4.2.2009 | 22:30
Stefnuræðan - Frasasafn
Ég lét umræður um stefnuræðu forsætisráðherra rúlla hérna í tölvunni minni, þó að ekki hefði ég tök á því að fylgjast með orð frá orði.
Ég veit ekki hvort að ég á að segja að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum, vissulega bjóst ég ekki við miklu, en það orð sem fyrst kom upp í hugann var dapurt.
Sérstaklega held ég að ræða Jóhönnu hljóti að hafa valdið vonbrigðum. Ef ég ætti að nota eitt orð til að lýsa henni væri það: Frasasafn. Ég held að Íslendingar hafi vonast eftir einhverju meira heldur en innihaldslitlu orðagjálfri um að nú þurfi allir að standa saman, að nú þurfi að nýta hvert tækifæri og berjast gegn atvinnuleysinu.
Þetta vita allir og hafa heyrt það áður. Eina fréttnæma sem kom fram var að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Steingrímur J. eru orðnir vinir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er góður og sanngjarn. Annars flutti Steingrímur einhverja þá daufustu ræðu sem ég hef heyrt frá honum, en vissulega er það annað að flytja ræðu sem virðulegur ráðherra heldur en kjaftfor þingmaður í stjórnarandstöðu.
Verð líka að bæta því við að þó að mér hafi þótt Sjálfstæðismenn fara alveg bærilega af stað í stjórnarandstöðu er það algerlega mislukkað að fara að gera mál úr því þó að Sturlu Bö. sé vikið af forsetastóli. Það mál brennur ekki á Íslendingum og ég hef það að tilfinningunni að þeim sem nokk sama, það hlýtur að vera eitthvað þarfara að ræða um.
En umræðan undirstrikaði þörfina fyrir verulega endurnýjun á þingi í næstu kosningum, hjá öllum flokkum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2009 kl. 03:23 | Facebook
Athugasemdir
Já, eftir hálftíma voru frasarnir farnir að valda mér ofsakláða og það var eins og ég væri með banana í eyrunum. Ekki líst mér á liðið.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 5.2.2009 kl. 03:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.