Ímyndaðu þér að það sé engin kreppa

Hallaðu aftur augunum og ímyndaðu þér að kreppan hafi aldrei komið til Íslands.  Bankarnir séu ennþá allir í fullu fjöri, ennþá er verið að flytja inn Range Rovera til landsins, Tónlistarhúsið sprettur upp hraðar en nokkru sinni fyrr og spáð er að jólaverslunin eigi aldrei eftir að verða meiri.

Allir útrásarvíkingarnir eru í góðum gír, Pálmi Haralds er enn að segja Íslendingum hvað Sterling gengi vel, FL Group er nýbúið að fara í gegnum aðra velheppnaða hlutafjáraukningu , Jón Ásgeir er átrúnaðargoð Íslendinga og er við það að kaupa stóran hlut í Saks og fréttir berast af því að hann standi sig vel í  "Gumball" kappakstri,  Jóhannes gamli er nýbúinn að tilkynna um vænt fjárframlag til Mannréttindastofu og nokkurra líknarfélaga,  Bjöggarnir drottna í Landsbankunum, á Mogganum og fleiri fyrirtækjum, West Ham á jafnvel séns á titlinum í ár, Bjarni Ármanns væri ennþá að keppa í spurningakeppnum. 

Ennþá er nóg að gera hjá byggingarmönnum, að vísu hefur eitthvað hægt á íbúðarbyggingum, en ennþá er nóg að gera við að byggja sumarhús og hallir á Þingvöllum og í Borgarfirðinum.  Margir hafa stórkostlegar áhyggjur af fjölda Pólskra verkamanna á Íslandi.

Fjölmiðlar væru bólgnir sem aldrei fyrr, auglýsingamagnið ykist ár frá ári og þeir hafa varla undan að senda blaðamenn sínan erlendis í boði útrásarmanna, til að skrifa um velgengni þeirra erlendis.  Bankamálaráðherra skrifar enn á vefsíðuna sína hvað Íslensku bankarnir standa vel, Fjármálaeftirlitið fær fleiri rauðvínsflöskur fyrir jólin, en nokkru sinni áður, leikfangaverslanir hefðu aldrei séð aðrar eins biðraðir.

Alls kyns þreyttir erlendir tónlistarmenn ættu örugga afkomu með því að koma fram á Íslenskum tónleikum, nú eða bara í afmælum og lókal partíum.  Íslenskir tónlistarmenn væru eiginlega hættir að koma fram á Íslandi, en allir færu í helgarferðir til London eða Köben, til að heyra þá skemmta.

Þjóðin hefði aldrei haft það betra og stjórnmálamenn lýstu daglega yfir upphafi alls kyns framkvæmda, jarðganga, nýrra stofnana, nú eða bara að að þeir ætli að borga hitt eða þetta fyrir okkur þegnana.  Dagvístun og annað slíkt væri löngu orðið "ókeypis".

Slagorðið "við erum ein ríkasta þjóð í heimi" væri enn í fullu gildi.

Hefði skattrannsóknarstjóri þá ráðist inn í Stoðir/FL Group?

Veltu því fyrir þér.

Hefðu Íslendingar talið að um ofsóknir væri að ræða?  Hefði málið verið tekið upp á Alþingi?  Hefði komið fram í kaupstaðaræðum að að Stoðir séu augljóslega ekki í "liðinu"?

Hefðu Eyjadrengirnir Lúðvík Bergvinsson og Árni Johnsen skrifað greinar í blöðin um "ofsóknirnar"?  Hefðu fréttirnar á Stöð 2 og Vísi haft annan tón?  Hvað hefði DV gert?   Hvernig hefðu Róbert Marshall og félagar á NFS matreitt málið? (Líklega hefði þó ekkert góðæri dugað til að sú stöð lifði af)  Hefði Ágúst Ólafur sett "málið" á syndalista ríkisstjórnarinnar? Hefðu hagfræðiprófessorar skrifað langar greinar í blöðin um misbeitingu valdsins? Hefði Valgerður Sverrisdóttir sagt að þetta væri runnið undan rifjum ráðherra? Hefði þess verið krafist að Árni Mathiesen og Björn Bjarnason segðu af sér?  Hefði þetta verið allt Davíð að kenna? 

Hvað hefði gerst?

Veltu því fyrir þér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Góð upp rifjun.

Ragnar Gunnlaugsson, 13.11.2008 kl. 13:30

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

En nú er það svona en ekki hinsegin og þessvegna líður fólki svona og þessvegna setur það kröfur. Ef þetta væri allt í fína segði auðvitað enginn neitt. Málið er hinsvegar að varað var við þessu stöðugt í ár á undan. Menn trúðu heldur þeim sem sögðu það sem þeir vildu heyra og hunsuðu hina. Þetta heitir afneitun og er þekkt hjá vímuefnasjúklingum m.a.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 14:54

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Góðar spurningar. Hvað ef......

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.11.2008 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband