21.7.2009 | 20:26
Af hverju borga Bretar ekki skuldir sínar?
Miklar umræður hafa verið undanfarið um hvernig ríki rækja skuldbindingar sínar og afleiðingar þess ef þau gera það ekki.
Reyndar er einnig og líklega öllu harðar deilt um hverjar skuldbindingar Íslands séu, því mér virðist fáir vera á móti því að staðið sé við þær. Margir vilja hins vegar fá úr því skorið, helst fyrir dómstólum hverjar skuldbindingarnar séu.
Það hefur einnig verið dregin upp afar dökk mynd af því hvað gerast muni ef Íslendingar gangi ekki að öllum skilmálum Breta og Hollendinga, rétt eins og samninganefndin undir forystu félaga Svavars virðist hafa gert.
En hvað gerist ef ríki viðurkenna ekki skuldbindingar sem önnur ríki telja þau bera, eða hreinlega neita að greiða skuldbindingar sínar?
Við því er auðvitað ekkert eitt svar og mestu skiptir auðvitað hvernig aðrar þjóðir ákveða að taka slíku, því það er ekki nein forskrift til, sem segir hvernig ríkjum beri að haga sér við slíkar kringumstæður.
Til dæmis ákváðu Bretar árið 1932 að hætta að greiða af skuldum sem þeir höfðu stofnað til við Bandaríkjamenn á árum fyrri heimstyrjaldarinnar. Þeir ákváðu einfaldlega að þeir hefðu ekki efni á því. Og þeir hafa ekki greitt enn. Hafa ekki sýnt neina tilburði í þá átt, þó að efnahagsaðstæður þeirri hafi batnað.
Þeim fannst einfaldlega að Bandarískir skattgreiðendur gætu vel axlað þessar byrðar fyrir þá.
Bandaríkjamenn voru eðlilega frekar fúlir yfir þessari ákvörðun Breta, en aðhöfðust ekki frekar. Þeir voru þó ýmsir Bandaríkjamegin sem höfðu ekki gleymt þessu, þegar Bretar komu aftur með hattinn í hendinni, þegar skollið hafði á önnur heimstyrjöld. Ýmsir vilja meina að þetta hafi átt þátt í því hve Bandaríkjamenn drógu lappirnir hvað varðaði aðstoð við Breta á fyrstu árum seinni heimstyrjaldar.
Þessi skuld er talin vera í dag á bilinu 40 til 80 milljarðar dollara.
Það er rétt að taka það fram að Bretar töpuðu líka gríðarlegum upphæðum, þegar önnur ríki hættu að greiða þeim skuldir sínar frá sömu styrjöld og Bandaríkin áttu ennfremur stórar fjárhæðir hjá öðrum þjóðum. Sagt er að Finnar séu eina þjóðin sem stóð sig við að greiða upp sínar skuldir.
En Bandaríkjamenn gáfu Bretum (eða öðrum þjóðum) aldrei upp skuldirnar, þær einfaldlega hættu að borga.
Hver urðu eftirmálin fyrir Breta? Í raun engin, vissulega eins og fram kom hér að ofan var dulítill hundur í ýmsum Bandaríkjamönnum þegar Bretar komu aftur með betlistafinn í upphafi seinni heimstyrjaldar, en samskipti ríkjanna voru þó alls ekki óvinveitt á árunum sem liðu og flestir þekkja líklega hve rausnarlega Bandaríkjamenn aðstoðu Breta í stríðinu.
Eina ástæðan fyrir því að Bretar hættu að borga, var að þeir töldu sig ekki hafa efni á því. Að sjálfsögðu lék enginn vafi á skuldbindingum þeirra, þeir höfðu sjálfir tekið þessi lán.
P.S. Ég heyrði fyrst minnst á þessar skuldir Breta í bók sem ég er að lesa um þessar mundir. Reyndi að finna meira um þetta á netinu, með litlum árangri, en fann þó þessar þrjár síður þar sem minnst er á þetta lítillega.
http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/magazine/4757181.stm
http://www.post-gazette.com/pg/07008/752058-192.stm
http://wiki.answers.com/Q/Is_Britain_still_paying_off_loans_from_World_War_2
P.S.S. Til að slá þessu upp í smá grín, væri auðvitað rétt að senda félaga Svavar til Obama og freista þess að kaupa þessar skuldir af Bandaríkjamönnum, á t.d. 2 til 5%. Við færum síðan að rukka Breta af hörku.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt 22.7.2009 kl. 13:14 | Facebook
Athugasemdir
KVEDJA Í SVEITINA
Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 20:32
Nú veit ég ekki um skuld úr fyrra stríði, en þeir greiddu sína síðustu afborgun vegna skuldar úr seinna stríðinu í árslok 2006.
Kristinn Kristinsson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 22:18
Þetta er alvöru grín. En ég held að það sé ekki vænlegt að senda Svavar hann er talinn gamall kommi.
En það væri sjálfsagt að láta það berast að Íslendingar væru tilbúnir að hlúa að þessu mála og taka það upp í sendiráðinu.
Síðan væri hægt að útvega þeim 3-5 góða unga lögfræðinga sem hefðu það að aðalstarfi að innheimta þessar skuldir og kæmi hluti af innheimtukostnaðinum til ríkisins til að borga Icesave.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.7.2009 kl. 22:18
Það er alveg rétt hjá þér Kristinn og það kemur fram í fréttunum sem linkað er á í lok greinarinnar, en tvær þeirra voru einmitt birtar um það leyti sem Bretar voru að borga síðustu afborgunina af lánunum frá seinna stríðinu.
En það voru margir Bretar verulega fúlir yfir því að Bandaríkjamenn vildu ekki gefa þeim þær skuldir eftir, m.a. Keynes sem ritaði um það mál.
En það kemur fram í greinunum að Bretar hafi aldrei gert neitt í því að borga upp fyrra stríðs skuldir sínar, eftir að þeir hættu að borga í kringum ´32.
G. Tómas Gunnarsson, 21.7.2009 kl. 22:21
Afar athyglisvert og skemmtilegt að lesa
Guðni Þór Björnsson, 22.7.2009 kl. 00:59
Ekki alveg viss Kristinn en held að þetta sé rangt hjá þér ég er eiginlega 95 % viss um að þú ert að meina Þjóðverja en þeir kláruðu að greiða skuld sína um það leiti held að Bretar séu ekki eins skilvísir
Jón Aðalsteinn Jónsson, 22.7.2009 kl. 13:33
Glæsileg og vel unnið hjá þér Tómas!
Eggert (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 18:35
Af hverju þessa ofboðslegu leit að réttlætingu á því að sleppa við að borga? Því hefur verið ítrekað haldið fram að íslenska ríkið geti staðið við greiðslurnar, og ekki hef ég séð neitt nema óstaðfestar fullyrðingar um eitthvað annað.
Andstaðan við þessa samninga er fyrst og fremst pólitísk andstaða, og hatur á Bretum, það sér hver maður sem ekki er blindaður af pólitík.
Af hverju að segja í öðru orðinu að auðvitað eigi að borga skuldir sínar, en leita í hinu í ofboði að réttlætingu til að stinga af frá skuldunum? Eru ESB-andstæðingar kannski farnir að eygja þarna leið til að koma í veg fyrir aðild?
Kristján G. Arngrímsson, 22.7.2009 kl. 19:08
Kristján, þú ert eins og svo margir aðrir að leita að einhverri réttlætingu til að friðþægja Breta og Hollendinga.
Deilan snýst ekki um hvort eigi að borga skuldir eður ei. Heldur hvort að um sé að ræða skuld.
Bar og ber Íslenska ríkið ábyrgð á öllum rekstri Íslenskra banka erlendis? Nei, auðvitað ekki? Ber Íslenska ríkið bakábyrgð á Tryggingarsjóði innistæðna (eða hvað þessi sjóður heitir)?
Það er vafamál og vissulega væri ekki verra að fá úr því skorið fyrir dómstólum, hvort að sú sé raunin.
Þetta eru ekki skuldir Íslenska ríkisins, spurningin er hvort að þetta séu skuldbindingar sem falli á Íslenska ríkið, en um það eru uppi mismunandi lagatúlkanir.
Hafi IceSave afhjúpað eitthvað, er það hve illa hugsuð og slælega úr garði gerð lagasetning "Sambansins" var um starfsemi fjármálastofnana. Bara það eitt að hugsanlegt hafi verið að 20 bankar störfðu hlið við hlið í London og lytu eftirliti 20 mismunandi fjármálaeftirlita, segir líkleg flest sem segja þarf.
Hitt er svo annað álitamál hvort að Íslendingar geti staðið undir þessum greiðslum, og eigi í raun ekki annan kost en að segja sig frá þeim.
Það var einmitt það sem Bretar gerðu árið 1932.
En þessum pistli var einfaldlega ætlað að benda á að það sé ekker einsdæmi að ríki borgi ekki skuldir sem þau telja sig ofviða, eða of íþyngjandi. Ennfremur að eftirköstin af því séu hreint ekki alltaf skelfileg, þó að vissulega séu ríki misjafnlega fljót að fyrirgefa.
Komi greiðslufall í veg fyrir að Íslendingar geti gengið í "Sambandið", sé ég það hreinlega ekki sem hræðileg örlög.
G. Tómas Gunnarsson, 22.7.2009 kl. 20:59
Já Tommi minn, við skulum skella skuldinni á Sambandið illa. The Devil Made Us Do It, eins og sagt er.
Það er löngu orðið ljóst, að öll erlend ríki eru á því að þetta séu skuldir okkar. Það er að segja, skuldir sem íslenska ríkið, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, leyfði útrásarvitleysingunum að stofna til. Við verðum að borga þær og rukka síðan þá sem bjuggu til Icesave. Björgólfsfeðga og Sigurjón digra og fleiri. Þannig verður málið að ganga fyrir sig. Af hverju eiga þessir menn ekki að standa skil á því sem þeir stofnuðu til?
Þess vegna lendir reikningurinn á íslenskum skattborgurum. Það er nær að kenna Sjálfstæðisflokknum um þetta en ESB.
Það er líka fyrir löngu búið að útskýra að Icesave var íslenskur banki og að ætla að tryggja innlendar innistæður en ekki erlendar er bara siðleysi. Vel skiljanlegt að Bretar og Hollendingar ætli ekki að gefa neitt eftir og séu stórkostlega fúlir yfir þessari framkomu Íslendinganna.
En þetta er alltsaman löngu útrætt og þess vegna skil ég ekki þessa flækju sem nú er búið að spinna, og manni dettur helst í hug að verið sé að reyna að þyrla upp moldviðri sem hægt er að leynast í á meðan hlaupið er frá skuldunum.
Kristján G. Arngrímsson, 23.7.2009 kl. 12:20
Eitt enn: Það sem Icesave afhjúpaði var einfaldlega græðgi og aðgæsluleysi ráðamanna Landsbankans og Íslands. Þessir menn hefðu átt að geta sagt sér sjálfir hvað þeir máttu og hvað ekki. Nema þeir hafi verið stórkostlega heimskir og siðlausir. Reyndar virðist Icesave kannski hafa leitt í ljós meginsiðalögmál íslensku útrásarinnar: Að maður MEGI gera allt sem maður KEMST UPP MEÐ. (Var það ekki einmitt kjarninn í nýfrjálshyggjunni?)
Þetta "lögmál" er greinilega skylt svonefndum "Randisma", siðaviðhorfinu sem kennt er við Ayn Rand. Svo vill til, að Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri í USA, og einn helsti höfundur heimskreppunnar, að margra áliti, var mikill aðdáandi Randískra viðhorfa.
Kristján G. Arngrímsson, 23.7.2009 kl. 12:28
Auðvitað ber Sjálfstæðisflokkurinn (eins og margir aðrir) sinn hluta ábyrgðarinnar á þessu klúðri. Meðal annars vegna þess að hann stóð að samþykkt EES/EEA samningsins sem opnaði á á starfsemi sem IceSave og færði Íslendingum það lagaumhverfi sem Íslenskar fjármálastofnanir störfuðu og starfa eftir.
Því auðvitað er það lagaumhverfi klúðurslegt og engin tilviljun að flestir eru þeirrar skoðunar að því þurfi að breyta og það verður næsta örugglega gert.
Því eitt stærsta klúðrið í lagasetningunni er það vald og sú ábyrgð sem er lögð á litlar og vanmegna stjórnvaldsstofnar, s.s. Íslenska fjármálaeftirlitið (vissulega margar fleiri).
Það er auðvitað skrýtin lög sem gera ráð fyrir því að lítil stofnun á eyju í miðju Atlantshafinu, geti lent í því hlutverki að fylgjast með og "yfirfara" fjármálastofnanir sem eru dreifðar víðs vegar um Evrópu.f
En vissulega legst ábyrgðin að mínu mati þyngst á stjórnendur Landsbankans, sem hafa verið langt frá því að vera starfi sínu vaxnir.
En það ber líka að hafa í huga að Íslensku bankarnir eru langt í frá þeir einu sem hafa farið á höfuðið, það hafa margir tapað miklu fé á gjaldþroti banka á undanförnum mánuðum.
Það hefur ekki verið leitað til eigenda bankanan (eða viðkomandi ríkisstjórna) til að bæta það tap, ná enda innistæðutryggingarsjóðir aðeins yfir hluta innistæðna og reyndar eru lög um þá mismunandi eftir löndum.
G. Tómas Gunnarsson, 23.7.2009 kl. 13:27
Svo er einnig deilt um samninginn sem félagi Svavar færði Íslendingum og fleiri og fleiri telja meingallaðan. Margir vilja meina að þar taki Íslendingar á sig skuldbindingar langt umfram það sem þeim beri og því sé nauðsynlegt að fella samningin.
G. Tómas Gunnarsson, 23.7.2009 kl. 14:06
Ég skal ekkert fullyrða um samninginn sem félagi Svavar gerði. En kannski má til sanns vegar færa að Íslendingar eigi að taka á sig skuldbindingar, umfram það sem þeim lögformlega ber, til að sýna iðrun og yfirbót. Því að þetta mál var svo sannarlega "our bad".
Kristján G. Arngrímsson, 23.7.2009 kl. 15:29
Deilan snýst m.a. um hve mikið það "lögformlega" er.
En lögin sem farið var og er eftir eru auðvitað meingölluð. Það er einmitt þess vegna sem talið er næsta öruggt að þeim verði breytt.
Klúðrið er skilgetið afkvæmi klúðurslegrar lagasetningar "Sambandsins" og stjórnenda Landsbankans sáluga. Ef til vill ekki að undra að það sé ekki frýnilegt.
G. Tómas Gunnarsson, 24.7.2009 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.