3.000.000.000 - Að afskrifa er ekki það sama og að afskrifa

Það er skelfilegt að lesa að banki á Íslandi hafi líklegast þurft að afskrifa þrjá milljarða vegna skulda eins fyrirtækis, Árvakurs.  Það er jafnvel enn skelfilegra að hugsa til þess að líklega þarf að afskrifa á næstu mánuðum og árum skuldir hundruða fyrirtækja að hluta til eða að öllu leyti.  Líklega eru þó upphæðirnar lægri í flestum tilfellum, en líklega hærri í einhverjum.

Sumir munu freistast til þess að bera þetta saman við tillögur að afskriftum til handa heimilum og aðrir munu bera þetta saman við þær sögusagnir sem hafa verið á kreiki um afskriftir þegar 365 miðlar urðu að Rauðsól.

Sá samanburður er þó ekki eðlilegur né réttlætanlegur.

Þó að blóðugt sé að lánastofnun í eigu hins opinbera þurfi að afskrifa slíka fjárhæð sem þessa er það gert á réttan hátt.

Fyrri eigendur tapa eign sinni.  Þeirra eignarhlutur (hlutafé) í fyrirtækinu verður að engu.  Þeir njóta ekki afskriftanna..

Síðan er fyrirtækið selt hæstbjóðenda, á hálfgerðu uppboði, þannig að bankinn lágmarkar tap sitt. 

Það má hins vegar deila um hvort að það sé ekki rétt að gera slíkt söluferli gegnsærra, hafa tölur uppi á borðum, upplýsa um söluverð o.s.frv.  Slíkt myndi hjálpa til við að eyða tortryggni.

 

 

 


mbl.is 3 milljarðar sagðir afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvernig heldurðu að skyndilega gífurlegar skuldir Árvakurs hafi verið tilkomnar?

Jú, Björgólfur gamli keypti fyrirtækið með því að slá lán og setti Árvakur að veði. Björgólfur drap Árvakur. Það ætti að hengja hann.

Kristján G. Arngrímsson, 3.3.2009 kl. 09:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég viðurkenni það fúslega að ég veit ekki svo gjörla hvernig gífurlegar skuldir Árvakurs eru tilkomnar.  Björgólfur hefur varla getað veðsett Árvakur, ég held að það hljóti að vera misskilningur hjá þér, vegna þess að hann átti félagið ekki einn.  Aðrir hluthafar (sem tapa hlutafé sínu nú rétt eins og Björgólfur) hefðu ekki tekið það í mál.

Það sem ég heyri um skuldir Árvakurs, er aðallega að þær séu tilkomnar vegna prentsmiðjukaupa (sem hafi verið óraunhæfar og hún alltof stór) og svo uppsafnaður rekstrarvandi.  Það er að segja að rekstur blaðsins hafi ekki staðið undir sér.  Síðan þarf engan sértakan speking til þess að ímynda sér hvernig hefur farið fyrir skuldunum nú síðustu misseri, ef þær hafa verið í erlendri mynt.

Ef til vill kann þetta "módel" að hafa gengið upp þegar árferðið var hið besta og auglýsingatekjur góðar, en ábyrgar áætlanir verða líka að gera ráð fyrir því að það séu ekki alltaf "jólin".

G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2009 kl. 13:47

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er eiginlega dálítið merkilegt, ef út í það er farið, að menn eins og Björgólfur og hinir þjóðarauðsþjófarnir sem virðast hafa gert út á skattsvik skuli ekki þegar hafa verið brenndir hérna.

Ef út í það er farið eru þetta fullkomlega siðlausir menn. Siðlausir í þeirri merkingu að sjálfdæmishyggja þeirra og fullkomið skeytingarleysi um aðra en þá sjálfa virðist takmarkalaust. En þá ber auðvitað á það að líta að sumu fólki finnst svona hugsunarháttur eðlilegur.

Svona var með stjórnendur Enron, sem hlutu dóma fyrir siðleysi, þótt það héti í rauninni annað.

Vonandi ber þjóðin gæfu til að sækja Björgólf, Hannes Smára og hina þjófana til saka og fá þá dæmda - þó ekki væri fyrir annað en skattsvik. Læknar hafa verið að tala um það hér, að slíks réttlætis sé þörf til að draga úr áfallastreitu þjóðarinnar.

En þetta með Árvakur: Þegar Samson fór í greiðslustöðvun fölnuðu margir á Mogganum og upp úr því seig hratt á ógæfuhliðina. Það segir eitthvað.

Kristján G. Arngrímsson, 3.3.2009 kl. 16:53

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er hálf hissa ef Moggamenn hafa fölnað þegar Samson fór í greiðslustöðvun, þó að ég rengi það ekki.  Aðaláfallið hlýtur að hafa komið þegar Landsbankinn var tekinn og settur í skilanefnd. 

Það hafa alla vegna margir viljað meina að skuld Árvakurs við Landsbankann hafi verið tilkominn vegna rekstrarhalla en ekki fjárfestinga.  Það hlýtur því að hafa orðið tvísýnt um hvort að bankinn hefði áhuga á því að framlengja slíka fyrirgreiðslu.  Morgunblaðið var rekið með tapi og daglegur rekstur stóð tæplega undir sjálfum sér, hvað þá afborgunum, eða svo heyri ég alla vegna.

Árvakur var því ábyggilega ekki veðsettur vegna kaupa Björgólfs á hlutafé, heldur vegna fjárfestinga og rekstrartaps.

Hvað varðar dóma fyrir siðleysi, þá er það auðvitað teygjanlegt hugtak.  Á til dæmis að dæma fjölmiðlamenn fyrir siðleysi?  Fyrir að hafa þagað yfir sannleikanum eða hreinlega borið á borð lygi fyrir þjóðina?

Hvað varðar Björgólf og hina "útrásarvíkingana", þá væri það mér ekki á móti skapi að þeir yrðu dæmdir.  En ég vona að það verði þá fyrir áþreifanleg abrot sem þeir kunna að hafa framið og hafa sannast á þá.

G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2009 kl. 18:49

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru vissulega gömul sannindi að svo megi böl bæta að benda á annað verra, og kannski má bæta við að svo megi sekt bæta með því að berja einhvern annan.

Síst ætla ég að bera blak af fjölmiðlamönnum, en að benda á þá til að draga athyglina frá sekt útrásarforkólfanna þykir mér furðulegt. Við vitum sem er, nema við stingum höfðinu í sandinn, að það voru menn á borð við Björgólf sem einfaldlega réðu hér á landi því sem þeir vildu ráða, í gegnum tengsl sín við ráðamenn og háttsetta embættismenn á borð við stjórnendur FME.

Að ekki sé nú minnst á að þessir blessuðu "snillingar" áttu fjölmiðlana og því voru fjölmiðlamenn í vondum málum. Eins og ég hef víst nefnt.

En ég eiginlega skil ekki hvers vegna þessir útrásarvíkingar eru enn álitnir svo heilagir menn að það megi vart gagnrýna þá öðru vísi en brugðist sé harkalega við þeim til varnar. Það einfaldlega blasir við að þessir menn vissu ekkert hvað þeir voru að gera, eða í það minnsta að þeir voru alls ekki þeir snillingar sem svo margir vildu vera láta.

Líklega er bara svona erfitt að horfast í augu við nöturlegan sannleikann og þess vegna er enn borið af þeim blak. Ótrúlegt hvað það gerir fólk heilagt að koma höndum yfir peninga - jafnvel þótt með ósiðlegum hætti sé.

Furðulegra þó enn, að ekki megi nefna hluti eins og siðferði og siðleysi öðru vísi en að þar með verði það sem maður segir ómarktækt af því að það snýst ekki um peninga.

Einmitt þessi hugsunarháttur - að peningar séu það eina sem mark er takandi á - var forsenda bullsins sem leiddi til vitleysunnar sem nú er við að etja.

Kristján G. Arngrímsson, 3.3.2009 kl. 22:27

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þú hefur misskilið mig ef þú heldur að það að tala um fjölmiðlamennina ætti að leiða athyglina frá "útrásarvíkingunum".  Í mínum huga liggur sökin fyrst og fremst hjá eigendum og þeim sem stjórnuðu rekstri bankanna og annnara fjármálafyrirtækja.

Ég var bara að velta því fyrir mér hvar þú vildir draga mörkin hvað varðar siðferði og siðleysi.  Lög fjalla ekki eingöngu um peninga, en það kann bestri lukku að stýra að mínu mati að fara eftir og dæma eftir lögunum.

Það má heldur ekki gleyma hve stóran hlut fjölmiðlamenn áttu og eiga í því að móta almenningsálitið. 

Þar er ef til vill skemmst að minnast að þegar stórfyrirtæki eins og Baugur var tekið til skoðunar hjá opinberum stofnunum, rauk stór hluti Íslenskra fjölmiðlamanna til og talaði um ofsóknir og þaðan af verra.

Hvað stóran hlut skyldi slíkt eiga í því að skapa það ástand sem skapaðist á Íslandi?

G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2009 kl. 22:38

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég þori að veðja að þeir fjölmiðlamenn sem vörðu Baug og töluðu um ofsóknir störfuðu á miðlum í eigu Baugs. Þetta voru með öðrum orðum óbreyttir hermenn að framfylgja því sem þeir töldu vera vilja æðstu yfirboðara sinna.

Ég myndi því setja fjölmiðlamennina í flokkinn "óbreyttir hermenn" sem voru að fylgja foringjum sínum og hlýða skipunum, og þar af leiðandi ber ekki að sækja þá til saka frekar en óbreyttir hermenn eru hengdir fyrir að hlýða skipunum yfirmanna.

Eins og þú segir, sökin er eigenda og stjórnenda bankanna, manna eins og Þorsteins Más Baldvinssonar, sem virðist þó hafa verið einn af fáum úr þessum hópi sem vildi stemma stigu við bruðlinu og vitleysunni.

En menn eins og Sigurður í Kaupþingi, sem byggði sér sumarbústa í Borgarfirði (mun hafa verið svo stór bústaður að það voru tveir byggingakranar við hann!), Bjarni Ármanns og kannski ekki síst yfirvitleysingurinn Hannes Smárason, sem náði að rústa Icelandair, og Sigurjón digri í Landsbankanum, þetta eru sökudólgarnir. Ekki að þeir hafi verið illgjarnir, heldur vissu þeir einfaldlega ekki hvað þeir voru að gera, og trúðu því líklega sjálfir að þeir væru snillingar. Dramb heitir það víst, og er falli næst, eins og sagan hefur margoft sannað.

Dæmdir? Þeir? Ónei, það verður aldrei. Til þess eru þessir menn of ríkir - á Tortola og Caymaneyjum.

Auðvitað verða menn aldrei dæmdir nema að lögum, en það er nú samt svo, að það sem ræður úrslitum um sekt eða sakleysi er oft annað en nákvæmlega lögin, og lög eru oftar en ekki annað en eftiráskýringar til að réttlæta sakfellingu fyrir siðleysi. Við þetta er að sjálfsögðu ekkert að athuga, því að siðferði er jú lögum ofar, og lög ekki annað en túlkun á siðalögmálum.

Flest fólk þarf enda ekki lög til að vita muninn á réttu og röngu. Þeir sem þurfa að láta lög segja sér þann mun eru annaðhvort siðlausir eða skortir hugrekki til að fylgja eigin réttlætiskennd.

Kristján G. Arngrímsson, 4.3.2009 kl. 13:58

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þeir fjölmiðlamenn og "álitsgjafar" sem ég tala um störfuðu alls ekki allir á fjölmiðlum sem voru eða eru í eigu Baugs.  En það var þetta sem ég var að fara með siðferðið.  Ef til vill má orða það svo að þeir hafi selt sannleikann fyrir fé/laun.

En hvað varðar toppana þá veit ég ekki hvort að þeir hafi framið afbrot, þó að enginn vafi leiki á því í mínum huga að þeir hafi þjáðst af siðblindu. 

Ef til vill voru framin afbrot af undirmönnum þeirra sem voru "að framfylgja því sem þeir töldu vera vilja æðstu yfirboðara sinna", eins og þú orðar það svo skemmtilega.  En ef til vill voru undirmennirnar eingöngu siðblindir og eru þá afsakaðir, vegna þess að þeir voru bara "óbreyttir hermenn".

Flestir telja sig vita muninn á réttu og röngu, en þegar skoðanir þeirra á þeim hlutum eru bornar saman eru þær skoðanir gjarna verulega mismunandi.  Þess vegna höfum við sæst á lög, þó að það sé vissulega rétt að þau eru aldrei einhlýt.

G. Tómas Gunnarsson, 4.3.2009 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband