6.10.2008 | 20:59
Sambandsparadís Árna Páls
Það er ótrólegt að lesa að til skuli vera þingmenn sem trúi á töfralausnir. Mér þykir það líka ótrúlegt að lesa að Árni Páll skuli halda því fram að efnahagslegur stöðugleiki ríki í Eystrasaltsríkjunum. Það er eitthvað annað en ég er að lesa í fréttum þaðan. Sjálfur reyni ég að fylgjast með fréttum frá Eistlandi, en þekki minna til í Lettlandi og Litháen, en er þó sagt að ástandið sé svipað í löndunum þrem, þó að vissulega megi ekki tala um þau sem eitt.
En stöðugleikinn í Eistlandi er sá að gjaldmiðillinn, Eistneska krónan, er tengd euroinu. Stöðugleikinn jókst þó ekki við inngöngu Eistlands í "Sambandið", því krónan var með fast gengi gegn euro áður, og fyrir upptöku euro, var krónan fasttengd Þýska markinu. Breytingin á þessu sviði við inngöngu, eða yfirlýsingu um vilja þess efnis var engin.
Stöðugleikinn hefur reyndar ekki verið meiri en svo að Baltnesku þjóðirnar hafa þurft að fresta upptökur eurosins í tvígang. Nú er talið að þeir eigi í fyrsta lagi möguleika á euro upptöku árið 2012, nb, í fyrsta lagi.
En stöðugleikinn í Eistlandi er slíkur að nú segir í fréttum að efnahagsástandið hafi ekki verið bágbornara í 16. ár. Það er síðan 1992.
Verðbólga hefur á þessu ári verið í tveggja stafa tölu í löndunum öllum, hæst í Lettlandi um 16%. Þó er útlit fyrir að hún sé á hraðri niðurleið með snöggkólnun hagkerfanna.
Atvinnuleysi hefur verið að aukast í Eistlandi og er nú komið yfir 5%. Þetta mikla atvinnuleysi (sem er þó lægra en víða í "Sambandinu", hefur verið að aukast, þrátt fyrir að tugir þúsunda ungra Eistlendinga hafi haldið á brott til að leita atvinnu annarsstaðar. Vissulega má segja að sú staðreynd að þeir geti það (vegna "Sambands" aðildar,) sé af hinu góða, en til framtíðar er það ekki góð músík.
Fasteignamarkaðurinn er í algeru uppnámi og hefur fasteignaverð í Tallinn fallið um ca. 25% síðastliðið ár. Í nágrannabæjum hefur fallið jafnvel verið meira.
Hlutabréfamarkaðurinn í Eystrasaltslöndunum hefur eins og alls staðar annarsstaðar verið á hraðri niðurleið. Þannig féll vístalan í Eistlandi um 3.3% í dag, ríflega 5% í Lettlandi og hátt í 9% í Litháen í dag. Þetta er rétt eins og annarsstaðar viðbót við fall undanfarinna vikna og í takt við það sem gerist með fjármálafyrirtæki annarsstaðar, hvort sem þau eru rekin í löndum sem eru í "Sambandinu" eður ei. Hér er má sjá viðskipti í Kauphöllinni í Eystrasaltsríkjunum.
Fitch lækkaði nýverið einkunnir sínar fyrir öll Eystrasaltslöndin. Umsögnin var sem hér segir:
Estonia:
Long-term foreign currency IDR: downgraded to 'A-' (A minus) from 'A'. Outlook remains Negative
Long-term local currency IDR: downgraded to 'A' from 'A+'. Outlook remains Negative
Short-term foreign currency IDR: affirmed at 'F1'
Country Ceiling: downgraded to 'AA-' (AA minus) from 'AA'Latvia:
Long-term foreign currency IDR: downgraded to 'BBB' from 'BBB+'. Outlook remains Negative
Long-term local currency IDR: downgraded to 'BBB+' from 'A-' (A minus). Outlook remains Negative
Short-term foreign currency IDR: downgraded to 'F3' from 'F2'
Country Ceiling: downgraded to 'A' from 'A+'Lithuania:
Long-term foreign currency IDR: downgraded to 'A-' (A minus) from 'A'. Outlook remains Negative
Long-term local currency IDR: downgraded to 'A' from 'A+'. Outlook remains Negative
Short-term foreign currency IDR: affirmed at 'F1'
Country Ceiling: downgraded to 'AA-' (AA minus) from 'AA'
Framtíðarhorfur fyrir öll löndin fá neikvæða einkunn. Er þetta ekki nokkuð svipað og er að gerast með Ísland? Það virðist ekki allur munur á hvort að ríki séu innan "Sambandsins" eða utan.
Það er hinsvegar eitt sem er gríðarlegur munur Eistlandi í hag, þegar borið er saman við Ísland.
Eftir því sem ég kemst næst er enginn banki sem starfar í Eistlandi í Eistneskri eigu lengur. Það kann að hafa verið talinn galli fyrir nokkrum misserum, en er ótrúlegur og ótvíræður kostur í dag. Þó að húsnæðisbólan sé sprungin, og útlán hafi verið ógætileg er eignarhald bankanna ekki innlent.
Einn af umsvifamestu bönkum í Eistlandi hefur verið Swedbank, en hann keypti Hansabank af innlendum eigendum. Fyrir ekki svo löngu síðan var svo Hansabank lagður formlega niður og nafninu breytt í Swedbank. Orðrómur hefur verið uppi undanfarna daga um vandræði Swedbank, m.a. vegna ógætilegra lána í Eystrasaltslöndunum, en þau vandamál verða á könnu seðlabanka Svía, en ekki Eistlendinga. Hér má sjá þróun hlutabréfaverðs í Swedbank. Hlutabréf bankans eru ekki í Baltnesku kauphöllinni.
Staðreyndin er sú að uppgangurinn í Eystrasaltslöndunum er ekki aðild að "Sambandinu" að þakka. Uppgangur á Íslandi er heldur ekki því að þakka að Ísland hefur staðið utan þess. Uppgangurinn var í báðum tilfellum að þakka aðgang að ódýru lánsfé. Aðgang sem er ekki til staðar lengur.
Þessi aðgangur var notaður til að byggja upp fyrirtæki, en ekki síður til þess að fjármagna gríðarlega aukningu í einkaneyslu.
Hér fyrir neðan má sjá línurit yfir aukningu skulda heimilanna í Lettlandi. Ég hef því miður ekki sambærileg línurit yfir Eistland eða Ísland, en líklega væru þau ekki svo mjög frábrugðin.
Það eru ekki til neinar töfralausnir. Því fyrr sem alþingismenn og Íslendingar gera sér grein fyrir því, því betra. Það er engin önnur lausn til en að vinna sig út úr vandanum.
Framleiða meira, flytja meira út, eyða minna og slá minni lán (nokkuð sjálfgert þessa dagana). Reyna að auka erlenda fjárfestingu og ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það er það eina sem dugar nú um stundir, nýta auðlindir og búa til verðmæti.
En Eistlenskir stjórnmálamenn hafa líka brugðist við á annan hátt en Íslenskir. Þeir hafa gert sér grein fyrir því að það þarf að draga saman seglin og að það gildi um hið opinbera eins og aðra. Lagt var upp með að samdráttur á rekstri hins opinbera yrði 8%, og er hið opinbera þar þó ekki eins bólgið og það Íslenska.
En Eistnesk ráðuneyti hafa verið að spara, segja upp fólki, um það má lesa t.d. hér, hér, hér og hér.
Þetta mættu Íslenskir ráðamenn taka sér til fyrirmyndar og skera hraustlega niður hjá hinu opinbera.
Líklega hafa sjaldan eða aldrei meiri erfiðleikar verið framundan á Íslandi en nú. Það er ótrúlegt að það skuli vera til alþingismenn sem boða að til séu töfralausnir. Slíkir menn eiga að mínu mati ekkert erindi á Alþingi.
P.S. Segir þessi frétt ekki allt sem segja þarf um hversu mikið haldreipi "Sambandið" verður Eistlendingum, eða yrði Íslendingum þegar stormurinn geysar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.