10.2.2009 | 19:25
Þjóðhagslega hættuleg blanda
Ég hef ekki lesið skýrslu þeirra Jóns og Gylfa ennþá, þó að ég sé búinn að hlaða henni niður, en ég hef séð ýmsar tilvitnanir í skýrsluna og hlakka til að lesa hana.
Það er ekkert nýtt að ekkert eitt hafi orsakað hrunið á Íslandi, ég held að slíkt liggi nokkuð í augum uppi. Ísland bauð upp á þjóðhagslega hættulegan kokteil, sem gat þó líklega ekki endað með öðru en ósköpum.
Það hefur mikið verið rætt um vaxtamunaviðskiptin, það hefur mikið verið rætt um stærð bankanna (og flestir þeirra skoðunar að þeir hefðu hrunið fyrr eða síðar), það hefur þó nokkuð verið rætt um ótímabærar og of miklar skattahækkanir (ótrúlega margir virðast trúa því að peningar skapi minni þennslu í höndum ríkisins) og svo hefur líka verið rætt mikið um meinta sekt einstakra aðila eða eftirlitsstofnana.
En eitt af þeim atriðum sem nefnt er í fréttinni sem er hér viðhengd, hefur ef til vill fengið minni athygli, en það eru ríkisfjármálin. Reyndar vita flestir að ríkissjóður stóð vel, var því sem næst skuldlaus og rekstrarafgangur var flest ár.
En, og það er svo oft eitthvað en, minna var rætt um hve ríkissjóður hafði bólgnað út. Þannig hækkuðu ríkisútgjöld að raunvirði um u.þ.b. 50% á milli áranna 2000 og 2008, eftir því sem ég kemst næst.
Stjórnmálamenn með slagorðið "við erum ein ríkasta þjóð í heimi" lögðu af stað í leiðangur með tekjubólginn ríkissjóð að vopni. Nú var tækifæri til að eyða.
Sveitarstjórnarmenn voru alþingismönnum engir eftirbátar, stórauknar tekjur af útsvari og fasteignagjöldum (plús skuldsetning) gerði þeim kleyft að keyra eyðslu fram úr hófi.
Bæði ríki og sveitarfélög hegðuðu sér eins og að "veislan" hlyti að standa að eilífu. Skýrasta dæmið um vitleysuna er líklega fjárlög Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir árið 2008, en þau juku útgjöld ríkisins um 20% frá fyrri fjárlögum og hafði þó verið vel í lagt áður. Seinnipart árs 2007 voru sömuleiðis komin skýr teikn á loft um að framundan væri samdráttur.
Ég held að þau áhrif sem opinberar framkvæmdir, bæði ríkis og sveitarfélaga, höfðu á þennsluna séu stórlega vanmetin, sérstaklega þar sem stór hluti þeirra var í byggingargeiranum, sem var sprengþaninn fyrir.
Aukin þennsla og auknar lántökur hvöttu svo til hárra vaxta o.s.frv.
Vítahringur í peningamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.