Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Spakmæli

Spakmælið er að þessu sinni fengið af blogsíðu hér á Moggablogginu, nánar tiltekið af blogsíðu JAX.  Mér finnst þessi setning skemmtilega hnitmiðuð og þó að segja megi að hún sé ekki algild frekar en nokkuð annað, felst í henni mikill sannleikur.

Ég verð í það minnsta kosti að segja að mér þykir þetta vel orðað.

"... fólk hættir ekki hjá fyrirtækjum, það fer frá yfirmönnum!"


Trú og þing

Mikið er ég sammála þeim sem hafa verið að skrifa um að það eigi ekki að hefja þing með messu.  Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að skilja eigi á milli ríkis og kirkju.  Einn liður í því væri að sjálfsögðu að fella niður þessa tengingu kirkjunnar og Alþingis.

Auðvitað væri alþingismönnum eftir sem áður frjálst að biðja kirkjuna að blessa störf sín, en það myndu þeir þá gera "prívat og persónulega", en messa væri ekki formlegur þáttur við setningu Alþingis.

Alþingi ætti ekki að hampa einum trúarbrögðum öðrum frekar, enda líta alþingismenn vonandi svo á að þeir hafi hagsmuni allra Íslendinga að leiðarljósi, burtséð frá því hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast eða séu trúlausir.

Ég get tekið undir með þeim sem segja þetta tímaskekkju.

Síðan er auðvitað löngu tímabært að skipta um Íslenska þjóðsönginn, enda hann illa fallinn til að höfða til allrar þjóðarinnar.


Tvær niðri, ein uppi

Þá er Jóhanna búin að ná niður þriðju tönninni og það er eins og við manninn mælt, að það þarf ekki fleiri til að barnið fari að gnísta tönnum.  Um leið og birtist tönn í efrigómnum upphófust þessi skerandi hljóð svo að á stundum rennur nærstöddum kalt vatn á milli skins og hörunds. 

En þessu er gjarna fylgt eftir með brosi, þannig að hlutskiptið er ekki alslæmt.

Annars hefur lífið að Bjórá verið ósköp ljúft og tíðindalítið á undanfarna daga.  Þó var farið og keypt málning í dag og býður bóndans það að reyna að mála á meðan amma barnanna er hér til að hafa ofan af fyrir ómegðinni.  Vonir standa til að hersingin geti verið sem mest í garðinum á meðan á sullinu stendur.

En veðurblíða mikið hefur verið hér að undanförnu, jafnvel svo að fólki hefur þótt nóg um.  En sem betur fer hefur rignt nokkuð reglulega þannig að loftið hefur hreinsast og væntanlegur matarforði dafnað í beðum sínum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband