13.10.2008 | 15:24
Lýðskrumarar og frysting eigna auðmanna
Það er átakanlegt að fylgjast með umræðunni um sem komin er af stað um að frysta eigur auðmanna sem tóku þátt í Íslensku "útrásinni", eða skuldsetningunni eins og nú er víst farið að kalla þetta.
Í fjölmiðlum og bloggum má heyra þá kröfu að eignir "auðmanna" verði frystar. Meira að segja stjórnmálamenn kyrja nú þennan söng. Í það minnsta hef ég heyrt Ágúst Ólaf Ágústsson og Steingrím J. Sigfússon taka þetta upp.
Hvað eru mennirnar að meina? Er eignarétturinn eitthvað sem ekki ber að virða lengur á Íslandi?
Ég get fyllilega skilið að stjórnmálamenn sem og aðrir séu óánægðir með ástandið, en lög verða að ríkja. Lögleysan má ekki taka við. Lýðskrumið ekki heldur.
Ef rökstuddur grunur (n.b. rökstuddur) er um að einhverjir af "auðmönnunum" hafi brotið lög, þá getur frysting eigna verið réttlætanleg og eðlileg, en það verður þá að fara rétta leið.
Hafi Ágúst Ólafur Ágústsson eða Steingrímur J. Sigfússon (nú eða einhverjir aðrir) rökstuddan grun um að um ólöglegt athæfi sé að ræða, eiga þeir auðvitað að leita til viðeigandi yfirvalda og afhenda þeim gögn sín og/eða skýra frá grunsemdum sínum. Það væri sjálfsagt og eðlilegt að tryggja "whistleblowers" einhverja "vernd" eða sakaruppgjöf ef slíkt væri í stöðunni.
Það er ekki rétta leiðin að koma í sjónvarp, dæla út úr sér dágóðum skammti af lýðskrumi og gera svo ekki neitt.
Það er sérstakt áhyggjuefni að þeir sem starfi á löggjafarsamkundunni hagi sér með slíkum hætti.
Það er raunar ótrúlegt til þess að hugsa að einstaklingar sem höfðu allt á hornum sér þegar eitt stærsta fyrirtæki landsins sætti löglegri og eðlilegri rannsókn og töluðu um ofsóknir, skuli nú vilja frysta eigur einstaklinga án þess að hafa nokkuð til málanna að leggja sem rökstyddi slíka aðgerð eða bent á nokkur lög sem réttlæti hana.
Með lögum skal land byggja, en lýðskrumi eyða.
Hvað sem gengur á verður landið og hreingerningin sem nú gengur yfir að byggjast á lögum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Facebook
Athugasemdir
Ég býst fastlega við að þú eigir við Gjeir Haaarde með orðunum:,,Það er ekki rétta leiðin að koma í sjónvarp, dæla út úr sér dágóðum skammti af lýðskrumi og gera svo ekki neitt? Nema þú eigir við ríkisstjórn Gjeirs Haaarde í heild.
Og hvað, á að eyða lýðskrumi með lögum? Það væri gaman að sjá hvernig slík lög virkuðu í framkvæmd.
Jóhannes Ragnarsson, 13.10.2008 kl. 20:44
Ég var nú einfaldlega að tala um þá félaga Ágúst Ólaf og Steingrím J. Þeir koma í sjónvarp og láta stór orð falla um að athuga þurfi að frysta eigur "auðmanna", en bakka það ekki upp með neinum rökstuðningi að þessir menn hafi brotið lög, eða hvers vegna til slíkrar aðgerðar ætti að koma.
Það kalla ég lýðskrum.
Ég geri mér þó fyllilega ljóst að mismunandi skilgreiningar eru á orðinu lýðskrum og fer líklega mest eftir því hvar menn standa í pólítík. Margir virðast sömuleiðis halda að þeir sem noti stærstu orðin vinni rökræðuna.
Það er ekki mín skoðun.
G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2008 kl. 21:11
Ég gleymdi víst að svara þessu með lýðskrumið.
Lýðskrum eyðir landinu, ekki í einu vetfangi heldur hægt, en ef til vill ekki mjög hljótt.
G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2008 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.