9.9.2008 | 15:15
Blessaðar kosningarnar
Eitt af því fyrsta sem gerist þegar boðað er til kosninga hér í Kanada er að lóðir þeirra sem eru virkir í pólítíkinni fara að fyllast af skiltum sem lýsa yfir stuðningi við einn eða annan frambjóðenda.
Fyrstu skiltin komu einmitt upp hér í hverfinu í gærdag. En staðan er svolítið skrýtin hér í Kanada núna að ég tel. Í fyrsta lagi er hætta á því að kosningarnar hér hreinlega falli í skuggann af baráttunni sunnan við landamærin.
En ég held að margir hér séu orðnir nokkuð þreyttir á þessum endurteknu kosningum, en mér heyrist þó á mörgum að þeir skilji að það sé nauðsynlegt að fá sterkari stjórn, stjórn sem geti starfað af krafti.
En Harper hefur sagt að hann sjái ekkert nema klemmur framundan, og hann geti ekki starfað með stjórnarandstöðunni, ekki náð við hana samkomulagi.
Harper hefur þó líklega litist vel á að keyra í kosningar nú, vegna þess hve veik stjórnarandstaðan er. Íhaldsflokkurinn á því góða möguleika á því að styrkja sig, þó að þeir þurfi verulega hagstæð úrslit til þess að ná meirihluta. Líklegasta niðurstaðan úr kosningunum er sterkari minnihlutastjórn Íhaldsmanna.
Eins og víðast hvar um heiminn verða það næsta örugglega efnahagsmálin sem verða ráðandi í kosningunum. Efnhagurinn er mjög mismunandi í Kanada. Vestursvæðin, Alberta, Saskatchewan og jafnvel Manitoba eru á frekar góðri siglingu, en BC, Ontario, Quebec og austur svæðin eiga í nokkrum vandræðum.
En umhverfismál munu líka verða nokkuð fyrirferðarmikil, Græni flokkurinn sækir verulega í sig veðrið í skoðanakönnunum, er með á bilinu 9 til 10% fylgi og tekur það einna helst er virðist frá Frjálslynda flokknum (Liberal Party). NDP (New Democratic Party) er síðan til vinstri við þá Frjálslyndu og sækja sömuleiðis á þá.
Í hverju kjördæmi (riding) eru oftast nær 4 eða fleiri flokkar í framboði. Það gerir það að verkum að þingsætið vinnst gjarna á fylgi sem er á milli 35 og 40%. Einmenningskjördæmaskipunin gerir það því að verkum að meirihluti kjósenda í viðkomandi kjördæmi er án þess að hafa fulltrúa á þinginu.
En svo eru líka dæmi um að flokkar bjóði ekki fram í öllum kjördæmum. Frjálslyndi flokkurinn hefur t.d. gert samning við Græna flokkinn um að bjóða ekki fram í kjördæmi því sem formaður Græna flokksins býður fram í. Skrýtin ráðstöfun, en ekki óalgengt að slíkt gerist í Kanadískum stjórnmálum, þar sem flokksræðið er miklu sterkara en t.d. Íslendingar eiga að venjast.
Boðað til kosninga í Kanada | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.