16.9.2008 | 18:09
Varhugaverður fréttaflutningur?
Ekki leið á löngu eftir að ég hafði sett inn síðustu færslu að ég sá frétt sem talaði á móti hugmyndinni. Hún er sömuleiðis á vef RUV.
Reyndar þykir mér fréttin veruleg slæm og illa unnin.
Hér er fréttin í heild:
"Virkjun í Mývatnssveit varhugaverð
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, formaður SUNN, samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, telur mjög varhugavert að gerð verði 50 megavatta virkjun í Mývatnssveit, eins og Félag landeigenda í Reykjahlíð vill gera, reynist næg jarðvarmaorka í eignarlandi þeirra skammt vestan og norðan lóðar fyrrverandi Kísiliðju.
Þeir hafa sótt um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingarleyfi til iðnaðarráðherra, en viðamiklar rannsóknir hafa farið fram austan fyrirhugaðs svæðis á vegum Landsvirkjunar í tengslum við svonefnda Bjarnarflagsvirkjun.
Kostnaður við fyrirhugaða virkjun er á bilinu 5-8 miljarðar, en landeigendur segja að nú þegar séu kaupendur að raforkunni, en ekki fæst uppgefið að svo stöddu hverjir þeir eru. Gangi allt að óskum er talið að raforkuframleiðsla geti hafist innan 5 ára. "
Það er eiginlega með eindæmum að fjölmiðill á við Ríkisútvarpið skuli birta frétt þar sem segir að hugsanleg virkjun sé varhugaverð. Og svo ekkert meir.
Ekkert er í fréttinni hvers vegna virkjunin sé varhugaverð, ekkert um einhverjar hættur sem hugsanlega fylgja byggingu hennar. Ekkert um að merkileg náttúra hverfi, eða dýralífi, eða gróðri stafi hætta af byggingu hennar. Engin rök. Ekkert.
Lesendur eiga betra skilið en að vera skildir eftir með ótal spurningar og engin svör. Því er slegið fram að virkjunin sé varhugaverð, en ekkert gert til að útskýra hvers vegna, hvað valdi.
Líklega flokkast þetta undir varhugaverðan fréttaflutning.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.