gengur einnig með laskað orðspor frá helginni og mátti líklega síst við því að vera einn einu sinni hinm megin "girðingar" við lýðræði.

 


mbl.is Lítil gagnrýni leiðtoga Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katalóníubúar eru öflug þjóð, innan eða utan Spánar

Margir velta því fyrir sér hvers vegna svo stór hluti Katalóníubúa vilji kljúfa sig frá Spáni. Það er auðvitað engin leið að svara því í stuttu máli, en vissulega spila hlutir eins og tungumál og menning þar sínar rullur.

En ég leyfi mér að efast um að sjálfstæðið væri svo heillandi, ef ekki kæmi til frekar sterk efnahagsleg staða Katalóníu.

Katalónía er u.þ.b. 6% af landsvæði Spánar, íbúar Katalóníu eru u.þ.b. 16% af íbúum Spánar, þeir eru ábyrgir fyrir rétt rúmlega 20% af landsframleiðslu og ca. 25% af útflutningi landsins. Þeir greiða rétt tæplega 21% af þeim sköttum sem greiddir eru á Spáni.

Fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum er mikil í Katalóníu og er hún talin ríflega helmingur af allri slíkri fjárfestingu á Spáni.

Ríflega 23% af þeim ferðamönnum sem koma til Spánar koma til Katalóníu.

Það er því ljóst að efnahagslega hefur Katalónía ágæta stöðu og hlutfallslega betri en aðrir hlutar Spánar.

P.S. Þess má svo til gamans geta að u.þ.b. 30% af verðlaunahöfum Spánar á síðustu Olympuleikum komu frá Katalóníu og það sama má segja um 26% af leikmönnum Spænska landsliðsins í knattspyrnu í síðustu Evrópukeppni.

 


Skammt stórra högga á milli

Það er með líflegra móti í Íslenskum stjórnmálum þessi misserin, skammt stórra högga á milli og ekki ólíklegt að ýmsum þyki full líflegt.

Flokkarnir á kjörseðlinum verða líklega í það minnsta 10 flokkar, og ekki ólíklegt að þeir verði 12 til 13, alla vegna í sumum kjördæmum.

Það er því erfitt að spá fyrir um úrslit komandi kosninga og má segja að spennan sé að mörgu leyti þríþætt.

Það er að segja hverjir verða stærstir (og hvor verður stærri Sjálfstæðisflokkur eða Vinstri græn), hverjir komast yfir 10% og hverjir ná ekki manni inn á þing.

Það má jafnvel segja að það sé að nokkru marki spennandi að sjá hverjir af flokkunum ná að skila inn fullgildum framboðslistum, ekki síst ef litið er til allra kjördæma.

En það er engin leið að segja annað að Íslensk stjórnmál séu sundruð, eða splundruð. Ef til vill er ekki síst spennandi að sjá hvort að það verði fleiri en tveir flokkar sem ná yfir 10% kjörfylgi.

Það er ekki gefið að það verði nema Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sem ná yfir þann "þröskuld" (og án efa ríflega það), þó mér þyki líklegt að það verði 3 til 4 flokkar.

En mér þykir því miður líklegt að skoðanakannanir eigi eftir að spila stærri rullu fyrir þessar kosningar en nokkru sinni fyrr.

Því fleiri flokkar sem eru í framboði, því meiri líkur eru á því að flokkar eigi eftir að vera "á nippinu" með það að koma mönnum á þing, eða vera undir því marki.

Því líklegra er að kjósendur sem hefur hugnast viðkomandi flokkur íhugi eða ákveði að kjósa annan flokk til að "kasta ekki atkvæði sínu á glæ".

Nú þegar bendir margt til þess að bæði Viðreisn og Björt framtíð eigi eftir að lenda í þessari "gildru" og hugsanlega fleiri flokkar.

Bæði getur það þýtt atkvæðamissi og svo hitt að stemmning deyr, sjálfboðaliðar láta ekki sjá sig og öll baráttan verður erfiðari.

Hvort að nokkur eftirsjá er svo af þessum flokkum af þingi er allt önnur saga, en það er rétt að velta fyrir sér áhrifum skoðanakannana.

Klofningur Framsóknarflokksins á eftir að hafa mikil áhrif, en það er ekki auðvelt að segja um hver þau verða.  Vissulega er mikill fjöldi á leið úr flokknum, en á móti er einhver hópur á leið "heim" vegna klofningsins.

Einn kunningi minn vildi meina að þeir Framsóknarmenn sem ekki vildu styðja Sigmund Davíð í síðustu kosningum hefðu bjargað Samfylkingunni frá því að falla af þingi, með því að tryggja þeim kjördæmakjörinn mann í N-A.  Sel það ekki dýrara en ég keypti, enda engin leið að fullyrða um slíkt.

En það má fullyrða að ef kjósendur fara að velta fyrir sér hvar engin hætta sé á því að atkvæði þeirra verði "ónýt", þá verði það fyrst og frems Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur sem hagnist á slíkum þankagangi.  Þó án efa fyrst og fremst Vinstri græn, enda Sjálfstæðiflokkurinn einn á hægri væng Íslenskra stjórnmála, þó að deila megi um hvað langt hann nær þar.

En það má fullyrða að baráttan verður hörð, enda líklegt að stutt verði á milli feigs og ófeigs í þessum kosningum.

Hvernig þeim sem hafa svo lagt sig fram um að "ata hvern annan auri", gengur svo að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum, er nokkuð sem vert er að velta fyrir sér.

Þar gefur reynslan eftir síðustu kosningar ekki tilefni til bjartsýni.

 

 

 

 

 


mbl.is Baráttan um botnsætin spennandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin fyrirsögn

Mér varð eiginlega um og ó þegar ég sá þessa fyrirsögn.  "Vélarvana flugvél úti fyrir Grænlandi."

En sem betur fer er fyrirsögnin aðeins enn eitt dæmi um hve illa fréttir eru skrifaðar nú til dags.

Einn af fjórum hreyflum vélarinnar eyðilagðist, sem mætti útleggja sem svo að ein af fjórum vélum flugvélarinnar hafi skemmst eða eyðilagst og vélin misst 25% af því afli sem knýr hana áfram, 1/4 af vélum sínum.

Sem betur fer er það langt í frá að það geri flugvélina "vélarvana", þó að vissulega sé um alvarlegt atvik að ræða.

En sem betur fer fór allt vel, enda á fyrirsögnin og sú fullyrðing að farþegaþotan hafi orðið vélarvana ekki við nein rök að styðjast.

Enn ein fréttin sem virðist benda til þess að til staðar sé takmarkaður skilningur á því sem skrifað er um og takmörkuð þekking á Íslensku máli.

Það þarf gera betur.

 


mbl.is Farþegaþota varð vélarvana úti fyrir Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband