Trúin flytur fjöll

Gleðlega Páska

Við erum búin að hafa það ósköp gott.  Reyndar eru páskar öllu "styttri" hér í útlandinu, en föstudaginn fá þó flestir sem frídag.  Ekki þó endurskoðandinn okkar, en við notuðum föstudaginn eins og svo margir aðrir hér til að ganga frá skattaskýrslunum okkar með dyggri aðstoð hans.

Laugardagurinn var svo notaður til langrar gönguferðar og um kvöldið snædd grilluð íslensk lúða.  Ekki beint mitt uppáhald, en konan elskar íslenskan fisk.

Nú í morgun var svo tekið til við páskaeggin.  Ég fékk málsháttinn "Trúin flytur fjöll".  Ég veit ekki alveg hvernig ég á að taka þessum.  Nú hef ég reyndar oft lýst því yfir að ég sakni fjallasýnar, og mér finnist tilfinnanlega vanta tignarleg fjöll hér í Ontario, en er þetta ábending um að það sé vegna vöntunar á trúarhita af minni hálfu? 

Leifur Enno fékk "Eftir höfðinu dansa limirnir".  Hann hefur svo sem ekki tjáð sig sérstaklega um málsháttinn, en ég hef hann sterklega grunaðan um að líta svo á að þetta sé staðfesting á forystuhlutverki sínu í fjölskyldunni, hann sé höfuðið, og við limirnir sem ætlað sé að dansa eftir hans óskum og vilja, bera fram mat og kræsingar og sjá til þess að nægt súkkulaði sé á boðstólum.

Annars var hann um 11. leytið farinn að kyrja eins og búddamunkur, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði.  En þetta bráði af honum og hann varð aftur eins og hann á að sér að vera.  En þetta er samt ábyggilega mikill sæludagur að hans mati, enda passar tannlæknirinn á heimilinu upp á það að sælgæti sjáist sjaldan.  Ég reyndi að útskýra fyrir henni, þegar hún var að segja að ég  þyrfti ekki að klára allt páskaeggið mitt í dag, að sá hæfileiki að geta etið mikið súkkulaði á stuttum tíma, væri eitt af því sem gerði okkur að íslendingum, það væri partur af menningararfi okkar, en ég held að hún hafi ekki "keypt" það.

Konan fékk málsháttinn "Betri er bið en bráðræði", eins og áður sagði held ég að hún hafi viljað meina að þessi ætti beint við páskaeggjaát, en ég hefði getað sagt henni frá mörgu sem þetta ætti betur við, hefði hún bara spurt.

Konan bjó hins vegar til egg á eistneskan máta, sauð hænuegg vafinn inn í laukhýði, sem þannig taka á sig lit og verða næstum eins og marmaraegg útlítandi, en þetta er ágætisskraut, en eru auðvitað í engu frábrugðin venjulegum eggjum í bragði, og kæta því lítið íslendinginn.

En þetta verður ábyggileg ljúfur dagur, alla vegna hef ég trú á því, ekki minnstan part í því koma vonandi til með að eiga steikurnar sem ég keypti í gærmorgun, sem og rauðvínið sem ég keypti í ÁTVR okkar Ontariobúa, en það nefnist LCBO.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband