Mér finnst athyglivert

Ég er alltaf að rekast á eitthvað athyglivert á netinu.

Það sem hefur m.a. vakið athygli mína í dag er:

Blogg Gaflarans Gunnars Axels.  Þar fjallar hann um fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.

Þar segir m.a.:

Í stað þess að einbeita sér að því að ávaxta sjóðinn hægt og örugglega tóku menn þá stefnu að setja peningana þangað sem vænta mátti bestrar ávöxtunar en einnig mestrar áhættu. LSR fjárfesti þannig minna og minna í ríkistryggðum bréfum og lítið í framleiðslufyrirtækjum á borð við Össur og Marel en þeim mun meira í FL Group, Kaupþingi, Exista og Landsbankanum.  Það var það sem Ögmundur og félagar lögðu höfuðáherslu á umliðnum árum.  Til að græða nú örugglega nógu mikið á sem skemmstum tíma bættu svo Ögmundur og félagar enn í með því að setja slatta í peningasjóði og ríflega summu í allskyns erlenda hlutabréfasjóði með svakalega fínum og flottum nöfnum, sbr. ACM Global Growth Trends og State Street Enhanced Fund.

Og

Ögmundur hefur gengið fram fyrir í gagnrýni sinni á stjórnvöld, bankana, talað um græðgi og tilkynnt þessari blindu þjóð að hann hafi jú vitað þetta allan tímann. Hann og félagar hans í VG vissu allan tímann að bankarnir voru byggðir á sandi, að útrásarsöngurinn var innantómt væl.

Hvernig stendur þá á því að Ögmundur Jónasson tók ekki ákvarðanir í samræmi við þessa vissu sína þegar hann ráðstafaði því sem með sanni má kalla fjöregg þjóðarinnar, lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, á bál þeirrar gróðahyggju sem hann vill nú ekki kannast við að hafa nokkru sinni kynnt undir?

Verður vinstrisinnaði verkalýðsforinginn ekki að svara fyrir þetta áður en hann gefur sjálfum sér hvítþvottarstimpilinn?

 Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til málsins, en mér þykir umfjöllunin athygliverð.  Ef einhver hefur meiri viteskju um málið, eða eitthvað til málanna að leggja þætti mér fengur að því í athugasemdum.

En annað sem vakti athygli mína í dag, var umfjöllun, ef til vill á léttari nótunum, á vefnum www.t24.is  Þar undir liðnum "Götuhornið" var fjallað um það hve sagan getur verið óvægin dómari.

Þar segir, og ég tek mér það bessaleyfi að birta greinina í heild sinni:

Undir lok síðasta árs valdi Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins Jón Ásgeir Jóhannesson sem mann ársins í íslensku viðskiptalífi. Árið áður taldi blaðið að Hannes Smárason, fyrrum forstjóri FL Group, hefði staðið öðrum framar í viðskiptum hér á landi.

Sérstök dómnefnd sá um valið en á síðasta ári var Björgólfur Thor Björgólfsson í öðru sæti, Róbert Wessman, fyrrum forstjóri Actavis, í þriðja og Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, í fjórða sæti.

Dómnefndin fékk einnig það verkefni að velja bestu viðskipti ársins 2007 og niðurstaðan:

  • Sala Novators á búlgarska símanum BTC,
  • Icesave reikningur Landsbankans
  • Hlutafjáraukning Baugs í FL Group væru bestu viðskipti ársins.

Dómnefndina skipuðu eftirtaldir:
 
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ágúst Einarsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jafet Ólafsson hjá VBS fjárfestingabanka, Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Ásta Dís Óladóttir, dósent á Bifröst, Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Hafliði Helgason, fyrrverandi ritstjóri Markaðarins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, Friðrik Már Baldursson, prófessor í HR, Hrund Rudólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Milestone og formaður stjórnar SVÞ, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Rétt er að taka fram að ofangreint segir ekkert um það hvernig einstakir meðlimir dómnefndar köstuðu atkvæðum sínum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband