Skýr skilaboð frá "Sambandinu"

Þau koma nú hvert á eftir öðru skýru skilaboðin frá "Sambandinu".

Fyrst komu skilaboðin hvað varðaði IceSave, eftir því mátti skilja á sumum fréttum var EEA/EES samningurinn lagður þar undir af hálfu "Sambandsins", en alla vegna var ljóst að skilaboðin voru skýr.

Nú koma svo skýr skilaboð frá "Íslandsvininum" Olli Rehn, en hann fer víst með "útþennslumál" á vegum "Sambandsins".

Eftir því sem ráða má af fréttum er Olli með skýr skilaboð til Íslendinga.  Það muni taka u.þ.b. 4. ár fyrir Íslendinga að ganga inn í "Sambandið", ef óskað verði eftir inngöngu fljótlega.

Enginn verulegur afsláttur verði gefinn af fiskveiðistefnu "Sambandsins".  Þannig verði Íslendingar að lúta sameiginlegri fiskveiðistefnu, þó að ekki sé útilokað að einhver aðlögunartími verði gefinn.

Það liggur sömuleiðis nokkuð ljóst fyrir að upptaka euro yrði líklega ekki fyrr en Ísland væri búið að vera í "Sambandinu" 2. ár eða lengur.

Þetta gengur reyndar þvert á það sem hinir innlendu trúboðar hafa haldið fram undanfarnar vikur og reyndar nokkuð á skjön við það sem Olli sjálfur sagði í upphafi október, en líklega hefur eitthvað breyst síðan þá.

En það væri óskandi að þessar yfirlýsingar Olla verði til þess að Íslenskir stjórnmálamenn sættist á að setja þetta mál til hliðar, bretti upp ermar og einhendi sér í uppbygginguna á Íslandi, verji og berjist fyrir krónunni og Íslenskum efnahag.

"Sambandsaðild" má svo ræða seinna á árinu, eða á því næsta,  þegar Íslendingar verða komnir betur fyrir vind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvað er svona æðislegt við krónuna?

Hvað er það annað en "trúboð" að ESB sé djöfullinn sjálfur?

Hefur okkur virkilega gengið svona ofsalega vel þau fáu ár sem við höfum verið á eigin vegum? (Hvað hafa komið margar kreppur á þessum árum, hvað hefur verðbólgan verið mikil, hvað er svona gott við kvótakerfið? bara svo fáeinar spurningar séu lagðar fram).

Ég held að það sé einfaldlega kominn tími til að við hættum að skilgreina okkur út frá því sem við erum ekki, og förum að skilgreina okkur út frá því sem við erum.

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2008 kl. 11:20

2 identicon

ESB er kannski ekki djöfullinn sjálfur, en það er lúsiferískt ríki.  Sjá til dæmis hvernig þeir eru að byggja Babel truninn á ný.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 12:11

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sæll Kristján:  Krónan er ekkert æðilegri en aðrir gjaldmiðlar, en hefur þá sérstöðu á Íslandi að vera gjaldmiðill landsins, því er mikilvægt að standa eins vel að baki hennar og mögulegt er.  Á það hefur mikið vantað undanfarin misseri.

Íslandi hefur vegnað ágætlega á eigin spýtur, þó að þessi kreppa hafi skollið á.  Foreldrar okkur hafa lifað miklar breytingar, flestar í rétta átt.  Oft hefur verið erfitt en í heildina litið hefur saga Íslensks sjálfstæðis verið saga þjóðar sem hefur sótt fram til betri lífskjara.

Ég hef aldrei sagt að "Sambandið" sé "djöfullinn sjálfur", enda trúi ég ekki á hann, reyndar ekki "Sambandið" heldur, en það setur þau ekki að jöfnu í mínum huga.´

Á Íslandi hefur verið mikil verðbólga og því miður oft langvinn, efnahagsstjórn hefur oft verið í molum.  En eins og við höfum skrifast á um á öðrum stað, þá hefur það að hluta til komið til vegna öðruvísi áherslna Íslendinga, sértaklega hvað varðar markmið um "atvinnu fyrir alla".  Kvótakerfið hefur reynst ágætlega að mínu mati, en ég efast ekki um að þar sé sitthvað sem þarft er að laga.  Ég hygg þó að flestir myndu segja að Íslenska kvótakerfið hafi reynst betur en fiskveiðistefna "Sambandsins", fyrst það er hér áberandi í umræðunni.

Þú hefur ef til vill misskilið það sem ég skrifaði hér að ofan, ég er ekki að segja að ekki eigi að ræða um "Sambandsaðild", heldur eingöngu að setja þá umræðu til hliðar um stund.

Ég er þeirrar skoðunar að sú "töfralausnaumræða" sem farið hefur fram á Íslandi undanfarnar vikur hafi skaðað þjóðina.  Allir stjórnmálamennirnir og hagfræðingarnar sem hafa komið fram og fullyrt að við förum bara "flýtileið" og verðum kominn í "Sambandið" á næsta ári.  Eða að best sé bara að taka upp euro einhliða.  Síðan er ýjað að því að lítið mál sé að fá undanþágur og þar fram eftir götunum.  Ég tel best að þessu linni.

Það skiptir ekki mestu máli á Íslandi nú hvort að Íslendingar verði komnir í "Sambandið" eftir 4. eða 5. ár.  Hvort að euroið yrði í gildi á Íslandi eftir 6. ár eða 7., jafnvel þó þau yrðu 8.

Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig tiltekst með endurreisn efnahagsins.  Hann verður ekki reistur upp með umræðu um "Sambandsaðild".  Ég vildi óska að til væri "töfralausn", en ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki.  Hvorki euro né dollar leysa þau vandamál sem Íslendingar standa frammi fyrir.

Þess vegna er meira áríðandi en nokkru sinni fyrr að setja ágreiningsefni til hliðar skamma stund, bretta upp ermarnar og reyna sitt besta. 

Síðan þegar landið er komið yfir versta hjallann, er sjálfsagt að hefja karpið á ný, það er enginn að tala um að við hættum að vera Íslendingar.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 14:19

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Málið er þetta: Meirihluti þjóðarinnar virðist ekki treysta krónunni og ber ugg í brjósti um að haldið verði áfram að nota hana. Krónan hefur með öðrum orðum glatað sínu góða orðspori, rétt eins og íslenskt fjármálalíf. Þess vegna viljum við fá yfirlýsingu um að stefnan sé á ESB.

Engum dettur held ég í hug að slík aðild verði töfralausn. Við vitum öll að töfralausnir eru ekki til í raunveruleikanum.

Annað mál: Hvað voru kosningarnar þarna í Kanada boðaðar með miklum fyrirvara? Mánuði? Það vantar hér á landi fyrirbærið "skyndikosningar", líkt og fóru þarna fram.

Sjálfstæðisflokkurinn vill auðvitað ekki kosningar núna vegna þess að hann myndi fara eins og Íhaldsflokkurinn kanadíski fór 93 - þurrkast út. Að minnsta kosti missa völdin.

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2008 kl. 18:20

5 identicon

Mikid er eg sammala ter, tessi hokus pokus umraeda hefur haldid stjornmalamonnunum a Islandi fra tvi ad geta tekist a vid tau mjog svo erfidu mal sem liggur a ad seu leyst af festu og abyrgd !

A tad hefur mikid vantad og tessi ESB mal trollrida umraedunni og eru utum vidan voll !

Skalfur by eg nu i ESB rikinu Spani og her er skollin a hrodaleg kreppa. Husnaedisverd er i frjalsu falli og hefur fallid um meira en 50% a einu ari. Byggingaridnadurinn sem verid hefur mjog blomlegur her um margra ara skeid er rjukandi rustir. fjoldauppsagnir og fjoldagjaldtrot byggingarfyrirtaekja og verktaka. Skrufad hefur verid fyrir erlent lansfe til Spaensku bankanna og vandamalin hrannast upp. Her hefur atvinnuleysi um langan tima verid mjog mikid, en eykst nu hrodum skrefum og stefnir i ad verda 10 til 15%. Atvinnurekendur nyta ser mjog tetta neydarastand og morg daemi ur veitingarekstri og idnadarstarfsemi tar sem atvinnurekendur eru ad greida folki 2 til 3 evrur a timann, bara nadasamlegast til ad fa vinnu.

Tetta er ad gerast her i ESB rikinu Spani tratt fyrir ad landid se med Evru og i ESB.

Eg er alveg viss um tad ad kreppan a eftir ad verda miklu dypri her og a lika eftir ad standa miklu lengur heldur en a Islandi !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 18:30

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Kristján:  Ég held að það sé rétt, að krónan njóti ekki ýkja mikils traust.  Það er að hluta til vegna bankahrunsins, að hluta til vegna ábyrgðarlauss tals stjórnvalda og annarra aðila, s.s. greiningadeilda og annarra slíkra snillinga.  Síðan spilar inn í sá "sérfræðingaher" sem klifar sífellt á því að Íslendingum standi eitthvað annað til boða.

Íslendingar verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að þeim stendur ekkert annað til boða, alls ekki næstu 6. árin og óvíst hvað verður eftir það.

Það myndi því gefast best að þjappa sér saman um það sem verður að nota, og reyna að beita því hægt er að beita af skynsemi.

Alþingismenn hafa komið fram í fjölmiðlum og lýst því sem "töfralausn" að lýsa því yfir að Íslendingar ætli sér inn í "Sambandið", þannig að það þarf ekki að fylgjast lengi með umræðunni til að finna þá sem á slíkt trúa og hafa boðað.

Kosningarnar hér voru boðaðar með u.þ.b. 6. vikna fyrirvara, það er ekkert vandamál að skella á kosningum með suttum fyrirvara.  Það er kostur fyrir starfandi flokka og gefur nýjum aðilum minni möguleika.  Það er hins vegar ekki saman að jafna að vera með minnihlutastjórn sem sér fram á að koma málum ekki í gegnum þingið, eða stjórn með sterkum meirihluta.

En ég hef sjálfur sagt hér á blogginu að mér þætti eðlilegt að kosið yrði haustið 2009 eða vorið 2010.  Það er mín skoðun, eðlilegt að slíkar skoðanir séu mismunandi.  Ég hefði einnig talið að ríkisstjórnin ætti að leita leiða til að opna á meira samstaf við stjórnarandstöðuna, en það er önnur saga.  Líttu að Reykjavíkurborg.  Þar var allt í upplausn fyrir skemmstu, en nú eru allir að vinna saman, það er líklegra til að verða borgarbúum til hagsbóta í kreppunni en sundurlyndið.

Ég mæli líka með að þú lesir yfir athugasemd Gunnlaugs hér að ofan, hún kemur úr "Sambandinu".  Gengið hjá þeim er stöðugt, en atvinnleysið eykst og launin lækka.

Gunnlaugur:  Bestu þakkir fyrir innlitið og þitt sjónarhorn. 

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 19:34

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, athugasemd Gunnlaugs er góð. Bætum við hana ónýtum gjaldmiðli, og þá er komið út ástandið sem verður hér á Íslandi á næsta ári. Ætli Gunnlaugur vildi bæta við ástandið á Spáni verðlausum gjaldmiðli er gerir að verkum að það er ekki hægt að flytja neitt inn?

Krafan um kosningar felur í sér þá afstöðu að lýðræðið sé mikilvægara en efnahagsmálin. Ætli það sé ekki einhverskonar hænaneðaeggið spurning. Förum ekki út í það.

En ég efast um að nokkur maður hér á landi léti sér detta í hug að hafa kosningar með sex vikna fyrirvara. Hér þyrftu menn sex mánuði hið minnsta til að rífast og þrasa í nafni "kosningabaráttu."

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2008 kl. 20:40

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það á eftir að koma í ljós hvernig ástandið verður á Íslandi á næsta ári.  Fæstar spár ganga þó út frá því að á Íslandi verði 15% atvinnuleysi.  Það er óskandi að svo verði aldrei.  Það verður hægt að flytja inn til Íslands, en vissulega verður það dýrara en verið hefur.  Það hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera, heldur hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar. 

Íslendingar eru að komast að þvi að það þarf að framleiða og það þarf að flytja út til að geta flutt inn.  Gömul sannindi.

En krónan er einmitt líkleg til að auðvelda umskiptin.  Hvetja til innlendrar framleiðslu og útflutnings, dregur úr innflutningi.  Það væru ekki til meiri peningar til innflutnings þó að annar gjaldmiðill væri á Íslandi.  Það fengjust nákvæmlega jafn mörg euro, dollarar eða pund fyrir útflutninginn. En útflutningsfyrirtækin eru samkeppnishæfari vegna krónunnar.

Lýðræði er ennþá við lýði á Íslandi.  Það er ekkert sem segir að það þurfi að kjósa þó að áföll dynji á.  Er einhver mælikvarði á það hvað stórt áfallið þurfi að vera til að boða þurfi til kosninga?  Það er heldur ekkert ólýðræðislegt við að ríkisstjórn sitji út kjörtímabil.  Lýðræðisformið sem Íslendingar hafa kosið sér er þingræði.

Þar með er ekki sagt að krafa um kosningar sé ekki skiljanleg, en það er engin ástæða til að hlaupa til í panik.  Hitt er svo spurning hvort að það eigi að vera möguleiki fyrir ákveðið hlutfall af kjósendum að krefjast kosninga, en það er spurningin hvað það hlutfall ætti að vera hátt. 25%,  35%?  51%?

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 21:29

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jú, líklega er ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn vill halda dauðahaldi í krónuna einmitt sú, að hún hentar sjávarútvegnum. Það hafa jú löngum verið meginhagsmunasamtökin á bakvið flokkinn, sambanber kvótalögin sem þeir halda nú dauðahaldi í líka.

En krónan hentar ekki lengur íslenskum almenningi, er ég hræddur um. Svipaða sögu mun vera að segja frá Danmörku og Svíþjóð, þar sem áhugi almennings á að taka upp evru fer vaxandi.

Ég held að margt fólk hér á landi, sem horfir nú á myntkörfulánin, sem voru svo ódýr á meðan gengi krónunnar var fáránlegt og bankarnir fullyrtu að það færi aldrei aftur niður, sliga fyrirtæki og fjölskyldur, vilji losna við krónuna og fá eitthvað annað í staðinn, eitthvað stöðugra. Engum dettur í hug að úr meiri verðmætum verði að spila þótt gjaldmiðillinn sé annar. Eins og ég hef víst margtuggið: fólk er fyrst og fremst að hugsa um að losna við krónuna og alla þá galla sem henni fylgja. Það er einfaldlega rangt, og bara þras, að halda því fram að litið sé til evru sem "töfralausnar".

Í hundraðasta sinn: Við erum fyrst og fremst að hugsa um að losna við gengisóstöðugleikann sem fylgir krónunni. Það er markmiðið.

Með öðrum orðum: Þetta snýst um galla krónunnar, ekki kosti evrunnar.

Evran er ekki markmið í sjálfri sér. Það er bara praktíst atriði að taka hana upp í staðinn fyrir evru. Það liggur beinast við, því að hún er eini gjaldmiðillinn sem okkur stendur beinlínis til boða í staðinn fyrir krónuna. Alveg væri ég persónulega til í að taka upp lúníinn, ef hann byðist.

Ég held að "krónuíhaldið" sé líka að sumu leytið sprottið af einhverri undarlegri þjóðerniskennd, amk. eins og það kemur fram hjá Steingrími Joð og VG. Evran, samkvæmt því viðhorfi, samræmist ekki sjálfsímynd "Íslands." Hún er "óíslensk," beinlínis ógn við íslenska þjóðarvitund.

Jæja, nóg í bili.

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2008 kl. 23:03

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Krónan sem slík hentar ekki sjávarútvegnum.  "Háa krónan" var ekki góð fyrir hann, lækkaði afurðaverð, lækkaði laun sjómanna o.s.frv.  "Lága krónan" er hins vegar góð fyrir sjávarútveginn, sérstaklega þá sem skulda lítið í erlendri mynt.  Hún er góð fyrir marga sjómenn, hækkar laun þeirra.  "Lága krónan" er líka góð fyrir sprotafyrirtæki, sem áttu erfitt undir "háu krónunni", hún er góð fyrir öll útflutningsfyrirtæki og góð fyrir Íslensk framleiðslufyrirtæki sem eru í samkeppni við innflutning.

Krónan hentar Íslenskum almenning vegna þess að krónan endurspeglar Íslenskt efnahagslíf og væntingar til þess.

Lestu þessa frétt og segðu mér svo að "Sambands" aðild og euroið séu ekki predikuð sem töfralausn.

Ég hef mikla samúð með skuldsettum fjölskyldum á Íslandi, þó fer minnst af þeirri samúð til "myntkörfufólksins".  Þetta er fólkið sem trúði, eða lét telja sér trú um að Íslenskt efnahagsumhverfi kæmi þeim ekki við.  Stýrivextir og annað slíkt væri fyrir einhverja aðra.  Að það skipti engu máli að dæla erlendu lánsfé inn í landið.

Þetta er fólkið sem ætlaði að græða, "taka sving" á þessu og borga miklu minna en stóð til boða á "innlendum" markaði. 

Euroiði er ekki að vernda Spánverja (eða Íra) þar er fasteignaverð að hrynja, þar er atvinnuleysi að aukast og verður líklega mun meira en á Íslandi, launin þar eru að lækka, rétt eins og á Íslandi.  Kaupmáttur þeirra sem halda vinnunni og laununum (eins og t.d. ríkisstarfsmenn og þeir sem betur mega sín) helst stöðugur, en hvað verður um kaupmátt eða greiðslugeta þeirra sem missa atvinnuna?

Víst virðist þú hald að úr meiru verði að spila ef gjaldmiðillinn sé annar, því annars hefðir þú varla komið með setninguna:  "Ætli Gunnlaugur vildi bæta við ástandið á Spáni verðlausum gjaldmiðli er gerir að verkum að það er ekki hægt að flytja neitt inn?", þar sem þú virðist halda að minna sé hægt að flytja inn vegna bágrar stöðu krónunnar.

Staðreyndin er auðvitað sú að útflutningur Íslands hefur nákvæmlega sömu kaupgetu, sama hver gjaldmiðillinn er, því lítið ef nokkurt er flutt út í Íslenskum krónum.  En kaupgetan á innfluttum vörum minnkar og innlendar vörur verða samkeppnishæfari, er það af hinu illa?

Krónan heldur ákveðnum stýritækjum, eða völdum innanlands.  Hún er eitt af hagstjórnartækjunum, eða ventlunum sem ég hef minnst á í þessum rökræðum okkar.

Íslendingar þurfa á þeim öllum þeim stjórntækjum sem þeim stendur til boða í efnahagsstjórninni.  Það má deila um það hvernig þeim er beitt og hvernig þeim hefur verið beitt, en það er annað rifrildi.

Staðreyndin er sú að margt hefur mátt betur fara í Íslenskri efnahagsstjórn, sérstklega síðustu 2 til 3 árin.  En það er ekki krónunni að kenna.

G. Tómas Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 02:04

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Á endanum skil ég alls ekki þessa krónuást þína. Mér sýnist eindregið að hún stafi af kreddukenndri andstöðu við ESB.

Og hvernig þú færð það út að ég haldi að úr meiru verði að spila með evru er mér hulin ráðgáta. Rök þín fyrir því bara skil ég ekki.

Annað: Ef það skiptir þá engu hvort við höfum krónu eða evru, hvað varðar útflutning og innflutning, efnahagsstjórn og hvaðeina, af hverju má þá ekki sækja um evruaðild á þeim forsendum einum að íslenskur almenningur hefur misst tiltrú á krónunni?

Og eiginlega veit ég ekki hverjir eru eftir sem vilja halda í krónuna, aðrir en þú og Davíð Oddsson.

Kristján G. Arngrímsson, 22.11.2008 kl. 12:04

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hafði ekki séð þessa frétt um Árna Pál og töfralausnina, en ef satt skal segja finnst mér þetta dálítið trúlegt.

Kannski er evran þá eftir alltsaman töfralausn.

Kristján G. Arngrímsson, 22.11.2008 kl. 12:08

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og við nánari umhugsun: Hefði ekki orðið úr meiru að spila með evru en krónu? Nóg að horfa á gengishrunið til að fatta að án krónunnar þyrfti nú stór hluti þjóðarinnar ekki að eyða öllu sínu í að borga margfalt hærri afborganir af erlendum lánum, heldur gæti sett peningana í eitthvað annað. Hefði með öðrum orðum úr mun meiru að spila.

Kristján G. Arngrímsson, 22.11.2008 kl. 15:32

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sæll Kristján:  Ég er í sjálfu sér ekki hissa þó að þó hafir fallið dulítið fyrir kenningu Árna Páls.  Það er eðli lýðskrumara að vera trúverðugir, það er þess vegna sem þeir m.a. ná inn á Alþingi.  Farðu nú og athugaðu hvernig raunveruleg staða er í Eystrasaltslöndunum og hvað "Sambandið" og eurotengingin hefur reynst þeim mikið skjól.

Kanadíski dollarinn hefur fallið á bilinu 20 til 25% gagnvart þeim Bandaríska, það sama gildir reyndar um euroið.  Hefði íbúi að Spáni tekið lán í dollurum (vegna þess að vextir eru nú mun lægri þar en í eurolandi) þá hefði það lán hækkað um það hlutfall á nokkrum vikum.  Það sama gildir auðvitað hér í Kanada.  Ef einstaklingar vilja ekki fylgja með sveiflunni innanlands, þá

Íslendingar væru að greiða nákvæmlega jafn mörg euro, yen eða svissneska franka og áður, en það er rétt að þeir hefðu meiri afgang.  Þeir sem hefðu ennþá vinnu. Eins og ég hef áður sagt er þetta næstum fullkomið fyrir ríkisstarfsmenn og þá sem meira mega sín. 

En það sem við flytjum út nú eykst ekki að verðmæti, en fljótlega gæti útflutningur aukist í magni (og þar af leiðandi verðmæti), því Íslensk vara verður samkeppnishæfari þegar krónan veikist, en yfirleitt myndi innflutningurinn aukast, ef gjaldmiðillinn væri sterkari.  Það er einmitt það sem efnahagur Íslands má ekki við.

Þennsluþjóðfélag eins og Ísland var þurfti ekki lægri vexti, það þurfti minni lántökur og meiri sparnað.

Innflutningur þarf að dragast saman, útflutningur og innlend framleiðsla að aukast.  Íslendingar geta ekki endalaust lifað um efni fram og á erlendum lánum eins og þeir hafa gert undanfarin ár.  Það þarf að framleiða og það þarf að flytja út.

Ergo, það skiptir öllu máli fyrir efnahaginn að gjaldmiðillinn sveiflist með efnahaginum. 

Þú rekur togara sem hefur leyfi til að fiska 3000 tonn af þorski á ári, sem þú selur fyrir 3000 kr.  Það eru 30 áhafnarmeðlimir um borð sem fá að meðaltali 30 krónur í árskaup (fast kaup, ekki hlutaskipti).  2100 krónur fara í rekstur útgerðarinnar, kaup á veiðarfærum, afborgunum af lánum o.s.frv.

Nú eru veiðarnar skertar, nú má aðeins veiða 2400 tonn, sem þú getur þá selt fyrir 2400 krónur.

Hvað gerir þú?

G. Tómas Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 19:09

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já en það er öllu verra þegar efnahagurinn sveiflast með gjaldmiðlinum, þá er skottið farið að vagga hundinum. Þegar gjaldmiðillinn er svo lítill, að einhverjir menn í útlöndum geta ákveðið að lækka gengið á honum sjálfum sér til hagsbóta, þá er nú lítið orðið úr sjálfstæðinu, þykir mér. Og þá er gjaldmiðillinn ekki að sveiflast í takt við efnahaginn heldur í takt við eitthvað annað.

Lítið sem Seðlabankinn gat gert í því, skilst mér.

Það er mikið rétt, að innflutningur þarf að minnka. Sérstaklega á varningi á borð við stóra og fína jeppa, sem og öðrum extrem lúxusvarningi. Það er bara gott að innflutningur á slíku hrynji. Og það verður, þótt kannski sé ljótt að segja það, vegna allra þeirra sem misst hafa vinnuna, gott að losna við alla þessa risavöxnu banka, sem hafa ekki bara lagt undir sig efnahagslífið heldur líka menningarlífið og hugmyndaheiminn. Og bílarnir bankamannanna lögðu undir sig göturnar. Gott líka að losna við þá.

Það dapurlegasta af öllu er svo kannski það, að mörg myntkörfulánin sem eru núna að sliga fólk voru tekin fyrir risastórum jeppum uppá rúmar tíu milljónir. Í byrjun árs var sett heimsmet hér í innflutningi á nýja Landkrúsernum, stykkið kostaði held ég 12 milljónir. Meira en íbúðin mín.

Auðvitað er ekkert vit í þessu.

Kristján G. Arngrímsson, 22.11.2008 kl. 20:09

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég vil meina að þessi stjórn einhverra andstæðina krónunnar á gengi hennar sé ofmetin.  Hins vegar voru gríðarlega margir sem tóku svokallaða "stöðu" gegn krónunni.  Veðjuðu á það að hún myndi falla.  En það var að mestu leyti vegna þess að það var flestum orðið ljóst að hún hlyti að falla, ástandið á Íslandi var einfaldlega orðið flestum ljóst.  Eilífur viðskiptahalli, endalausar lántökur, uppblásið húsnæðiverð o.s.frv.  Fáir sáu þó þetta hrun fyrir, en þeir voru margir sem sáu að leið Íslensks efnahagslífs hlyti að liggja niður á við.

Ákvarðanir "spákaupmanna" reyna að taka ákvarðanir sem taka ekki eingöngu mið af stöðunni eins og hún er í dag, heldur eins og þeir halda að hún verði eftir nokkra daga, nokkra mánuði eða nokkur ár.  Allt eftir því sem þeir kjósa að taka "langa stöðu".

Hefði hið opinbera hagað sér öðruvísi, þó ekki væri nema síðastliðin 3., 4. ár, hefði hugsanlega mátt afstýra þessu, í það minnsta af miklu leyti.  En hið opinbera fór að mörgu leyti í fararbroddi í eyðslunni (hið opinbera er bæði ríki og sveitarfélög), slagorðið "við erum ein ríkasta þjóð í heimi" hljómaði.

En það er mikið rétt að stór hluti af lánunum var eytt í bölvaða vitleysu, ef svo má að orði komast, ég sagði enda áður að ég hef minnsta samúð með "myntkörfufólkinu".  En það virðist vera einhver "háværasti" hópurinn og ber sig illa.

En reiknaðu þetta dæmi, hvað myndir þú gera (örlítið breytt).

Þú rekur togara sem hefur leyfi til að fiska 3000 tonn af þorski á ári, sem þú selur fyrir 30 euro, sem jafngildir 3000 kr.  Það eru 30 áhafnarmeðlimir um borð sem fá að meðaltali 30 krónur í árskaup (fast kaup, ekki hlutaskipti).  2100 krónur fara í rekstur útgerðarinnar, kaup á veiðarfærum, afborgunum af lánum o.s.frv.

Nú eru veiðarnar skertar, nú má aðeins veiða 2400 tonn, sem þú getur þá selt fyrir 24. euro, eða  2400 krónur.

Hvað gerir þú?

G. Tómas Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 14:54

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef söluverðið er fast hljóta launin hjá mannskapnum að lækka. Mér líka.

Kristján G. Arngrímsson, 23.11.2008 kl. 20:00

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er vissulega einn möguleikinn.  Líklega sá besti fyrir heildina.

En það er líka hægt að segja upp 10 starfsmönnum, gera þá atvinnulausa, því ekki þarftu jafn marga menn til að vinna 20% minni afla er það?  Þá halda þessir 20 kaupmætti sínum.

Þegar gengið lækkar, þá lækka laun allra Íslendinga.  Án þess að menn eigi kost á að segja nei, eða að það þurfi að semja upp á nýtt.  Stundum er launalækkun það sem þarf, hversu sársaukafullt það kann að hljóma.

Þannig væri það ef þú réðir genginu, þá gætirðu fellt gengið.  Þú gætir fellt gengið um 25% og haldið áfram að fá 3000 krónur fyrir 24. euro.

En það er engin lausn að taka upp euro.

Þetta er auðvitað einfalt dæmi, en segir samt sína sögu.

Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna svo margir halda að stjórnvöld verði svo mikið agaðri í fjármálum og peningamálastefnu við það að taka upp euro.

En það má til sanns vegar færa að það er þörf á meiri aga.

G. Tómas Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 22:11

19 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að það hljóti að skipta máli, ef til kemur, að það er seðlabanki Evrópu sem stendur að baki evrunni, ekki bara SÍ. Svo fylgja evrunni allskonar skilyrði sem íslenskir ráðamenn gætu ekki annað en samþykkt.

Annars er nú verið að tala mikið um það hér, að kreppuástandið minni mikið á Finnland um 1990, þegar þar varð hrun í kjölfar svipaðs sukktímabils, og hruns Sovétríkjanna og verslunar við þau, og að yfirlýsing Finna um væntanlega ESB umsókn hafi auðveldað mjög að komast uppúr kreppunni.

Kristján G. Arngrímsson, 23.11.2008 kl. 23:10

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er merkilegt ef menn halda að það þurfi erlenda aðila með "svipur" til þess að Íslendingar geti verið með agaða hagstjórn og ríkisfjármál.  Ef til vill væri best að biðja einfaldlega Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að skipa "Ríkisstjóra" yfir Íslandi.

En spurningin er líka hvort að Finnland hafi einhvern tíma komist út úr kreppunni?  Vissulega hefur margt áunnist í Finnlandi, Nokia átti ekki hvað síst þátt í að rífa landið af stað.

En atvinnuleysi hefur aldrei farið undir 7 til 8% í Finnlandi.  Er það ásættanlegt fyrir Ísland?  Er það veruleikinn sem Íslendingar vilja og þurfa að búa við næstu áratugi?

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2008 kl. 19:10

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, hafa ekki einmitt atburðir undanfarinna vikna hérlendis sýnt fram á að Íslendingar geta í rauninni ekki haft agaða hagstjórn og ríkisfjármál? Það sem skorti var einmitt agi. Eða agavald, öllu heldur, ríkisins, þ.e. eftirlitsstofnana, með íslensku ólígörkunum (sbr. það sem NRK segir um íslensku auðmennina, að þeir hafi verið eins og rússnesku ólígarkarnir).

Það er komið í ljós, að útrásarvíkingarnir fengu að vaða uppi eins og þeim sýndist, og vinir þeirra í eftirlitsstofnununum sögðu bara "duglegir strákar!" Það var með útrásarvíkingana eins og litu, duglegu strákana, það mátti ekki slá á puttana á þeim, heldur dáðust allir að því hvað þeir væru nú duglegir.

Viðtal bandarísks fréttamanns við Ásgeir Jónsson, sem má sjá á YouTube, sýnir vel hvað þetta voru í rauninni miklir vitleysingar.

Kristján G. Arngrímsson, 26.11.2008 kl. 17:30

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ríkisfjármálin stóðu líklega betur á Íslandi (áður en núverandi lántökuhryðja gekk yfir) heldur en í flestum ríkjum í "Sambandinu".  Það eru meira að segja til ríki í "Sambandinu" þar sem skuldir heimilanna eru hærra hlutfall af landsframleiðslu heldur en á Íslandi.

Hvað er að gerast í "Sambandinu"?

Það er hins vegar alveg rétt að regluverkið hjá Íslendingum hefði átt að vera mikið sterkara.  Hvaðan er það ættað?  Í hverju er það frábrugði þeim reglum sem gilda í helstu ríkjum "Sambandsins"?

En það er alveg rétt að það er ekki sniðið að þörfum smáríkis.

Leitaðu uppi nokkurra ára (eða árs gömul) viðtöl við starfsfólk hjá Northern Rock, UBS (sem heimamenn kalla nú United Bandits of Switzerland), Lehman Brother, og öllum þessum fyrirtækjum.

Ég er alls ekki að segja að Íslensku bankastarfsmennirnir hafi staðið sig vel, eða að ég vilji verja þá.  Það er hins vegar enginn ástæða til að halda að erlent ríkisfang sé einhver trygging fyrir því að rétt sé staðið að hlutunum.

Upphefðin kemur ekki einungis að utan.

G. Tómas Gunnarsson, 26.11.2008 kl. 22:23

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru gömul sannindi á Íslandi að björgin kemur að utan.

Þú bendir sjálfur á stærsta gallann á íslensku samfélagi í nýjustu færslunni þinni: Smæðina, sem leiðir af sér samtrygginguna, og athyglisvert er það sem Lilja Mósesdóttir hagfræðingur segir um þetta í Mogga í dag:

"Hún segist heilluð af þeim gildum sem ráða ferðinni í Evrópusambandinu en hún hefur bæði starfað sem sérfræðingur hjá ESB og stýrt stórum rannsóknarverkefnum sem styrkt voru af sambandinu.

Lilja segir að í ESB sé lögð áhersla á einstaklinga með þverfaglegan bakgrunn og menn ráðist ekki í stöður á grundvelli hagsmunatengsla. „Þessar stöður í háskólageiranum á Íslandi hafa verið hluti af samtryggingarkerfinu hérna heima, því miður. Og það er eitt af því sem þarf að breytast.“ "

Kristján G. Arngrímsson, 27.11.2008 kl. 17:09

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Staðreyndin er sú Kristján að vissulega sé smæðin til vansa á Íslandi. En það breytist ekki við inngöngu í "Sambandið".  Slík mál verða nefnilega enn í innlöndum höndum.  Íslendingar fá einfaldlega yfirstjórn.  Það breytir engu um spillingu á Akureyri, þó að Akureyri sé "aðili að" Íslandi.

Hitt er svo líka að spillingin og "nálægðin" er líka innan "Sambandsins".  Þar hafa tannlæknar einstaklinga verið ráðnir í "ráðgjafastörf".  Þar berjast menn fyrir sínu "kjördæmi", þar ráða menn flokksbræður og vini og kunningja sem svo víða tíðkast annars staðar.

Það sama er upp á teningnum hér í Kanada, hér er ekki spillingarlaust land.  Það er þó vissulega ekki hægt að neita því að á Íslandi er nálægðin svo mikil. 

Það breytist ekki við inngöngu í "Sambandið", enda hlutast "Sambandið" ekki svo mikið í "innanríkismál", ef ég hef skilið þetta rétt.

G. Tómas Gunnarsson, 28.11.2008 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband