Kastljósinu beint að Davíð

Það er ekkert nýtt að Davíð sé í kastljósinu, en viðtalið sem tekið var við hann í Kastljósinu í kvöld var skemmtilegt og fróðlegt.

Ekki eins skemmtilegt og fróðlegt og það hefði sjálfsagt getað orðið, en spyrillinn féll í þá gryfju sem svo margir Íslenskir fréttamenn "búa í" að telja það sitt helsta hlutverk að bera undir viðmælandann það sem aðrir hafa sagt, eða að reyna að fá viðmælanda sinn til að játa eða neita óstaðfestum fregnum eða "almannarómi".

Spyrillinn hafði lítið sem ekkert fram að færa sjálfur, færði ekki fram nein rök.  Davíð pakkaði honum enda snyrtilega saman og fór mest allan tímann með stjórn á viðtalinu. 

En það var ýmislegt athyglivert sem kom fram í þessu viðtali.

Það kom fram mjög hörð gagnrýni á síðustu ríkisstjórn og einstaka ráðherra sem í henni sátu.  Samkvæmt Davíð skeytti hún ekkert um viðvaranir og tók mun meira mark á viðskiptabönkunum en Seðlabankanum.

Perónulega skildi ég Davíð þannig að bankarnir hafi "keypt" stjórnmálamenn sem hafi í gegnum einkahlutafélög fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.  Þetta er mál sem allir fjölmiðlar á Íslandi hljóta að fylgja eftir.

Það var sömuleiðis fróðleg uppljóstrun að bréf til lögreglu um óeðlileg hlutabréfaviðskipti hins arabíska sheiks hafi komið frá Davíð, sem hafi fengið nafnlausa vísbendingu um þau. 

Umfjöllun Davíðs um Seðlabankafrumvarpið var sömuleiðis fróðleg og fagleg að mínu mati.  Ég held að flestum sé ljóst að upphaflega frumvarpið var samið með það eitt að markmiði að koma Davíð úr Seðlabankanum. 

Davíð viðurkenndi í þættinum að Seðlabankinn hefði líklega gert mistök, með því að einblína of mikið á verðbólgu í stað gengis (það er ekki rétt sem sum staðar er haldið fram, að Davíð hafi ekki viðurkennt nein mistök, enda sagði hann í þættinum að allir geri mistök).

Eflaust eigum við eftir að fá meiri upplýsingar á næstu dögum og sjónarhorn annarra á þau mál sem Davíð fjallaði um.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvert framhaldið verður.  Sérstaklega ef Davíð hættir í Seðlabankanum á næstu dögum og verður "frjáls".

En það verður sömuleiðis fróðlegt að fylgjast með hvaða stefnu "seðlabankamanía" núverandi ríkisstjórnar tekur.  Kemst frumvarpið úr nefnd?  Hverjir funda með AGS á fimmtudaginn?  Hver verður næsti leikur ríkisstjórnarinnar?

Það er orðið ljóst að einn af þeim seðlabankastjórum sem ríkisstjórnin telur "rúin trausti" er búinn að fá atvinnutilboð frá seðlabanka Noregs. 

Þetta eru spennandi tímar.


mbl.is Helgi Magnús: Davíð sendi bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hann stóð sig vel í viðtalinu hann Davíð. Fróðlegt var það, en ég veit nú ekki alveg um skemmtanagildið.

Ég er aftur á móti efins um að nokkur fjölmiðlill geri nokkuð í að athuga þetta með kaup bankanna á áhrifamönnum, enda virðast miðlarnir ekki hafa á að skipa öðrum en fólki á borð við Sigmund, sem er fínn til síns brúks, en eins og þú segir, hafði fátt fram að færa. Reyndar var hann nú ekki alslæmur.

Ekki er þó nokkur vafi á að þetta er athyglisverður punktur sem Davíð nefndi og væri svo sannarlega þörf á að kanna nánar,

Kristján G. Arngrímsson, 25.2.2009 kl. 07:31

2 identicon

Málflutningur Davíðs gekk aðallega út á það að sverta Geir Haarde og Sigmar, sem annars stóð sig vel ao hélt andlitinu þokkalega gegn gamla einræðisherranum.

Stefán (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 08:14

3 identicon

Davíð skar sig ekki á nokkurn hátt úr því sem gengur á í bloggheimum alla daga, hann var með dylgjur án sannana, nákvæmlega það sem hann vænir alla aðra um.  Hann er í betri stöðu en flestir að afla sannana, hann á því ekki að geta skorast undan því að færa sannanir fyrir því sem hann heldur fram, annars skipar hann sér á stokk með Gróu á Leiti. 

Aðvaranir hans komu meðal annars fram í skýrslum seðlabankans í vor, þar sem þess var getið að efnahagurinn væri traustur, kvittað undir af Davíð Oddsyni.  Maðurinn sem hann segir að hafi ekki hlustað, heitir Geir, sami maðurinn og þorði ekki að reka Davíð.  Ekki finnst mér hann líklegur til að standa uppi í hárinu á Davíð og hlusta ekki á ráðleggingar hans. 

Karlinn er flottur, landsins mesti töffari, en þegar hann kannaðist ekki við að vera umdeildur eða óvinsæll meðal stórs hluta þjóðarinnar, þá "canceleraði" hann flestu því sem eftir á eftir kom.  Það hljómaði eins og óskhyggju aldraðs stjórnmálamanns, löngu síðan úr tengslum við land og þjóð, manni sem ætíð vissi og kunni allt betur en allir í kringum hann. 

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 16:46

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Kristján:  Viðtalið var stórskemmtilegt, þó að ef til vill hafi umræðuefnið ekki verið skemmtiefni.  En Davíð stóð sig vel.

Sigmar átti ekki góðan dag, hélt ekki andlitinu og var illa undirbúinn, það er mín skoðun en vissulega er upplifun einstaklinga mismunandi.

Hvað áreiðanleika þess sem Davíð sagði á ábyggilega ýmislegt eftir að koma í ljós á næstunni.  Þegar er búið að staðfesta að Davíð sendi bréf til lögregluyfirvalda hvað varðaði mál Kaupþings og "sheiksins".  Þegar er vitað að einstaklingur sem starfaði í pólítík hlaut "umdeilanlega" fyrirgreiðslu í einum bankanna.  Ég hef reyndar ekki trú á því að hún sé ólögleg, en vissulega "athyglilverð", þar sem ég hef sterka trú á því að hún hafi ekki staðið almennum viðskiptavinum til boða.

Skýrslur seðlabanka innihalda yfirleitt ekki sterk orð.  Þar verður yfirleitt að lesa á milli línanna.  Svokallað "fedspeak" er t.d. vel þekkt í Bandaríkjunum.  Hitt skiptir auðvitað miklu meira máli hvað sagt var á ríkisstjórnarfundum.  Ef til vill er "þörf" á frekari lekum úr fundargerðum en Samfylkingin hefur staðið fyrir.

Það eru vissulega margir sem taka undir kröfuna að Davíð eigi að fara úr Seðlabankanum, en þegar málið er rætt frekar verður oft fátt um svör, nema afþvíbara.

G. Tómas Gunnarsson, 25.2.2009 kl. 18:14

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Áttu þá við Björn Inga og kúlulánið?

Ég held að kröfur erlendisfrá um aukinn trúverðugleika Seðlabankans séu útaffyrir sig nóg ástæða til að láta núverandi stjórn bankans fara. Hitt er svo aftur annað mál að ekki fær maður varist þeirri hugsun að raunveruleg ástæða  fyrir brottvikningunni sé önnur - þ.e. að um sé að ræða hjaðningavíg pólitíkusa.

Dapurlegt.

Kristján G. Arngrímsson, 25.2.2009 kl. 21:10

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Já Kristján ég á við "kúlulánið" til Björns Inga.  Ég ítreka það sem ég sagði áður að ég tel það varla ólöglegt, en vissulega umdeilanlegt miðað við þá stöðu sem Björn Ingi hafði þegar lánið var tekið.

Kröfur erlendis frá um aukin trúverðugleika Seðlabankans hafa að mínu mati ekki verið svo háværar, þó að vissulega hafi einstaklingar og erlendir fjölmiðlar ekki gefið Seðlabankanum háa einkunn oft á tíðum.  En það ber að hafa í huga að þar skiptir ef til vill ekki síður máli hverjir hafa verið viðmælendur fjölmiðlanna.

En vissulega er um hjaðningavíg að ræða.  Sérstök lög eru sett til að bola einum manni burtu og engu skeitt um þá verða í vegi, og missa sömuleiðis starf sitt.  Það er ef til vill táknrænt að Ólafur Ragnar skuli svo staðfesta þau lög.

En þetta er líka hrikalega varhugavert fordæmi.  Má eiga von á því að aðrar ríkisstjórnir keyri í gegn lagabreytingar um Seðlabankann, eða t.d. Ríkisútvarpið eingöngu til þess að koma að starfsfólki sér betur þóknanlegu og losna við aðra?

Þetta er döpur stjórnsýsla.

G. Tómas Gunnarsson, 25.2.2009 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband