5.10.2009 | 23:36
... en síðan eru liðin mörg ár.
Ég fór í gær á samkomu hjá "Ljósmyndasögufélagi Kanada" (Photographic Historical Society of Canada). Þetta var býsna fróðlegt, mikið af alls kyns söluaðilum að bjóða söguna til sölu, bæði myndir og myndavélar og allt mögulegt og ómögulegt þeim tengt.
Það var hreint með ólíkindum hvað það var mikið af dóti, allt frá gömlum útrunnum framköllurum (þar sem dósirnar töldust safngripir)´ Hasselblad myndavélum sem litu út eins og þar hefðu aldrei verið notaðar, gamlar belgmiklar myndavélar og myndir frá hinum aðskiljanlegustu tímabilum.
Leicur sem voru mismunandi snjáðar þóttu hvað merkilegastar af djásnum þeim sem þarna var boðið upp á, en það mátti fá myndavélar frá 5 dollurum og upp í nokkur þúsund. Einn söluaðili vildi reyndar endilega gefa mér gamalt og lúið flass, sem ég nennti þó ekki að draga með mér heim.
Á milli borða gekk fólk á öllum aldri, handlék dýrgripi og prúttaði um verð, með misjöfnum árangri.
Sjálfur gekk ég um og skoðaði, ætlaði ekki að kaupa nokkurn hlut. En ég stóðst ekki mátið þegar ég sá Olympus OM10, sem leit út sem ný. Með henni var 50mm, 1.8 Zuiko linsa. Keypti hana á 30 dollara. Fann svo í öðrum bás ónotaða Olympus tösku fyrir hana á 5 dollara og "hálsband" á dollar. Býsna vel af sér vikið. Nú þarf ég eingöng að finna manual adapterinn á vélina til þess að vera eins græjaður og ég var þegar ljósmyndaáhuginn byrjaði fyrir alltof mörgum árum.
En það var vissulega gaman að handleika OM10 aftur. Með henni komu margar minningar. Líklega þarf ég að fara út í búð og athuga hvort þeir eigi ekki enn þá Tri-X.
Meginflokkur: Ljósmyndun | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 6.10.2009 kl. 02:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.