8.7.2008 | 05:09
Súmi, Eesti og Ísland
Þá er að koma að því að Bjórárfjölskyldan leggi land undir fót og haldi til Evrópu. Það er allt að verða klárt og spennan fer stöðugt vaxandi, sérstaklega finnst Foringjanum tímabært að halda af stað. Búið að finna eftirlitsmann með húsinu og langt komið að pakka.
En það verður flogið héðan frá Toronto annað kvöld, stutt stopp á Íslandi á miðvikudagsmorgun, rétt um einn og hálfur tími og síðan haldið til Helsinki. Þaðan verður haldið landleiðina til Turku. Síðan verður tekin ferja yfir til Eistlands annað hvort föstudag eða laugardag.
Mestum tíma verður eytt á meginlandinu, en meiningin er þó að eyða nokkrum tíma á Saaremaa (Eysýslu), eyju þar vestur af ströndinni.
Síðan verður stoppað nokkra daga á Íslandi á heimleiðinni, í byrjun ágúst.
En þetta er í marga staði nokkuð merkileg ferð. Þetta er í fyrsta sinn sem blessuð börnin koma til Eistlands, jafnframt fyrsta sinn sem Jóhanna kemur til Íslands og við þrjú sömuleiðis að koma í fyrsta sinn til Finnlands.
Þeir dagar sem ég dvel í Finnlandi verða reyndar í þeir fyrstu sem ég dvel í landi þar sem euro er gjaldmiðill. Við keyptum 300 í bankanum í dag.
Spennan er svo ekki síst hvernig gengur að ferðast með börnin, sérstaklega Jóhönnu litlu. Það verður vissulega auðveldara ef við verðum í vél þar sem búið er að setja sjónvarpsskjái fyrir hvert sæti, en svo verður reyndar ferðatölvan með í för, þannig að hægt verði að slengja mynd í ef í harðbakkann slær. Svo vonumst við auðvitað eftir að þau sofi sem mest.
En þetta ferðalag verður til þess að líklegast verður einhver óregla á þessu bloggi (ef ekki sömuleiðis bloggaranum) en þó verðum við vonandi í þokkalegu netsambandi megnið af tímanum, en eftir því sem mér skilst er er mikið af "heitum reitum" í Eistlandi og flestir opnir og ókeypis. En við sjáum til.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 05:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.