27.1.2009 | 23:58
Er Jóhanna bara puntudúkka?
Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið því sem næst jafn lengi í stjórnmálum og minni mitt nær. Aldrei hefði mér dottið í hug að tengja hana og orðið puntudúkka saman fyrr en í dag, þó að Jóhanna hafi aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, þá hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni.
En það hlýtur að teljast verulega sérstakt að verðandi forsætisráðherra (alla vegna er það lang líklegast í stöðunni nú) taki ekki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum, nei, um þann þátt sjá aðrir. Eru það þá "stjórnendurnir" og Jóhanna "bara verkstjórnandinn", eins og nú ku víst tíðkast að kalla forsætisráðherrann.
Eða er Jóhanna eingöngu ásættanlegt "andlit" út á við, vinsælasti ráðherra fráfarandi stjórnar og því það sem Samfylkingin taldi "vænlegast til vinsælda"? Eða er hún sá Samfylkingarmaður sem VG gat best sætt sig við?
Það er ábyggilega einsdæmi að verðandi forsætisráðherra sitji ekki fundi þar sem unnið er að gerð stjórnarsáttmálans.
Því hafa margir haldið fram að Jóhanna hefði jafnvel hugsað sér að hætta fyrir kosningar, hún hefði því verið góður kostur sem allir hefðu getað sætt sig við.
Þess vegna kemur sú hugsun upp í hugann, að Jóhanna sé einfaldlega "frontur", puntudúkka væntanlegrar ríkisstjórnar.
P.S. Myndinni er stolið af vef RUV, nánar tiltekið úr þessarri frétt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þekkir þú Jóhönnu Sigurðardóttir, ég bara spyr
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.1.2009 kl. 00:37
Ég þekki ekki Jóhönnu Sigurðardóttur persónulega, ég reikna með því að þú sérst að spyrja að því.
En eins og ég segi í blogginu, þá hefur hún verið því sem næst eins lengi í stjórnmálum og minni mitt nær. Aldrei hefur mér fundist ég geta tengt hana við orðið puntudúkka fyrr en í dag.
En það hlýtur að teljast verulega sérstakt að verðandi forsætisráðherra sé ekki í viðræðum um stjórnarmyndun.
Það lítur því út sem að aðrir ráði ferðinni.
G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 00:42
Reyndar var Össur fyrsta val ISG en hann hafði ekki áhuga á starfinu og því var Jóhanna næst í röðinni. Mér finnst það reyndar lógíst.. hver annar hefði getað valdið þessu starfi úr röðum Samfylkingamanna? Ekki skemmir svo fyrir að hún sé vinsælasti sjórnmálamaðurinn.
Stefán Örn Viðarsson, 28.1.2009 kl. 09:31
Að Jóhanna verði forsætisráðherra á sér mjög einfalda skýringu. Hún er eini ráðherrann - mér liggur við að segja eini stjórnmálamaðurinn - á Íslandi sem ekki er búinn að rústa orðspori sínu meðal þjóðarinnar.
ENGINN annar hefði hlotið blessun þjóðarinnar. Þetta sýnir hversu gjörsamlega Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að rústa íslenskri pólitík með valdaferli sínum undanfarna áratugi.
PS: Mér skilst að uppsagnirnar á Mogganum (þ.á m. ég) hafi verið gerðar til að hægt yrði að ráða Davíð Oddsson þar sem ritstjóra af því að "popúlistar" (þ.e. vont fólk) vildu hrekja hann úr Seðlabankanum. Þetta sýnir í rauninni hvað Sjálfstæðisflokkurinn er: Frímúrararegla, eða á maður að segja Mafía af ítölsku sortinni? Að minnsta kosti er óhætt að segja að flokkurinn sé ekkert annað en hagsmunabandalag með mjög sterka goggunarröð. Kannski hugga innanbúðarmenn sig við það að þetta sé bara "realpolitik", en merking þess orðs er greinilega sú, að það eina sem sé "real" séu þeir sjálfir, og að annað fólk sé einfaldlega fair game.
Ég held ég sé farinn að skilja hatur sumra á Sjálfstæðisflokknum.
Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 09:39
Það mun víst vera rétt að Jóhanna var aðeins kostur númer 2. í huga Ingibjargar, en það gerir kostinn ekki verri.
Ég er engan veginn sammála því að allir stjórnmálamenn á Íslandi séu rúnir trausti, þó að vissulega hafi traust á stjórnmálamönnum beðið mikinn hnekki. Held t.d. alls ekki að öllum þeim sem líklegt er að sitji í stjórninni með Jóhönnu séu vantreyst af þjóðinni, langt í frá og það sama gildir um marga aðra stjórnmálamenn. Ég er reyndar nokkuð langt frá vettvangi, en fæ tölvupósta frá mörgum og heyri í nokkrum. Glamrið frá Austurvelli dynur hins vegar ekki í mínum eyrum.
En með Davíð og Moggann. Ég hef áður sagt að það er merkilegt hvað hann situr fast í heilaberkinum á mörgum.
Auðvitað eru uppsagnir á Mogganum Davíð að kenna, eða öllu heldur því að það átti að ráða hann til starfa. Hvernig getur nokkrum manni dottið sú fyrra í hug að uppsagnirnar stafi af því að blaðið er rekið með tapi og hefur verið svo um nokkurt skeið.
Ég held að mörgum veiti ekki af meira "real" og þá er ég ekki að tala um pólítík.
P.S. Kristján, ég hef ennþá mikinn áhuga á því að heyra hvað það var í fjármálastjórninni hjá Árna Matt, sem olli því að þú álýtur hann brandara.
G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 13:12
Ég hef hingað til verið viss um að Mogginn sé rekinn með tapi og því sé sagt þar upp, og að ég hafi verið látinn fjúka af því að ég var of dýr. Það sem atvinnurekendur hafa núna ekki efni á er starfsreynsla. Þeir þurfa ódýrt vinnuafl til að geta haldið sjálfir sínum launum. Gamla góða sagan um arðránið.
Svo las ég að það hefði átt að bjarga DO með því að hann færi á Moggann. Þá fóru að renna á mig tvær grímur. Reyndar er skrítið hvað Árvakur fór hratt á hausinn. Kannski var það bara Einar Sig sem var svona vondur framkvæmdastjóri. Varla. Fjandinn hafi það. Það býr eitthvað meira að baki.
Mig grunar líka að þig skorti perspektív til að átta þig á þessu með DO. Utan frá er mjög augljóst að hann heldur Sjálfstæðisflokknum í gíslingu, en líklega með sama hætti og Hitler hélt Þjóðverjum í gíslingu, með einhverskonar dáleiðslukrafti sem gerir alla Sjálfstæðismenn blinda á hvernig málum er í raun háttað.
PS: Um Árna: hann var skipaður dómsmálaráðherra þegar ráða þurfti son Davíðs í dómarastöðu fyrir norðan, og "rökstuðningur" Árna var virkilega fyndinn.
Þetta er eitt af því sem gerir hann að brandara.
Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 15:14
Eitt enn um ægivald Davíðs: Þegar ég vann á Mogganum skrifaði ég stundum í hann dálka, þeir hétu Viðhorf.
Ég man ekki eftir að stjórnendur blaðsins hafi nokkru sinni gert tilraun til að hafa áhrif á það hvaða skoðanir ég viðraði í þessum dálkum, NEMA í tvö eða þrjú skipti sem ég þar hnýtti í Davíð.
"Viltu vera að gagnrýna Davíð?" sagði Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri, við mig í hálfum hljóðum og svona eins og á ská. (Þetta var vissulega einkasamtal, en Matthías hefur sjálfur gefið tóninn um að maður megi segja opinberlega allt sem fram fer í slíkum samtölum sem hann á aðild að).
Nú monta ég mig af því að hafa gefið skít í Matthías og haldið áfram að gagnrýna Davíð.
Öðru sinni sagði ég að Davíð hefði verið "eins og svört nellika" í jakkaboðungi Kára Stefánssonar; sá dálkur var ekki birtur fyrr en ég var búinn að breyta þessu - taka þetta út.
Þriðja skiptið sem ég man eftir varðaði reyndar Björn Bjarna, sem ég sagði að væri valdagráðugur; þegar ritstjórnarfulltrúi Árni Jörgensen sá það varð hann alveg brjálaður, bókstaflega öskraði á mig: Hver andskotinn heldurðu að þú sért?
Þeim dálki varð líka að breyta áður en hann fékkst birtur.
Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 17:04
Mogginn hefur verið rekinn með tapi um allnokkra hríð. Vandamálin komust fyrst á alvarlegt stig þegar bankaaðgangurinn lokaðist.
Hvað perspektívið varðar er ég ekki innanbúðar í Sjálfstæðisflokknum og hef ekki verið í ríflega 20. ár. En Davíð er ekki að kyrkja, ekki frekar en að það hafi verið bannað að ræða "Sambandið" innan flokksins. Það hef ég gert við Sjálfstæðismenn síðan u.þ.b. 1988 eða svo. Enda fór umræðan á fullan skrið, og áhuginn á "Sambandsaðild" skrapp saman.
Ekki ætla ég að verja ritstjórn Morgunblaðsins. Ég sagði því enda upp árið 2000 eða þar um bil, sökum þess hve leiðinlegt og óáhugavekjandi mér þótti blaðið þá orðið. Hef aldrei fundið hjá mér hvöt til þess að endurnýja kynnin við blaðið.
Það gæti auðvitað orðið ef Davíð yrði ritstjóri (þó að mér þyki það ekki líklegt flétta), hann er vísasti maðurinn til að geta hrisst upp í stofnuninni.
G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.