29.12.2006 | 15:49
Er þá áróður af hinu illa eða hinn eðlilegasti hlutur?
Mér er farið að þykja það nokkuð skondið hvað gjöf Alcan á mynddiski "Bó Halldórs" hefur vakið mikinn úlfaþyt.
Að sjálfsögðu vill Alcan minna á sig og sinn málstað þegar fyrir dyrum stendur atkvæðagreiðsla um stækkun álversins. Að sjálfsögðu munu þeir reka áróður fyrir því að Hafnfirðingar samþykki stækkunina. Vissulega má líta á (og það geri ég) þessa gjöf sem hluta af þeim áróðri. En er sá áróður eitthvað óeðlilegur?
Er áróður Alcan á einhvern hátt óeðlilegri en áróður "Sólar í Straumi" á móti álversstækkuninni?
Auðvitað vill Alcan stækka, auðvitað eiga þeir ríkra hagsmuna að gæta, auðvitað vill Alcan láta Hafnfirðinga vita að þeir hafa verið í Straumsvík í 40 ár, hafa verið til góðs fyrir Hafnarfjörð og vonast til að vera það áfram.
Það er jafn eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir og að einhverjir vilji skila gjöfinni, mér finnst það vel til fundið hjá þeim 25 aðilum sem þarna skila disknum til Alcan. Það er auðvitað líka áróður, en alveg jafn sjálfsagður og áróður Alcan.
Við öll, en auðvitað sérstaklega Hafnfirðingar, eigum ábyggilega eftir að sjá og heyra mikinn og mismunandi áróður fram að því að kosið verður um stækkun álversins, frá báðum hliðum.
Það er vel. Það er æskilegt að sem flestir heyri, frá sem flestum sem hafa skoðanir á þessu máli.
Skiluðu gjöfinni frá Alcan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Athugasemdir
Það er sérlega óeðlilegt að Alcan, sem vill reka mál sitt á málefnalegum forsendum, gefi íbúum bæjarins gjafir og kosti ýmislegt, stuttu áður en kosið er, vegna þess að gjafir og þessi fjármögnun er áróður, en áróður í þessu formi getur vart talist málefnalegur. Alcan er því komið í ákveðna mótsögn við sig sjálft; Alcan vill hafa umræðuna málefnalega, byggða á rökum, en rekur sjálft ómálefnalegan (órökrænan) áróður á sama tíma.
Guðmundur D. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 17:03
Auðvitað hafa menn skiptar skoðanir á hlutunum, það er eðlilegt. Sjálfur hef ég ekki séð umræddan pakka frá Alcan, eða hvað fylgdi honum, ef það var eitthvað. En mér finnst þetta sjálfum alls ekki óðeðlilegt, og hef miklu meiri trú á Hafnfirðingum og kjósendum yfirleitt, en að ég haldi að mynddiskur breyti skoðunum þeirra.
Líklega fær þó gjöfin marga til að hugsa um málið frekar en ella og það er til góðs. Það er nefnilega líka hætta við kosningu eins og þá sem er fyrirhuguð í Hafnarfirði að þátttaka verði slök og sýni því alls ekki skoðanir bæjarbúa, heldur aðeins þeirra sem virkilega hafa "heitar" skoðanir á málinu.
Það færi því vel á að kjósa um álversstækkunina um leið og greitt verður atkvæði til Alþingis.
G. Tómas Gunnarsson, 29.12.2006 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.