Persónulegar ábyrgðir

Það hefur mikið verið rætt um persónulegar ábyrgðir á Íslandi undanfarna daga.  Sitt sýnist hverjum en ég held að yfirgnæfandi meirihluti sé almennt þeirrar skoðunar að við persónulegar ábyrgðir beri að standa og þær séu af hinu góða, hvetji til festu og réttrar hegðunar í viðskiptum.

Og það er líklega rétt, að ef ekkert stendur að baki láni með veðið eitt, er líklegt að hegðun manna breytist.  Það er ekki jafn mikið undir, það er þá eingöngu veðið sjálft (og eignin í því, ef hún hefur verið einhver) sem tapast, einstaklingarnir sjálfir sitja eftir með stórar skuldir sem fylgja þeim um árabil, eða þá að þeir neyðist í gjaldþrot.

Hin hliðin er væntanlegar sú, að ef eingöngu veðið er til lúkningar skuldinni, ætti lánastofnunin að vera þeim mun varkárari, lána lægra hlutfall, athuga lántakandann betur og meta vel hversu líklegt er að veðið muni rýrna, það er jú ekkert annað sem stendur að baki skuldinni.

Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum stendur að öllu jöfnu ekkert nema húseignin að baki fasteignalánum.  Þar geta því húseigendur gengið í burtu frá eignum sínum ef þeim sýnist svo án þess að eftirköst sé nokkur, nema sú að þeir lenda á svörtum lista, allar kröfur eru fyrir bí.  Slíkt getur þvi verið afar freistandi kostur fyrir þá sem hafa séð eignir sínar missa verðgildi niður fyrir þær skuldir sem hvíla á þeim.  Þeir senda þá einfaldlega bankanum lyklana (bankamenn kalla slíkan póst "jingle mail") og ganga í burtu lausir við skuldirnar.

Þess vegna getur það verið afar freistandi fyrir tekjulágt fólk að taka há fasteignalán, kaupa eign með lítilli útborgun þegar verðið er á sífelldri uppleið og allir halda að það geti eingöngu hækkað (það sama má auðvitað segja um hlutabréfakaup).  Ef að við bætist að lánveitandinn athugar greiðslugetu lántakandans (eða skynsemi fjárfestingarinnar) lítið eða ekkert (t.d. vegna þess að hann ætlar sér ekki að eiga lánið, heldur selja það áfram), nú eða vegna þess að honum er uppálagt af stjórnvöldum að gæta "jafnræðis" í lánveitingum, þá er einu eldfimu efni bætt í blönduna.  Lágir "kynningarvextir" eru síðan auka eldsmeti, sem verður eldfimarar með tímanum.

Sprengingin verður svo þegar húsnæðisverð lækkar (það sama á líka við um hlutabréfakaup) og margir sitja uppi með lán sem þeir hafa ekki getu eða áhuga á að greiða.

En áhættusæknin verður vissulega meiri, ef persónulega ábyrgðin er ekki til staðar.

Þess vegna eru u.þ.b. 7% fasteignalána í Bandaríkjunum í uppnámi.

Uppnámið í Kaupþingi hefði hinsvegar orðið ef persónulega ábyrgðirnar hefðu ekki verið feldar niður, því þá hefði þurft að tilkynna til Kauphallarinnar að innherjar væru að selja bréfin sín í stórum stíl.  Í tilkynningunum hefði ekki komið fram að það væri vegna veðkalla.

Persónulegar ábyrgðir geta því verið til bæði góðs og ills, en ekkert kemur í staðinn fyrir að lántakandi og lánveitandi hugsi málið og geri sér grein fyrir því að að eignir geta bæði hækkað og lækkað í verði.

Það virðist í mörgum tilfellum hafa verið ábótavant í þeim dæmum sem hér eru nefnd.

Það voru nefnilega þeir sem skulduðu mest, sem högnuðust mest.  Eða þannig hljómaði töfraformúlan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband