30.10.2008 | 13:47
Verður niðurstaða Viðskiptanefndar Alþingis sú að eignarréttur gildi á Íslandi og einstaklingum verði ekki refsað án rökstudds gruns um afbrot?
Það er margt sem alþingismenn taka sér fyrir hendur.
Stundum fæ ég á tilfinninguna að lýðskrum sé ekki hvað minnsti þáttur starfans, alla vegna hjá mörgum þingmönnum.
Þessi frétt af vef RUV er allt að því kómísk og ætla ég því að taka mér það leyfi að birta hana hér í heild sinni.
Ekki er hægt að frysta eignir stærstu hluthafa fjármálafyrirtækja nema sýnt sé fram á rökstuddan grun um lögbrot. Þetta kemur fram í lögfræðiáliti sem lagt hefur verið fram í viðskiptanefnd Alþingis.
Þingflokkur vinstri grænna óskaði eftir því í viðskiptanefnd Alþingis fyrir viku síðan að kannaðar yrðu lagalegar forsendur þess að kyrrsetja tímabundið allar eignir innlendra fjármálafyrirtækja sem komist hafa í þrot, eigenda þeirra og tengdra aðila hér á landi og setja bann við kvers kyns ráðstöfun, sölu og veðsetningu og þar fram eftir götunum.
Einnig hvort hægt væri að leggja hald á og eftir atvikum heimta til landsins eignir sömu aðila erlendis, allt í því skyni að gæta hagsmuna þjóðarbúsins.
Lögfræðingar nefndasviðs Alþingis skiluðu viðskiptanefnd grunnsamantekt á málinu en tóku fram að ekki væri um tæmandi úttekt að ræða.
Í álitinu sem fréttastofa hefur undir höndum segir að ekki sé að finna í lögum sérstakt ákvæði sem heimili frystingu eða kyrrsetningu eigna hluthafanna án þess að sýnt sé fram á rökstuddan grun um lögbrot. Þó séu í lögum ýmis ákvæði sem heimili kyrrsetningu í tengslum við athafnir á fjármálamarkaði og einnig í tengslum við almenn hegningarlög og lög um meðferð opinberra mála, en þá séu ætíð sett fram skilyrði um að minnsta kosti rökstuddan grun um brot.
Þá segir ennfremur í álitinu að með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum eignarrétti og skorti á persónulegri ábyrgð hluthafa í hlutafélögum sé nauðsynlegt að gæta meðalhófs við uppgjörið eftir fall bankanna og að aðgerðir verði sem minnst íþyngjandi en nái þó takmarki sínu.
Það er sem sé að koma í ljós (hver hefði getað giskað á það) að það þurfi rökstuddan grun um afbrot til þess að hægt sé að refsa einstaklingum. Sömuleiðis virðist það koma fram í lögfræðiálitinu að virða beri eignarétt á Íslandi, eins og yfirleitt hefur verið venjan.
Einhverjum þingmönnum þykir það sjálfsagt slæmt að ekki séu til "hryðjuverkalög" á Íslandi sem hægt er að grípa til, svo hægt sé að frysta eigur "auðmanna".
Gordon Brown hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.