Af McDonaldsbloggi

Ég sá þegar ég las yfir blog Davíðs Loga að einhverjum þyki "Moggabloggið" ekki "góður pappír" og segja það McDonalds bloggsins.

Ekki ætla ég að fara að rífast mikið um hve merkilegur hinn eða þessi staðurinn er til að blogga á, eða hversu merkilegur hinn eða þessi bloggarinn er. 

En hitt vil ég nefna, að mér þykir þessi samlíking ómakleg og raunar að mestu leyti út í hött.

Persónulega finnst mér þó frekar verðskulda nafnbótina "McDonaldsblogg", sem byggja alfarið á alþjóðlegum kerfum (rétt eins og McDonalds) og gera lítinn eða engan greinarmun á mismunandi tungumálum.  Þar er t.d. ekki boðið að setja inn "athugasemdir", heldur eingöngu "comments", þar eru ekki "eldri færslur" heldur "archives" og þar fram eftir götunum.  Rétt eins og á McDonalds þar sem flest er staðlað og umbúðirnar segja ekkert um í hvaða landi viðskiptavinurinn er staddur.

Það sem mér finnst mest heillandi við "Moggabloggið" er að þegar ég sá það fyrst (vinur minn sendi mér línu og sagði mér að hann væri byrjaður að blogga) var allt á Íslensku.  Þetta var allt saman rammíslenskt og Íslenskt hugvit nýtt til að útbúa Íslenskan blogheim, eða samfélag.

Ég ákvað að byrja að blogga, vegna þess að mér fannst mér vanta stað þar sem ég hugsaði og tjáði mig á Íslensku, en ég var farinn að finna fyrir því að þó að ég hefði ekki búið verulega lengi erlendis, þá ryðgaði Íslenskan furðu fljótt og ég var ekki með nýjustu orð og hugtök á takteinunum og sletturnar jukust.

Mér fannst það líka hið besta mál, að hér væru samankomnir bloggarar hvaðanæva að, en flestir blogguðu á Íslensku og hér væri hægt að lesa hugsanir, áhyggjur og slúður hins venjulega Íslenska "kverúlants", eða "bloggspekings", allt eftir hvernig litið er á málin.

Ef "Moggabloggið" er sekt, þá er það fyrst og fremst af því að hafa gert bloggið aðgengilegt fyrir almenning, á Íslensku, með lágmarksfyrirhöfn fyrir hvern og einn.  Vissulega hugnast ekki öllum auglýsingar, en hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.

En fyrir marga, sérstaklega fyrir þá sem að tölvukunnáttan er ekki mikil hjá, nú eða enskukunnáttan hvað varðar tölvumál, er þetta framtak mikils virði.

En þetta minnir mig dulítið á hvað það verður "ófínt" að hlusta á hljómsveitir loksins þegar þær verða vinsælar fyrir alvöru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband