4.9.2008 | 05:01
Allur lurkum laminn
Þá er fjölskyldan kominn aftur heim á Bjórá, eftir afar vel heppnað ferðalag norður á bóginn. Rétt um 30 stiga hiti og sól alla dagana og "norðrið" skartaði sínu fegursta.
Bloggritari hefur ekki þótt vænlegt efni í "strandljón", en lét sig þó hafa það að sýna á sér nábleika vömbina á hinum aðskiljanlegustu baðströndum þar nyðra, enda líkurnar á því að ég hitti baðstrandargesti aftur afar litlar.
Að sjálfsögðu uppskar ég góðan bruna á bæði baki og öxlum og lít nú út sem ekta "redneck" og hnykla upphandleggsvöðvana aðeins með ýtrustu varúð.
En dvölin nyðra var góð, ómegðin lék við hvern sinn fingur í sandinum og sofnaði sæl og kát á kvöldin.
Himbrimar og endur skemmtu krökkunum og froskar og snákar vöktu sömuleiðis kátínu. Bryggjur og bátar þykja einnig skemmtilegir hlutir og hægt að skemmta sér tímunum saman við það eitt að henda steinum út í vatn.
Spáin framundan er að heldur fari að draga úr hitanum, líklega hefur þetta verið með seinustu sumardögunum og líklegt að haustið fari að taka við hvað úr hverju.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.