Af hreppapólítík

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum þeim sem fylgst hefur með prófkjörum undanfarnar vikur að "hreppapólítík" hefur spilað þar nokkuð stóra rullu.

Það má líklega segja að einu kjördæmin sem séu ekki snert af "hreppapólítíkinni" séu Reykjavíkurkjördæmin, og þó hafa stundum heyrst þar raddir um að Grafarvogurinn og önnur hverfi þurfi nauðsynlega á þingmanni að halda.

En oft er talað niðrandi um "hreppapólítíkina", hún og "fyrirgreiðslupólítíkin" eru spyrt saman og þykja ákaflega óheilbrigð og óæskileg.

En það er hægt að líta á þetta frá fleiri en einu sjónarhorni.  Sé það haft í huga að á Íslandi ríkir fulltrúalýðræði, það er að segja að almenningur kýs sér fulltrúa sína á þing, þá er ekki óeðlilegt að kjósendur hafi nákvæmlega það í huga, að fulltrúinn sé þeirra og þeir vilji að hann beri hagsmuni sinna kjósenda og heimkynna þeirra í huga og beri þau upp á Alþingi.

Því fer auðvitað fjarri að hagsmunir meginþorra Íslendinga liggi saman, nema í stærri málum, og það er því nauðsynlegt fyrir kjósendur og byggðarlög að hafa fulltrúa sína á þingi til að gæta sinna hagsmuna.

Því nauðsynlegra hefur þessi "hreppapólítík" orðið eftir því sem hið opinbera hefur bólgnað út, sjóðir þess stækkað og verkefnin eftir því orðið "tröllaukin" og fátt gerist "heima í héraði" án þess að ráðherrar og þingmenn "véli" þar um.

Við getum líka ímyndað okkur að ef höfuðborgarsvæðið væri nú gert að einu kjördæmi, þá færi líklega fljótt að heyrast hljóð úr horni, ef allir þingmennirnir kæmu úr Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Kópavogi.

Við höfum líka heyrt í akureyringum, sem telja sig hlunnfarna í skiptingu þingmanna í Norð-Austur kjördæminu.  Þeir benda á að þeir séu u.þ.b. 42% atkvæðabærra þingmanna í kjördæminu, en margir þar vilja meina að þeir hafi ekki haft neinn þingmann, síðan Tómas Ingi Olrich hætti. 

En tveir af þingmönnum kjördæmisins koma frá Siglufirði, svo dæmi sé nefnt. Skyldi það hafa haft áhrif á það að nú er byrjað á tröllaukinni framkvæmd sem er göng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar?

5 af núverandi þingmönnum í kjördæminu koma frá Austurlandi, 2. þingmenn frá Þingeyjarsýslum og 1. þingmaður hefur lögheimili sitt á Akureyri, en þó eru skiptar skoðanir þar, hvort menn vilja líta á hann sem akureyring eður ei.

Er það skrýtið að akureyringar vilji rétta hlut sinn?

Í "Kraganum" svokallaða eru nokkur sterk sveitarfélög.  Það sagði mér trúverðugur maður að í prófkjöri Samfylkingarinnar hefði auðveldlega mátt þekkja í sundur atkvæðaseðla úr Kópavogi og Hafnarfirði.  Gunnar Svavarsson var einfaldlega ekki á seðlunum úr Kópavogi.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins var hringt út og sagt að Hafnarfjörður fengi 1. sætið, Garðabær 2. sætið og því væri það áríðandi að Kópavogur fengi það 3.  Það væri blátt áfram nauðsynlegt fyrir bæjarfélagið, og fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að fá þar atkvæði í vor.  Kópavogur er stærsta sveitarfélagið í kjördæminu.

Við höfum séð svipaða hluti gerast bæði í "Suðrinu" og Norð-Vestur kjördæmi.  Má þar til dæmis nefna slagkraft vestmanneyinga, sem hefur þó ekki dugað alltaf.  Einnig heyrist vaxandi óánægja frá Suðurnesjum.

En hvað er til ráða?

Ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af smærri kjördæmum, þó hrífst ég ekki af einmenningskjördæmum, ég held að þau geti orðið hættuleg lýðræðinu.  Það mætti jafnvel hugsa sér "þéttbýliskjördæmi" og svo aftur "dreifbýliskjördæmi".  Stærri staðir svo sem Akureyri, Egilsstaðir, Fjarðabyggð, Hafnarfjörður, Kópavogur, Akranes (eða Akranes og Borgarnes saman) og síðan yrði dreifbýlið í víðfeðmari kjördæmum.

En ég held að fleiri og fleiri séu að sjá að núverandi kjördæmi eru alltof víðfeðm.

Ég hef áður bloggað um kjördæmamál, sem finna má hér og hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband