Kosningabandalag - Ein stefnuskrá?

Nú er mikið um það rætt að Vinstri græn og Samfylking myndi kosningabandalag, eða með öðrum orðum lofi að starfa saman í ríkisstjórn ef þess er kostur eftir kosningar.

Margir hafa haldið því fram að það kjósendur eigi rétt á því að vita hvernig ríkisstjórn verði mynduð eftir kosningar.  Persónulega hef ég aldrei séð rök fyrir því, enda gjarna erfitt að vita hvernig landið kemur til með að liggja eftir kosningar og hvað flokkarnir eru reiðubúnir að gefa eftir.

Eins og staðan er til dæmis í dag, þá er það svo að ef að Samfylking setur það sem ófrávíkjanlegt skilyrði að næsta ríkisstjórn hefji samningaviðræður við "Sambandið" þá hefur enginn annar flokkur nema Framsóknarflokkurinn það á dagskrá, hvað sem síðar verður.  Þá er það ljóst að ef enginn annar flokkur gefur slíkt eftir í stjórnarmyndunarviðræðum, þá er Samfylkingin utan stjórnar, nema ef svo ólíklega vildi til að flokkurinn hefði meirihluta með Framsóknarflokknum.

En ef flokkar ætla hins vegar að bindast fastmælum með að starfa saman í ríkisstjórn hafi þeir til þess fylgi, er það ekki óeðlileg krafa að "stjórnarsáttmálinn" sé birtur fyrir kosningar. 

Það er varla rökrétt að flokkar sem hafa ákveðið að starfa saman eftir kosningar strái um sig misvísandi loforðum fyrir kosningar og afsaki sig svo síðan með því að hinn flokkurinn hafi ekki ljáð þeim máls.

Ef að flokkar vilja að kosið sé um ríkisstjórnir, hljóta kjósendur að eiga rétt á því að vita hvað sú ríkisstjórn hyggst gera.  Ekki bara hvað þeir flokkar sem ætla að starfa í henni hafa á "óskalistanum".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fellst á að best væri að kjósa um stjórnarsáttmála fyrir kosningar. Ekki að fá hann í hausinn eftir kosningar. Það er þó varla svigrúm til þess núna og verður að virða það til vorkunnar.

Viðreisnarflokkarnir buðu aldrei upp á stjórnarsáttmála fyrir kosningar og það kom aldrei að sök á meðan þeir skuldbundu sig fyrir kosningar til samstarfs eftir kosningar.

Flokkarnir voru til dæmis með ólíkar áherslur í landbúnaðarmálum og að sumu leyti um afstöðuna til EB, Evrópubandalagsins. Fræg var ræða Gylfa Þ. 1. desember um það að stundum væri hægt að efla fullveldi í raun með því að afsala sér hluta af því.

Stærsta breytingin felst í skuldbindingunni um samstarf eftir kosningar. Ég sakna hinna hreinu lína frá Viðreisnarárunum. Þá kusu þeir, sem vildu Viðreisnina áfram þann Viðreisnarflokkinn sem honum hugnaðist betur til að efla hann í málefnatogstreitunni innan stjórnar.

Þeir sem kusu

Ómar Ragnarsson, 5.3.2009 kl. 21:33

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hvers vegna ætti það ekki að vera gerlegt nú?

Stjórnarsáttmálar eru gjarna unnir á 3 til 7 dögum eftir kosningar.  Slíkt ætti ekki að þurfa að taka lengri tíma fyrir kosningar.

Það væri til dæmis afar fróðlegt fyrir kjósendur að heyra hver yrðu stefnumál ríkisstjórnar VG og Samfylkingar hvað varðar virkjanir, stóriðju og "Sambandsaðildar". 

Það virkar alla vegna ekki traustvekjandi ef flokkarnir tala í sitthvora áttina fyrir kosningar, og lofa öllu fögru, en ljóst er að ekki geta báðir efnt sín loforð eftir kosningar.

G. Tómas Gunnarsson, 5.3.2009 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband