Kauptækifæri? Viltu kaupa 100.000 kall - á þrjú þúsund?

Þessi frétt frá Bloomberg segir auðvitað ekki nema eitt.  Þeir sem eiga skuldabréf á "gömlu" Íslensku bankanna telja líkurnar á því að skuldir þeirra verði greiddar séu u.þ.b. engar.  Þeir telja að þó að einhver möguleiki sé á því að eitthvað fáist upp í kröfurnar séu til staðar en allt yfir 3% sé afar ólíklegt.

En skuldabréf Íslensku bankanna eru upp á háar fjárhæðir, ef marka má frétt Bloomberg, eru upphæð þeirra í kringum 60 milljarða dollara.  Það er all nokkurt fé.  Ekki síst ef það er borið saman við það lán sem er verið að tala um að slá upp á 6 milljarða dollara.

En það má þá leiða getum að því að þessi skuldabréf upp á $60 milljarða fengjust keypt á $1.8 milljarða, þ.e. ef við beitum 3.% tilboðinu á upphæðina.

Fyrir þá sem hafa haft hæst um að Íslendingar ættu að borga skuldir bankanna ætti þetta auðvitað að líta út sem gríðarlegt kauptækifæri.

Líklega er vænlegast fyrir eigendur þessarra skuldbréfa að selja þau með þessum afföllum á Íslandi. 

Búta þau niður á milljón krónu stykki og selja á 30.000.  Þeir sem hafa haft sem hæst um að Íslendingar eigi ekki að hlaupa frá skuldunum hlýtur að lítast vel á slík viðskipti. 

Líklega þarf ekki nema að reka Davíð, og þá verða Íslendingar auðvitað allir sammála um að greiða þetta.

Persónulega vil ég hins vegar taka undir það að Íslendingar eigi ekki að borga skuldir bankanna erlendis.  Þeir voru ekki ríkisfyrirtæki, þeir störfuðu ekki með ábyrgð hins opinbera, hvað þá almennings.

Hér má lesa frétt Bloomberg


mbl.is Ódýrari en Enron og Parmalat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er þeirrar skoðunar að þegar "skíturinn fer í viftuna", þá gefst yfirleitt best að horfast í augu við það hvernig ástandið er og gera sér grein fyrir því hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Ég get ekki séð að það sé möguleiki í stöðunni að hið opinbera borgi skuldir bankanna erlendis, hvort sem við viljum telja þá óreiðumenn eður ei.  Ég persónulega geri skýran greinarmun á skuldum og innlánum, eða debts og deposits.

Ég veit ekki hvort að yfirlýsingar DO og ÁM hafi verið Íslendingum til framdráttar, en ég get ekki séð að það hafi verið til vandræða að þeir töluðu um hvernig ástandið væri, því að þá hlýtur að hafa verið nokkuð ljóst að Íslendingar réðu ekki við að borga þessar skuldir.

Getur það horft til verri vegar að tala um hlutina eins og þeir eru?  Er ekki betra að horfast í augu við raunveruleikann?

Hvað vildu menn gera?  Stara ofan í bringuna á sér, jáa, humma og tala óskýrt í einhverjar vikur þangað til þeir kæmust að þessari niðurstöðu, að Íslendingar standa ekki undir því að greiða þessar skuldir?

Ég get ekki skilið það á annan veg en að sumir hafi einhverjar ranghugmyndir um að Íslendingar geti staðið við þessar skuldbindingar, hví eru menn svo reiðir yfir því að sagt var að ekki stæði til að borga erlendar skuldir bankanna?

Hitt er svo annað mál, að ef til vill hefði farið betur á því að einhver annar hefði komið með þessa yfirlýsingu, t.d. bankamálaráðherrann eða forsætisráðherrann, en auðvitað þarf sannleikurinn að koma fram.

G. Tómas Gunnarsson, 20.10.2008 kl. 21:08

2 identicon

Heldur þú virkilega Bjarni að Bretland hafi sett hryðjuverkalög á okkur vegna þýðingar á orðum DO og ÁM? Ekki vera barn.

Andri (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 21:13

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Góð færsla, G. Tómas, ég er sammála. Maður velti þessu líka fyrir sér með verð bréfanna, en auðvitað fæst þetta ekki allt á þessu gjafverði sem Bloomberg talar um.  Um leið og áhugasamur kaupandi birtist, þá hækkar verðið. Þessir 7000 milljarðar króna (í dag) af bankaskuldum fara ekki svo auðveldlega í burtu. Svo eru þeir kannski 9000 milljarðar um leið og krónan fer á markað aftur.

Ætli ríkið hafi ekki verið að reyna að semja um 10 cent á dollarinn (10% greiðslu)? Það þætti mörgum bankanum súrt í broti, sérstaklega ef innlendir sparifjáreigendur eiga að fá 100% greiðslu.

Davíð sagði hlutinn hreint út eins og alltaf og það ver vel á því, sérstaklega miðað við véfréttirnar frá öðrum, sem segja ekkert í tvær vikur.

Ívar Pálsson, 20.10.2008 kl. 23:24

4 Smámynd: Riddarinn

já góðar og fræðandi umsagnir hjá ykkur flestum og maður fær yfir sig baráttu anda Vikinganna þar til maður hvæsir næstum og froðufellir en............. svo veit maður ekki hvað það gagnast og kemst í gamla góða skapið 

En í mínum huga er íslenska þjóðin með gersamlega allt niðri um sig vegna þessa klúðurs í bankaheiminum og vegna aðstæðnanna sem komu upp á sama tíma allstaðar frá og einhverjir sofnuðu á eftirlitsvaktinni á síðustu árum.

En hverra sem sökin er þá er númer 1 að koma hjólunum í gang og rífast og berjast um sökudólganna seinna á ferlinum þegar búið er að stöðva mestu óreiðuna í bili.

Við íslenska þjóðin getum einfaldlega ekki borgað þessar svívirðulegu fjárhæðir, það sér það hver heilvita maður ef hann er þokkalega hugsandi og inní málum sem eru að gerast.

En......... það er varla er varla annar kostur í stöðunni nema að borga ef þjóðin á ekki að einangrast frá ýmsu í umheiminum í aðgerðum sem myndu beinast að okkur á marga vegu leynt og óljóst.

Við eru einfaldlega berskjaldaðri en flestar aðrar þjóðir og okkar búseta á þessu kalda skeri er undir því komin að við fáum aðföng erlendis frá á mannsæmandi verði með eðlilegum fórnum eins og nágrannar okkar í Evrópu löndunum.

Ísland er einfaldlega að falla af þeim stalli að vera með betur stæðum þjóðum , fellur í of skuldsetta þjóð með takmörkuð fjárráð til að halda uppi Evrópskum standard í allt og öllu.Þetta kostar einfaldlega allt peninga að halda uppi 1 stk. Íslandi og er ekki ódýrt né hagkvæm stærð eða staðsetning ,eins mannfá og við erum.

En ........ verðum víst að bíða í óvissunni og naga neglurnar um hvernig framtíðin verður hérna á landi fyrir okkur og börnin okkar og barnabörn.

En við finnum leiðir..........einhvern veginn hljótum við að koma niður á lappirnar, bara að draga andann djúpt og...............

Riddarinn , 21.10.2008 kl. 08:52

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bjarni:  Ég er alveg sammála þér að Íslenskir ráðamenn hafa staðið sig með ágætum við afar erfiðar aðstæður.  Björgvin hefur sömuleiðis vaxið með hverri raun og átt góðan leik, þó að honum hætti ofurlítið til að lofa upp í ermar sér.

En það hafa heldur ekki verið þeir sem hafa gagnrýnt yfirlýsingar seðlabankastjórar.  Ég get hins vegar ekki tekið undir það að seðlabankastjóri hafi talað óskýrt, alla vegna fannst mér það ljóst hvað hann meinti, enda talaði hann ekkert "fedspeak".

Ekkert kom fram um að Íslendingar hyggðust ekki standa við skuldbindingar um innlán.  Þvert á móti.  Sú lagabreyting sem gerði innlán að forgangskröfum sýndi hug Íslenskra stjórnvalda til innlánseigenda.

En það á eftir að koma í ljós hvað skuldabréfaeigendur fá mikið út úr Íslensku bönkunum, ef það verður eitthvað.  En þau afföll sem eru boðin gefa vísbendingu í þá átt.

En auðvitað greiddi Bandaríkjastjórn ekki skuldabréf Lehmann bræðra þegar sá banki fór á höfuðið og þannig hefur það verið með fleiri banka sem hafa horfið, ríkisstjórnir viðkomandi landa hafa ekki yfirtekið skuldirnar.  Ekki frekar en ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ítalíu greiddu skuldabréf Enron eða Parmalat.

Það sem gerir Íslenska dæmið þó flóknara, er að bankarnir fóru ekki í þrot, þeir voru teknir yfir af skilanefndum sem störfuðu undir stjórn fjármálaeftirlitsins.

Það er því ekki óeðlilegt að þeir "nýju" bankar sem stofnaðir voru greiði hæfilegt fé til hinna "gömlu" banka fyrir þær eignir sem þeir taka yfir.  Það verður þá til reiðu þegar "gömlu" bankarnir verða gerðir upp.

Hreinlegast hefði í sjálfu sér verið að setja gömlu bankana hreinlega í þrot.  Þá hefði farið fram hefðbundin gjaldþrotaskipti, þó með þeirri breytingu að inneignir hefðu verið forgangsréttarkröfur eftir breytingu á Íslenskum lögum.  Skuldabréfin hefðu ekki verið meira virði með þeirri aðferð að ég tel.

Hitt er þó augljóst að tjón Íslands og Íslendinga hefði orðið þeim mun stórkostlegra með þeirri aðferð.  Allt fé hefði verið frosið svo mánuðum skipti, starfsfólk misst vinnuna o.s.frv.

Aðgerðir stjórnvalda voru því nauðvörn í þágu þjóðarinnar.

G. Tómas Gunnarsson, 21.10.2008 kl. 17:09

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bjarni:  Þegar ég var ungur maður á Akureyri þá vandist ég því að við gerðum greinarmun á skuldum og innlánum.  Bankinn skuldaði mér ekki peninga, heldur átti ég inni hjá bankanum.

Sömuleiðis var talað um að bændur ættu inni hjá Kaupfélaginu, eða að þeir skulduðu þar fé.  Það var ekki talað um að Kaupfélagið skuldaði velstæðum (þeim sem áttu inneign) bændum fé.

Hefur þessi skilningur eitthvað breyst fyrir norðan?

G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband