21.11.2008 | 03:46
Fréttamaður handtekinn fyrir að "tala niður" gjaldmiðilinn
Ef marka má þessa frétt var Lettneskur fréttamaður handtekinn fyrir að dreifa "sögusögnum" um hugsanlega gengisfellingu "latsins".
Það kemur fram að um tvö tilfelli sé að ræða, þar sem "glæparannsókn" hefur verið hafin.
Það kemur líka fram í fréttinni að lögreglan hafi farið fram á það við fjölmiðla að þeir birti eingöngu fréttir af "latinu" sem hafi verið "lesnar yfir".
Sömuleiðis kemur fram í fréttinni að Lettneska þingið hafi á síðasta ári samþykkt lög sem banni dreifingu "orðróms" um gengisfellingu "latsins". Sé "orðróminum" komið af stað með það að markmiði að hagnast persónulega, er refsingin þyngri. Hámarksrefsing mun vera 6. ára fangelsi.
Það er varla að ég trúi því að ég sé að lesa fréttir frá árinu 2008 og það frá landi sem eru í Evrópu og "Sambandinu".
En það er ljóst að ríki (og alþingismenn) taka gjaldmiðla sína misjafnlega alvarlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Lítum svo á allt annað ástand í öðru landi: Það er ekki verið að refsa mönnum – jafnvel ekki að víta menn – fyrir að niðra krónunni hér á landi, segja hana "ónýta" og "verðlausa" o.s.frv., hér á landi – nei, álitsgjafar í fjölmiðlum og m.a.s. sumir fjölmiðlamenn og þingmenn apa þetta upp og gera það sama!!! En þetta er í raun skammarlegt athæfi; slíkir yrðu (lágmark) settir í gapastokk í Lettlandi!
En krónan hefur þannig verið rægð og afskrifuð í hugum margra, margfalt umfram jafnvel bágt ástand raunveruleikans; kaupmáttur (með krónu) hefur ekki fallið 100%, ekki einu sinni 50% og ekki 40%, en sennilega um meira en 20%. Við mælum ekki kaupmátt með gengisstöðu. Rógurinn afskrifar fyrir fram krónu sem á þó eftir að ná stöðugleika þegar hún kemst á flot og gjaldeyrisskipti verða eðlileg; IMF-lán og góð lán frá Norðurlöndum, Póllandi, Japan, Rússlandi og sennilega Bandaríkjunum gera þetta allt ekki aðeins mögulegt, heldur að veruleika von bráðar.
Bæði EBé-sinnar og krónurægjendur, þar á meðal álitsgjafar sem ýmsir telja hagfróða, hafa haldið uppi sleitulausum áróðri fyrir upptöku evru sem nauðsyn, jafnvel þótt hún yrði ekki að veruleika eftir innlimun í Ebé fyrr en um 2020 í fyrsta lagi!
Tilgangur þeirra er annarlegur og vopnið vítavert.
Jón Valur Jensson, 21.11.2008 kl. 04:05
Jón Valur: Það er rétt að hluti vandans hefur verið hve illa ráðamenn tala um krónuna. Það er afar sjaldgæft að heyra slíkt í Vestrænu ríki, ef ekki hreint einsdæmi.
Bjarne: Já, Lettar ganga of langt þarna að mínu mati, enda hljóta menn að mega tjá sig. Ég þekki ekki önnur dæmi um að slíkt hafi verið fest í lög (nema að sannað sé að tiltækið sé með annarlegum tilgangi og/eða hagnaðarvon).
En það eru víða sterkar hefðir hvað þetta varðar. Í Bretlandi vogar sér enginn stjórnmálamaður að tala illa um pundið, eða tala um hættu á "runni" eða hruni, nema að eitthvað einstakt sé um að ræða (skuggamálafjármálaráðherrann gerði það fyrir skemmstu og vakti það vægast sagt athygli). Líttu samt á hvaða vegferð pundið hefur verið.
Það hefur mikið verið rætt um orðspor Íslands erlendis. Hér í Kanada hefur Ísland alltaf notið álits og velvildar og er svo enn að ég best veit og finn. Ég var þó staddur í samkvæmi fyrir nokkrum mánuðum, þar sem m.a. voru menn úr fjármálalífinu. Eins og oft var ég spurður um Ísland. Einn spurði mig hvort það væri rétt að Íslenski viðskiptaráðherrann hefði sagt að krónan væri ónýt? Ég hummaði og sagði að hann hefði nú líklega ekki sagt þetta svona orðrétt, en já meiningin hjá honum væri þessi. Þá hló hann við og sagði: Og er hann ennþá ráðherra.
Það er ýmislegt sem getur skemmt orðspor og vakið athlægi.
G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 06:47
Bjarne.
Hver er munurinn á sovétsku lýðræði eða einræði að hætti Davíðs Oddssonar ?
Alli (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 08:47
Já, merkileg þessi saga sem þú segir af samtali þínu við fjármálamennina, Tómas. "Og er hann ennþá ráðherra?!" – En ég ætla ekki að gefa mér, fyrr en ég sé það staðfest, að Björgvin sjálfur hafi talað svona. Hafi svo verið, sýnist mér, að það ætti að vera (enn einn) nagli í "líkkistu" hans sem viðskiptaráðherra.
Svo vil ég taka fram, að ég var ekki að taka undir þessi hörðu fangelslsrefsiákvæði þeirra í Lettlandi. En ég skil, að þeir berjist af hörku gegn þeim, sem reyna að rífa efnhagskerfi þeirra niður – og þeir eru, NB, engir kommúnistar, en hafa eflaust lært, að ekki ber að taka með silkihönzkum á óþurftarmönnum samfélagsins, hvort sem þeir eru á snæri hjá Kremlarmönnum eða aðrir.
Jón Valur Jensson, 21.11.2008 kl. 15:15
Alli, það er nánast ALLUR munur á þessu tvennu. Spurning þín ber vitni um nær botnlausa fáfræði um kúgunar- og fjöldamorðsskipulag sovétkerfisins.
Jón Valur Jensson, 21.11.2008 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.