2.5.2006 | 18:14
Elskan, við erum að drepa börnin
Ég hef nú ekki verið einn af aðdáendum "raunveruleikasjónvarps", og er ekki enn, hef helst reynt að sneiða hjá slíkum þáttum, ekki haft gaman af því að horfa á fólk éta eitthvert ógeð, taka þátt í misgáfulegum þrautum, lifa eins og Robinson Krúsó, eða keppa um hylli hins kynsins.
En í gær þegar ég var eitthvað að "flippa" á fjarstýringunni, datt ég inn á "raunveruleikaþátt" sem fékk mig til að stoppa og fylgjast með. Þátturinn heitir því frumlega nafni "Honey We´re Killing the Kids", sem ég þýddi eins og sjá má í fyrirsögninni.
Þessi þáttur byggðist á því að fimm manna fjölskylda fékk næringarfræðing í heimsókn, fylgst var með því hvað börnin á heimilinu borðuðu og útfrá því var svo gerð tölvuspá um hvernig þau myndu eldast frá núverandi aldri (4, 7 og 10 ef ég man rétt) og til fertugs. Þessar myndir voru ótrúlega sláandi. Síðan var gerð áætlun til 3 vikna um breytt mataræði og aðrar lífstílsbreytingar.
Það var allt að því óhugnalegt að sjá hvernig mataræðið var, og þegar sýnt var hvað borðað var af sykri á hverjum degi. Ekki síður sláandi var að sjá hvernig börnin grétu þegar sjónvarpið var tekið úr herbergjum þeirra, til að minnka sjónvarpsgláp.
Þátturinn endaði síðan með að sýnd var ný tölvuspá um hvernig börnin þróuðust með aldrinum, ef haldið væri við nýja lífsstílinn. Sláandi breyting, og talið að lífslíkur þeirra hefðu lengst um fleiri ár. Líklega er þessum þáttum leikstýrt, í það minnsta að hluta, en það breytir því ekki að það sem ég sá í þættinum í gær, virðist ekki vera svo frábrugðið því sem ég sé hér á götunum á hverjum degi.
Ég fór svo í morgun og googlaði þetta og fann heimasíðu þáttarins og sá að BBC hefur einnig verið með þáttaröð með sama heiti.
Heimasíður þeirra má finna hér og hér
Ég hef ekki hugmynd um hvor sjónvarpsstöðin er upprunalegur hugmyndasmiður þessara þátta, en það skiptir ekki meginmáli, þetta er hins vegar þarft framtak og gott mál að fá fólk til að velta þessu fyrir sér.
Það er ekki laust við að ég hafi litið örlítið skömmustulega á vömbina á mér, og hugsað um að ég yrði að taka mig á, og passa sömuleiðis vel upp á börnin mín.
Væri ekki þörf fyrir sambærilega þætti á Íslandi?
Meginflokkur: Sjónvarp | Aukaflokkar: Bloggar, Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.